Útflutningur hrossa

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 13:33:56 (7073)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti landbn. Alþingis um frv. til laga um breytingu á lögum um útflutning hrossa.
    Um langa tíð hefur verið lögbundið að ríkissjóður greiði kostnað við skoðun útflutningshrossa. En þetta lagaákvæði hefur hins vegar um árabil verið óvirkt og þessi kostnaður greiddur af þeim sem útflutninginn hafa annast. Með þessari breytingu er því einungis verið að færa lögin til þess horfs sem í rauninni er í framkvæmd. Hér er þess vegna ekki um nýjan kostnað eða skattlagningu að ræða í þessu tilviki og ber að undirstrika það alveg sérstaklega.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og kallað fyrir sig þá aðila sem best þekkja til framkvæmdar þess, auk þess sem nefndinni bárust greinargerðir frá ýmsum aðilum.
    Nefndin varð þess áþreifanlega vör að hér er um óþarflega flókna framkvæmd að ræða og það kom skýrt fram í samtölum við þá aðila sem til nefndarinnar komu að e.t.v. væri hægt að einfalda þessi mál betur og gera þau jafnvel kostnaðarminni og ódýrari í framkvæmd heldur en nú er. Þess vegna varð nefndin sammála um að beina því til landbrh. hvort ekki væri eðlilegt að endurskoða þær reglur sem um þetta giltu og það fyrirkomulag sem nú er uppi með það fyrir augum að gera þessi mál einfaldari og auðveldari í framkvæmd.
    Þetta læt ég nú nægja, virðulegur forseti, til viðbótar við nefndarálitið sjálft og vænti þess að hér

séu mál skýrð með þeim hætti að dugi til þess að málið nái framgangi í þinginu.