Eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 12:01:19 (7070)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég get í meginatriðum lýst stuðningi mínum við það frv. sem hér liggur frammi um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Megininntak þess er að við sköpum okkur grundvöll til þess að framfylgja þeim undanþágum sem við fengum gagnvart samningnum um EES þess efnis að við héldum hér uppi strangari skilyrðum varðandi lyfjanotkun í fóðurframleiðsu, svo og um áburðarnotkun. Ég tel að þetta sé afar mikilvægt fyrir okkur sem matvælaframleiðsluþjóð í þeirri viðleitni okkar að sýna fram á það að við framleiðum hér matvöru sem sé bæði hrein af aðskotaefnum og sömuleiðis að lyf séu eingöngu notuð til meðhöndlunar sjúkdóma.
    Það hefur verið unnið nokkurt starf á síðustu missirum varðandi það að sýna fram á hreinleika íslenskrar matvöru og það er vel því það duga ekki orðin tóm í því. Við verðum að geta vísað til rannsóknaniðurstaðna og samkvæmt því sem nú er komið fram --- og þar vitna ég í þær rannsóknir sem hafa verið gerðar með efnainnihald mjólkurafurða --- eru þessar vörur okkar mjög hreinar af öllum slíkum efnum. Þetta segi ég m.a. vegna þess að við hljótum að stefna að því í framtíðinni að útvíkka það svið, matvörur sem við flytjum út, og vinna nýja markaði fyrir hágæðalandbúnaðarvörur. Það tekur að vísu langan tíma. Það er ekkert sem við eigum í hendi á næstunni, en ég hef bent á það á öðrum vettvangi að það væri mjög æskilegt að þar leituðu menn samvinnu við þá aðila sem hafa séð um markaðssetningu og vöruþróun í fiskafurðum fyrir okkur, m.a. með það fyrir augum að í framtíðinni þegar við förum að selja meira unna vöru gæti þar orðið um að ræða vöru sem væri unnin úr blönduðu hráefni, bæði frá sjónum og landinu. Ég veit reyndar að einstakir aðilar eru farnir að þreifa fyrir sér með slíka hluti.
    Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki meira um þetta að segja nema hvað ég vil ítreka það við ráðherra að það verði strax farið að vinna að því hvernig við ætlum að setja fram okkar mál um áramótin 1995/1996 þegar eru þau tímamót varðandi þær undanþágur sem við höfum fengið og að við undirbyggjum vel þær kröfur okkar sem við hljótum að setja fram um að fá að viðhalda þeim undanþágum áfram.