Ríkisreikningur 1991

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 16:20:37 (7083)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er ekki margt, það er einungis það sem snýr að ábendingum yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og umfjöllun fjmrn. um þær ábendingar. Ég held að hv. fjárln. þurfi aðeins að gera sér grein fyrir stöðu okkar í þessum efnum og hvert hlutverk hvers aðila er. Mér finnst a.m.k. í seinni tíð

ábendingar yfirskoðunarmanna vera mjög góðar og auðvitað þarf að tryggja að þær fái umfjöllun. Ég er hins vegar ekki sammála því að þetta sé einhver dómur sem eigi að fara eftir heldur séu þetta ábendingar. Ég tel að fjárln. eigi að vera nokkurs konar eftirlitsaðili í þeirri merkingu sem til að mynda þekkist sums staðar á Norðurlöndum enda liggur það nokkuð í hlutarins eðli. Það þýðir að fjárln. getur á hverju ári, t.d. við fjárlagaundirbúninginn og fjárlagagerðina, fylgst með því hvort farið er að ráðum yfirskoðunarmanna sem Alþingi hefur kosið. Ég fagna því ef fjárln. ræddi í umfjöllun sinni um málið nokkuð um hlutverk hennar í þessum efnum. Þetta vildi ég einungis segja um innheimtumálin. Ég vil svo bæta því við að ég hef auðvitað rætt mjög ítarlega við ríkisendurskoðanda um þau mál sem okkur greinir á um. Ég á von á athugasemdum frá Ríkisendurskoðun ekki síst vegna þess hvernig framsetning fjmrn. var í svari við fsp. frá hv. þm. Árna Mathiesen en sú framsetning var nokkuð hvatvís og kannski stundum sterkt tekið til orða þótt það breyti ekki því að um ágreining er að ræða hvernig eigi að mæla innheimtuárangurinn. Ég vonast til þess að þær athugasemdir sem ríkisendurskoðandi mun gera fari til nefndarinnar og þá sé hægt að skoða þær jafnframt.