Ríkisreikningur 1991

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 15:04:58 (7079)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ríkisreikningur er eðli máls samkvæmt niðurstaða þess hvernig tekist hefur til við stjórn ríkisins hverju sinni. Það hlýtur því að vekja athygli manna að meðan við erum að ræða um endurskoðun ríkisreiknings árið 1991 er ekki einn einasti maður í salnum sem situr fyrir meiri hlutann í hv. fjárln. Það er einn ráðherra staddur hér. Svo vill til að eðlilegt hefði verið að eiga orðastað við ýmsa aðra ráðherra vegna þeirra athugasemda sem hér koma fram. Maður hlýtur að spyrja sig, hæstv. forseti, (Gripið fram í.) já, hæstv. forseti, sem nú situr, er vissulega fulltrúi meiri hlutans og raunar manna fróðastur um það mál sem hér er á dagskrá, en hann á ekki marga kosti nú að ræða þetta mál.
    En menn hljóta að spyrja, hæstv. forseti: Hafa þingmenn einhvern áhuga á rekstri ríkisins þegar þeir sjá ekki ástæðu til þess að hlýða á þær umræður sem fara fram um athugasemdir Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings? Ég hlýt að byrja ræðu mína á því að lýsa yfir undrun minni að hér skuli nær eingöngu vera staddir þeir hv. þm. sem tilheyra minni hluta hv. fjárln. og sem dæmi um að áhuginn virðist ekki vera mikill telur formaður fjárln. ekki ástæðu til þess að sitja undir þessum umræðum. ( Fjmrh.: Hann var hér rétt áðan.) En nóg um það. Það er ekki nóg að hann hafi verið hér, hann er hér ekki, hæstv. ráðherra.
    Ég skal reyna, hæstv. forseti, að endurtaka ekki mikið af því sem aðrir hafa sagt, en vildi þá kannski frekar vekja athygli á nokkrum atriðum sem ég held að hafi ekki komið fram, en auðvitað hlýt ég að minnast á eitthvað það sem aðrir kunna að hafa nefnt.     En fyrst vegna síðustu orða síðasta hv. ræðumanns þá tel ég mjög illa farið ef samþykktir á ríkisreikningum hvers árs fara að dragast. Við töldum það til mikilla bóta þegar farið var að sýna ríkisreikning mjög fljótt og þegar á næsta ári og fyrrv. hæstv. fjmrh. gerbreytti vinnubrögðum í þeim efnum. Þegar hann tók við embætti lagði hann fram ríkisreikning síðustu 10 ára og má geta nærri hve mikinn áhuga menn höfðu á ríkisreikningum sem voru 10 ára gamlir og margir hverjir orðnir til löngu áður en þeir þingmenn, sem um hann fjölluðu, komu á þing. Þess vegna hafði von okkar verið sú að ríkisreikningur yrði afgreiddur jafnóðum og jafnframt að menn reiddu ekki fjárhæðir af hendi án heimilda og þess vegna yrðu fjáraukalög einnig lögð fram jafnóðum. Í endurskoðun ríkisreiknings fyrir 1991 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Yfirskoðunarmenn fóru yfir ríkisreikninginn með hliðsjón af fjárlögum ársins 1991. Þeir telja að nauðsynlegt sé að samræma enn betur en gert hefur verið uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings. Þeir leggja áherslu á að fjárlög og ríkisreikningur verði á sambærilegum grunni og að tölur á bak við hvern lið eigi sér sama uppruna. Í því skyni er óhjákvæmilegt að setja reglur um færslu svokallaðra safnliða þannig að samlestur á ríkisreikningi og fjárlögum sýni raunverulegar tilfærslur og breytingar.``
    Eins og nú háttar til vantar verulega á að ríkisreikningurinn sé gagnsær miðað við fjárlögin og fjáraukalög sem samþykkt eru á fjárlagaárinu. Í þinginu liggur nú frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1991 og ég tel alveg nauðsynlegt, hæstv. forseti, að þessi tvö gögn verði samþykkt og fái afgreiðslu samtímis. Ég á mjög erfitt með að fallast á að það verði að bíða þangað til einhver ágreiningur, sem er uppi og hér hefur auðvitað komið fram, verður leystur. Ég get ekki betur séð en Alþingi hljóti að virða athugasemdir Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og hæstv. ráðherra verði ósköp einfaldlega að lúta þeirri niðurstöðu svo að menn hætti nú að jagast um hvernig eigi að bókfæra greiðslur úr ríkissjóði enda segir einnig í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Rétt er að minna á og rifja upp þá tímabæru breytingu sem átti sér stað á árinu 1989 er fólst í því að leita nýrra útgjaldaheimilda innan viðkomandi fjárlagaárs með fjáraukalögum. Það fyrirkomulag er í mun betra samræmi við fyrirkomulag stjórnarskrárinnar í þessu efni og gerir Alþingi kleift að rækja betur hlutverk sitt um afgreiðslu heimilda áður en greiðsla er innt af hendi.`` Enn fremur segir: ,,Í þessu sambandi má benda á þann ágreining sem verið hefur milli fjmrn. og Ríkisendurskoðunar um þær uppgjörsaðferðir sem beitt hefur verið hjá ríkissjóði. Í megindráttum hefur ágreiningurinn snúist um það hvort í yfirliti um fjármál ríkissjóðs innan ársins og í fjárlögum og fjáraukalögum eigi að sýna allar lántökur og lánasamninga, sem ríkissjóður gerir eða yfirtekur á viðkomandi uppgjörstímabili, óháð greiðslufyrirkomulagi eða hvort einungis beri að sýna þá lánasamninga sem hafa haft greiðslur í för með sér.``
    Ég vil aðeins segja um þetta atriði sem hér hefur verið tekist á um, sem er yfirtaka ríkissjóðs á Framkvæmdasjóði, að það hlýtur að vera rétt hjá Ríkisendurskoðun að það er auðvitað ekki hægt að bókfæra þá ábyrgð fyrr en Alþingi hefur samþykkt hana. Svo einfalt er það. Þangað til er hún ekki á borðinu. Ég held að menn hljóti að verða að fallast á að þetta mál beri að leysa eins og Ríkisendurskoðun segir.
    Ég ætla að minnast á örfá atriði, sem hér koma fram, og mun þá aðeins fletta í gegnum ritið sem liggur á borðum okkar og þá fyrst á bls. 12 þar sem talað er um aukagreiðslur. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ný lög um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, hafa m.a. að markmiði að samræma laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins, þar með taldar ýmsar aukagreiðslur sem því starfi kunna að fylgja. Í ljósi þessa telja yfirskoðunarmenn tímabært að gera heildarúttekt á ýmiss konar aukagreiðslum utan kjarasamninga til annarra ríkisstarfsmanna en þeirra er undir Kjaradóm og kjaranefnd falla.``
    Það má kannski hafa gaman af því að eina slíka aukagreiðslu fá yfirskoðunarmenn ríkisreiknings og hana mjög ríflega. Ekki veit ég hvernig hún hefur verið ákveðin, en þar er um umtalsverða fjármuni að ræða. En þess vegna minnist ég á þetta að fyrir nokkrum dögum mátti lesa í dagblöðum bæjarins að yfir 300 ríkisstarfsmenn væru með yfir 3 millj. í árstekjur. ( Fjmrh.: Þetta er í svari frá Alþingi.) Þetta kom fram í svari frá Alþingi, þá þess heldur. Hæstv. ráðherra hefur leiðrétt mig og segir að þetta komi fram í svari á Alþingi.
    Okkur sem erum ansi fjarri slíkum upphæðum hlýtur að vera forvitni á að vita hvaða starfsmenn ríkisins ná þessum umtalsverðu tekjum sem eru órafjarri öllu því sem heitir kjarasamningar. Auðvitað eiga slíkar greiðslur ekkert að eiga sér stað þó að við vitum öll hvernig þær eru til komnar, óunnin yfirvinna, bifreiðastyrkir og alls kyns hlunnindi sem hvergi koma raunverulega fram sem laun en eru auðvitað laun engu að síður.
    Á bls. 14 er minnst á atriði sem ég hef líka oft gert athugasemd við sem eru svokallaðir safnliðir en það eru upphæðir sem hvert ráðuneyti fær fyrir sig til þess að deila út eftir því sem þurfa þykir. Eitt ráðuneyti hefur mikið af slíkum safnliðum og er það menntmrn. og fjárln. hefur raunar lagt í það vinnu að skipta þessum safnlið að verulegu leyti. Ríkislögmaður hefur komist að þeirri niðurstöðu að sú útdeiling fjárln. hafi raunverulega ekkert praktískt gildi vegna þess að Alþingi hafi ekki samþykkt þá útdeilingu, sem er auðvitað rétt, þar sem ekki birtist í fjárlögum hvað hefur fallið í hlut hvers aðila. Sú vinna fjárln. tel ég að sé alveg marklaus nema listi yfir þessar úthlutanir birtist á fjárlögum. Ég sé nú að hæstv. fjmrh. kinkar kolli, ég vona til samþykkis.
    Sannleikurinn er sá að þessir safnliðir hafa verið algerir huldusjóðir og enginn fær að vita hvað við þessa fjármuni er gert og heilu jarðirnar hafa verið keyptar án þess að nokkur heimild hafi legið fyrir því svo að dæmi séu tekin og ætla ég nú ekki að rifja upp ævintýrið um jörðina Flekkuvík enn einu sinni. En þau jarðakaup hefðu þótt mikill brandari í mínu byggðarlagi á sínum tíma.
    Á bls. 14 er einnig vikið að tölvukaupum ríkisins og hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Yfirskoðunarmenn telja að taka verði á tölvumálum ríkisins og ríkisstofnana með markvissari hætti en gert hefur verið. Ekki er kunnugt um að til sé nein samræmd opinber stefna í tölvumálum ríkisins`` og nú bið ég menn að hlusta ,,þó að til þessa málaflokks sé árlega varið að því er talið er 3 milljörðum kr.``
    Við áttum nokkurn orðastað um þessi mál, hæstv. fjmrh. og ég, fyrr í vetur þar sem ég benti á að mér þætti óþarflega mikið í lagt vegna tölvukaupa embættis sem heyrir undir hans ráðuneyti sem var skattrannsóknastjóraembættið og án þess að ég væri að ásaka starfsmenn þar á bæ um nokkurn skapaðan hlut, en bað menn um að fara varlega í tölvuævintýrinu sem hér hefur gengið yfir á undanförnum árum. Sannleikurinn er sá að Íslendingar hafa töluvæðst hraðar og og ég leyfi mér að fullyrða, meira en flestar aðrar þjóðir og við högum okkur stundum í þeim efnum eins og við séum 250 millj. en ekki 250 þús. Ég man ekki hvort ég hef áður minnst á það að mig rak í rogastans þegar ég kom á þing Sameinuðu þjóðanna og sá menn sitja --- ekki með rafmagnsritvélar --- heldur gamlar ritvélar sem við köllum hakkavélar nú til dags. En Bandaríki Norður-Ameríku virðast alveg komast af án þess að tapa áttum í þessu ævintýri. Ég held að það sé kominn tími til að staldra við, og Ríkisendurskoðun virðist vera sammála mér um það og hún talar um að yfirskoðunarmenn hafi óskað eftir því við Ríkisendurskoðun að stofnunin geri sérstaka úttekt á þessum málaflokki. Þeir fjármunir sem hafa farið í tölvur á Íslandi eru út úr öllu korti. Auðvitað eru tölvur nauðsynlegar og þægilegar en ég held að meiri samnýting á þeim tækjum hefði skilað betri árangri en raun ber vitni og minni pappírseyðslu.
    Svo aðeins sé vikið aftur að alls kyns launagreiðslum sem virðast fá að ganga sjálfala að sumu leyti er á bls. 17 minnst á þegar talað er um flugmálasviðið að við síðustu kjarasamninga hafi launakjör flugumferðarstjóra hækkað án alls samhengis við kjör annarra opinberra starfsmanna. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Telja verður að samninganefnd ríkisins beri að varast slíka hluti.`` Ég spyr: Hvernig stendur á þessu? ( Fjmrh.: Þingmaðurinn á að spyrja ráðherrann.) Hæstv. forseti. Mér heyrðist hæstv. fjmrh. biðja mig að spyrja ráðherra. (Gripið fram í.) Fyrrv. ráðherra. Ég tel að núv. ráðherra hljóti að verða að svara fyrir ráðuneytið þó að það varði hluti sem voru fyrir hans tíð.
    Skóladæmi upp á eyðslu, sukk og sóun í þjóðfélagi okkar er einmitt á flugmálasviðinu þar sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar er æpandi dæmi um hvernig örfáir menn hafa fengið að leika lausum hala og safna takmarkalausum auði með því að byggja mannvirki eins og flugstöðin er. Væri öll sú saga nóg til þess að í öðrum löndum hlytu ráðherrar að fjúka. En hér í landi virðist ekkert duga til að losna við þá.
    Hæstv. forseti. Örfá önnur atriði sem hafa orðið á vegi mínum við lestur þessarar endurskoðunar:
    Í kafla sem fjallar um endurbætur Þjóðleikhúss kemur fram að 12. apríl 1991 hafi menntmrh. og fjmrh. gefið út skriflega yfirlýsingu þess efnis að þeir mundu beita sér fyrir því að fjárveiting fengist á fjáraukalögum fyrir allt að 220 millj. kr. til aukinna framkvæmda við endurbætur hússins, þ.e. Þjóðleikhússins. Svo segir hér: ,,Á grundvelli yfirlýsingarinnar tók verktakinn erlent lán að fjárhæð 220 millj. kr. með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs og var lánið síðan greitt upp af ríkissjóði í október 1991. Ríkisábyrgðin, lántakan og uppgreiðsla lánsins voru gerð án heimildar Alþingis.`` Maður spyr: Hvað á þetta að þýða? Mér er alveg ljóst, hæstv. forseti, að fyrrv. hæstv. fjmrh. stóð fyrir þessu, það breytir engu, það breytir engu fyrir mér. Það virðist heldur ekki hafa staðið í hæstv. núv. fjmrh. að greiða skuldina ef ég skil rétt.
    Síðan kemur langur listi yfir athugasemdir um ýmsar stofnanir menntmrn. þar sem bókhald er oft og tíðum ekki eins og skyldi, eins og segir hér, áritanir og skýringar á tilefnum gjaldreikninga oft ófullnægjandi, aksturssamningur vegna aksturs starfsmanna umfram 1.000 km í þágu stofnana eru oft og tíðum ekki fyrir hendi og eignaskrár þeirra stofnana sem teknar voru til athugunar vantaði oftar en ekki.
    Ég er ansi hrædd um að þetta verði að taka alvarlega og gera einhverjar úrbætur á. Löngum hefur verið vitað að utanrrn. hefur t.d. lítið eftirlit haft með sendiráðum þjóðarinnar og eignaskrár þar verið afar ófullkomnar og þarf svo sannarlega að bæta úr því.
    Það er auðvitað ekkert nema sorgin sjálf að sjá fleiri tugi milljóna sem farið hafa í að þýða EES-samninginn, sem mikill vafi er á að nokkurn tímann verði að veruleika, og hefði þeim milljónatugum verið betur varið öðruvísi en um það þýðir líklega ekki að fást úr þessu.
    Ef við flytjum okkur út í sjútvrn. kemur þar heilmikil upptalning af sjóðum sem eru í vörslu ráðuneytisins og þar er hægt að lesa ýmislegt skrýtið. Einn þessara sjóða er sérstakur sjóður til hvalarannsókna, og þar segir að á árinu 1985 hafi Hafrannsóknastofnun og Hvalur hf. gert með sér samning vegna veiða á hval í vísindaskyni. Ég óskaði eftir að fá reikninga þessa sjóðs og á þeim reikningum, sem voru undarlegir í betra lagi, stóð ,,Hvalasjóður, Grindavíkurhús`` og mér hefur ekki tekist á fá neina skýringu á því hvað þetta Grindavíkurhús er og vildi gjarnan fá að vita hvort ráðherra veit eitthvað um það frekar. Nú, það eru tveir sjóðir vegna hvalveiðimála. Annar þessi sjóður er sérstakur sjóður til hvalarannsókna og úr honum á einungis að verja fé til hvalarannsókna. Eigið fé sjóðsins nam 19,1 millj. í árslok 1991 og rekstrarhagnaður ársins 3,9 millj. kr. Um hinn sjóðinn sem heitir Hvalasjóður segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Um Hvalasjóð er ekki svo kunnugt sé að finna nein ákvæði í lögum eða reglugerð. Á sínum tíma mun andvirði ólöglegs hvalaafla hafa runnið í sjóðinn.`` Þegar farið er að skoða þessa mjög svo ófullkomnu reikninga þá kemur fram að þar hefur verið greidd risna, filmur og ýmislegt sem erfitt er að sjá hvað koma þessum sjóðum við. En um Hvalasjóðinn segir þó: ,,Ekki er að fullu ljóst hvaða hlutverki sjóðnum er ætlað að gegna en hann mun m.a. hafa staðið að hluta undir ýmsum kostnaði hinna svokölluðu hvalamála, þ.e. baráttunni fyrir veiði og nýtingu hvala.``
    Ég mun auðvitað ekki linna látum, hæstv. forseti, fyrr en hæstv. fjmrh. hefur látið mig hafa hvern einasta reikning sem hefur verið greiddur úr þessum sjóði. Hvern einn og einasta. Ég hlýt auðvitað að eiga rétt á því sem þingmaður og sem nefndarmaður í fjárln. vegna þess að ég veit ósköp vel hvert þessir peningar fóru en ég ætla ekki að segja það fyrr en ég hef það á pappír. Og það er nú ekki falleg saga.
    En í stórum dráttum er auðvitað alveg óþolandi að þessir sjóðir séu meira og minna eftirlitslausir enda er tekið fram að þessir sjóðir, sem eru fjölmargir, hafi að geyma umtalsverða fjármuni. Þeir eru að vísu gerðir upp af löggiltum endurskoðanda en hvorki er fjallað um tekjur sjóðanna, ráðstöfun þeirra í fjárlögum né eru þeir uppfærðir í ríkisreikningi á árinu 1991. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að mati Ríkisendurskoðunar eru þessir sjóðir þess eðlis að færa ætti þá í ríkisreikningi auk þess sem fjalla ætti um ráðstöfun fjármuna þeirra á fjárlögum.`` Að sjálfsögðu. Auðvitað eiga einstakir ráðherrar ekkert að sitja yfir sjóðum með umtalsverðum fjármunum sem þeir geta ráðstafað eftir eigin geðþótta. Það er auðvitað alls ekki við hæfi og ég vona að gengið verði eftir því að þessu linni.
    Ég harma auðvitað að geta ekki átt nokkurn orðastað við hæstv. félmrh. Mér sýnist að í félmrn. sé langt frá því allt sé eins og það á að vera. Hér eru gerðar verulegar athugasemdir við einstakar stofnanir um málefni fatlaðra á Vestfjörðum, Austurlandi, Suðurlandi, Tjaldanesheimilið og fleiri. Það er auðvitað mikill skaði ef þeim, sem þessum góðu stofnunum stjórna, tekst ekki að reka þær þannig að gagnrýni sé óþörf. Málefnið er vissulega gott en þarna sýnist töluvert vanta á að farið sé að eðlilegum bókhaldsreglum og heimilda leitað til greiðslna.
    Hæstv. forseti. Ég skal fara að stytta mál mitt enda ekki við marga að tala, áhugi á þessu máli virðist ekki vera tiltakanlegur. Ég tek undir þær athugasemdir sem eru gerðar við umhvrn. Auðvitað er mjög leitt ef þetta nýja ráðuneyti virðist ekki fylgja einföldustu reglum um bókhaldsskyldu og að fylgiskjöl liggi fyrir vegna útgjalda stofnunarinnar.
    Fjárln. fær þetta mál til meðferðar og ég vænti þess að hún sýni því meiri áhuga innan nefndarinnar en hún hefur gert á þessum fundi. Ég ítreka það sem hefur áður komið fram að endurskoðun ríkisreiknings er auðvitað marklaus ef ekki er gengið mjög hart eftir að athugasemdir séu virtar og eftir þeim farið og gengið eftir að hinar ýmsu stofnanir lagfæri það sem ábótavant er því að annars er þetta bara pappírsplagg eins og tíðkaðist áður fyrr þegar ríkisreikningar hrönnuðust upp á heilum áratug án þess að vera lagðir fyrir Alþingi. Þá litu menn auðvitað bara á þetta sem pappírsplagg sem enginn nennti að lesa og fór

gegnum þingið án athugasemda. Nú hefur verið unnið verk til að lagfæra þetta og það hlýtur auðvitað að vera krafa okkar að fjáraukalög fyrir árið 1991, sem eru enn óafgreidd, fái nú afgreiðslu ásamt ríkisreikningnum og síðan að þingið fari ekki heim, hæstv. forseti, fyrr en komin eru fjáraukalög fyrir árið 1993. Það er ljóst að áður en þing kemur saman aftur vantar heimildir fyrir greiðslum, t.d. úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Ef á að fara að byrja þann leik aftur að greiða umtalsverða fjármuni án heimildar þá þykir mér illa farið. Ég legg því mikla áherslu á það að þessi tvö plögg hljóti að fylgjast að og við hreinsum borð okkar áður en við förum heim af þinginu.