Fjáraukalög 1992

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 16:32:17 (7086)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til endanlegra fjáraukalaga fyrir árið 1992 en með því eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöðutölur um greiðslur úr ríkissjóði á árinu 1992 umfram þær heimildir sem veittar hafa verið af Alþingi í fjárlögum 1992 og lögum nr. 118/1992, fjáraukalögum fyrir árið 1992. Með frv. að þeim lögum sem lagt var fyrir Alþingi í okt. sl. fylgdi ítarleg greinargerð um framvindu ríkisfjármála á árinu 1992 og þær heimildir sem óskað var samþykktar á umfram heimildir fjárlaga. Þá var í febrúar sl. lögð fyrir Alþingi ítarleg skýrsla um ríkisfjármál ársins 1992 þar sem afkoma ríkissjóðs er skýrð í samanburði við áform samkvæmt fjárlögum og útkomu þess árs. Ég mun því aðeins stikla á helstu atriðum um framvindu og niðurstöður ríkisfjármála en vísa að öðru leyti til fyrrnefndrar skýrslu og greinargerðar með fjáraukalögum sl. haust.
    Rekstrarhalli ríkissjóðs varð samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkisbókhalds 7,2 milljarðar kr. eða tæpum 2 milljörðum kr. lægri en áætlun sem gerð var í tengslum við frv. til fjáraukalaga í september sl. Áætlunin gerði ráð fyrir að allar útgjaldaheimildir fjárauka- og fjárlaga væru nýttar á árinu. Svo fór þó ekki og munar þar mestu um lægri vaxtagreiðslur sem nam 1,1 milljarði kr. og minni stofnkostnaði að fjárhæð 1 milljarði kr. Í heild urðu gjöldin 2,5 milljörðum kr. innan heimildar. Þá reyndust tekjur 0,4 milljörðum kr. hærri en áætlanir fjárauka- og fjárlaga. Ég tek fram að hér er samþykktum fjáraukalögum haustsins bætt við fjárlagaheimildirnar.
    Heimildir til lántöku umfram það sem ætlað var í lánsfjárlögum 1992 voru sóttar með því að nýta ónýttar heimildir lánsfjárlaga frá árinu 1991. Samkvæmt því voru nægar lántökuheimildir til þess að mæta lánsfjárþörf ársins sem alls varð 16,1 milljarður kr. Ég tek þetta hér fram. Þetta hefur gerst áður en mér

sýnist að Ríkisendurskoðun hafi gert lítils háttar athugasemd við þetta atriði og talið að heimildir þyrftu að vera til þess á sjálfu árinu 1992. Því ætti kannski að bæta við að lántökurnar í upphafi ársins eða í febrúar voru auðvitað vegna hallans sem varð á árinu 1991 en erlendar lántökur í febrúarmánuði á sl. ári voru til þess að gera upp við Seðlabankann vegna hallans á árinu 1991. Áður en ég skýri nánar frávik frá fjáraukalögum sem samþykkt voru í desember sl. vil ég aðeins gera grein fyrir framvindu ríkisfjármála á sl. ári.
    Núverandi ríkisstjórn markaði í upphafi ferils síns þá meginstefnu í ríkisfjármálum að draga úr halla á ríkissjóði án þess að almennir skattar yrðu hækkaðir. Höfuðáherslan var lögð á lækkun útgjalda. Mikilvægur liður í þeirri viðleitni var að auka virkni og ábyrgð einstakra ráðherra og ráðuneyta í mótun fjárlagatillagna og eftirliti með framkvæmd fjárlaga. Ríkisstjórnin tók um mitt ár 1991 ákvörðun um verulega lækkun á heildarútgjöldum ríkissjóðs 1992 og skiptingu þeirra á einstök ráðuneyti. Hverjum og einum ráðherra var ætlað leggja fram tillögur að sparnaði innan ráðuneytis síns og útfæra þær. Þetta kallaði á nýja forgangsröðun verkefna og verulega þrengri fjárhagsramma en ráðneytin höfðu haft. Þó svo að einstakar sparnaðartillögur tækju nokkrum breytingum og aðrar næðu ekki fram að ganga voru fjárlög 1992 afgreidd frá Alþingi með um 4,1 milljarðs kr. halla og var það svipað markmiði ríkisstjórnarinnar.
    Annar mikilvægur liður í að ná fram lækkun ríkisútgjalda var að auka fjárhagslega ábyrgð stofnana ríkisins. Ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að stofnunum ríkisins yrði heimilt að flytja ónotaðar rekstrarfjárveitingar milli ára. Þessi stefna var mörkuð í ljósi þess að rekstur stofnana ríkisins er samfelldur frá ári til árs. Flutningur á ónotuðum fjárveitingum yfir áramót hvetur til aukins aðhalds og sparnaðar í rekstri og stofnanir hafa möguleika á að haga rekstri sínum með sveigjanlegri hætti. Þannig er almennt ekki sótt um viðbótarheimildir til rekstrar nema í sérstökum tilvikum, en þess í stað miðað við það að greiðslum umfram heimildir til einstakra málaflokka verði mætt með heimildum næsta árs.
    Afkoma ríkissjóðs varð mun betri en árið á undan. Rekstrarhalli varð 7,2 milljarðar kr. samanborið við 12,5 milljarða árið 1991 og lækkaði um 5,3 milljarða kr. frá fyrra ári. Á árinu 1992 námu innheimtar tekjur ríkissjóðs 103,4 milljörðum kr. Þar af nam innheimta skatta 95,8 millj. kr. samanborið við 95,5 milljarða kr. árið 1991. Samkvæmt því hækkuðu skatttekjur um 2,4% milli ára. Á sama tíma hækkaði hins vegar verðvísitala landsframleiðslu um rúmlega 3%. Þetta þýðir að skatttekjur ríkissjóðs dragast saman um um það bil 0,5% að raungildi milli áranna 1991 og 1992, en heildartekjurnar aukast hins vegar lítillega.
    Erfitt árferði og vaxandi atvinnuleysi setti mark sitt á tekjuhlið ríkissjóðs á árinu 1992. Þetta endurspeglast einkum í minnkandi tekjum af staðgreiðslu tekjuskatts, en einnig í innheimtu veltuskatta. Samdráttur þjóðarútgjalda, sem ræður mestu um tekjurnar, varð að vísu heldur minni en gert hafði verið ráð fyrir í áætlun fjárlaga en á móti vega minni verðbreytingar.
    Þá vantaði nokkuð upp á áætlaðar tekjur af sölu eigna. Þessir þættir eru meginskýring þess að heildarinnheimta tekna árið 1992 varð rétt um tveimur milljörðum kr. undir áætlun fjárlaga. Þar af var tekjuskattur einstaklinga 840 millj. kr. undir áætlun og virðisaukaskattur 500 millj. kr. Útgjöld A-hluta ríkissjóðs á árinu 1992 námu alls 110,6 milljörðum kr. samanborið við 112,5 milljarða kr. árið 1991. Lækkun milli ára er 1,7%. Leita þarf langt aftur til að finna dæmi þess að útgjöld ríkissjóðs lækki milli ára í krónum talið.
    Séu útgjöldin borin saman við fjárlög ársins, þá fóru þau um einum milljarði kr. fram úr fjárlögum en það er minna frávik en verið hefur mörg undanfarin ár. Að teknu tilliti til breytinga á verðvísitölu í landsframleiðslu lækka útgjöld um 5,4 milljarða kr. frá árinu 1991. Þannig lækka bein rekstrargjöld ríkissjóðs um 2 milljarða kr. þrátt fyrir að um 430 millj. kr. vanti upp á tekjur Hagræðingarsjóðs. Vaxtagjöld ríkissjóðs lækka um nær 1,8 milljarða kr. Það skýrist að jöfnu af lægri vaxtagreiðslum vegna fjárþarfa ríkissjóðs innan ársins og minni vaxtagreiðslum af spariskírteinum vegna minni innlausnar en árið áður. Þá dróst framlag til viðhalds og stofnkostnaðar saman um nær 2,2 milljarða kr. milli ára. Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs, þ.e. sú fjárhæð sem ríkissjóður þarf að taka að láni til þess að fjármagna halla á rekstri og lánareikningnum, varð 7,2 milljarðar kr. á móti 14,6 milljörðum kr. árið 1991. Hrein lánsfjárþörf hins opinbera í heild, þ.e. bæði ríkissjóðs, ríkisfyrirtækja og opinberra lánastofnana, nam 23,8 milljörðum kr. á sl. ári en varð 40,2 milljarðar kr. árið 1991. Lánsfjárþörfin er 4,6 milljarða kr. hærri en áætlað var og þar af stafa rúmlega 4 milljarðar kr. af aukinni lánsfjárþörf ríkissjóðs sjálfs vegna meiri halla en áætlað hafði verið.
    Þá mun ég, hæstv. forseti, víkja að þeim frávikum sem urðu umfram heimildir í fjárlögum og fjáraukalögum ársins 1992. Heildargreiðslur á árinu urðu 110,6 milljarðar kr. en heimildir voru rúmlega 113 milljarðar. kr. Þannig urðu greiðslur í heild 2,5 milljörðum innan heimilda. Greiðslur umfram áætlanir voru 1.300 millj. kr. Þar vega sjúkratryggingar þyngst eða 466 millj. og munar þar mestu um lyfja-, læknis- og tannlæknakostnað. Áætlað er að flytja hluta þessara umframgreiðslna til yfirstandandi árs.
    Hafrannsóknastofnun fer 342 millj. kr. fram úr heimildum sem skýrist alfarið af því að einungis hluti af aflaheimildum Hagræðingarsjóðs var seldur á sl. ári, á árinu 1992. Vegna Skipaútgerðar ríkisins eru færðar 100 millj. kr. til gjalda sem eru kostnaður umfram áætlaðar tekjur af sölu eigna. Þá eru greiðslur til Háskóla Íslands 50 millj. kr. umfram áætlun þar sem rekstrarsparnaður stofnunarinnar kemur ekki að fullu fram fyrr en á þessu ári. Loks má nefna að atvinnuleysisbætur opinberra starfsmanna urðu 30 millj. kr.

umfram heimildir. Aðrar umframgreiðslur einstakra stofnana urðu mun lægri. Á móti þessu vegur að greiðslur innan heimilda eru rúmlega 3,8 milljarðar. kr. Þar vega vaxtagreiðslur langþyngst eða 1.050 millj. kr. Greiðslur til viðhalds og stofnkostnaðar urðu samtals um 1.200 millj. kr. innan heimilda. Þá voru greiðslur til Atvinnuleysistryggingasjóðs 228 millj. kr. innan heimilda og greiðslur til uppgjörs búvörusamnings 148 millj. kr. Inneignir annarra fjárlagaliða eru mun lægri.
    Næst mun ég víkja að yfirfærslu heimilda milli ára. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um aukna fjárhagslega ábyrgð stofnana eru fjárheimildir til rekstrar nú í annað sinn með almennum hætti færðar á milli ára með tilliti til greiðslustöðu í árslok. Áður voru geymdar fjárveitingar nær eingöngu miðað við óhafin framlög til stofnkostnaðar og viðhalds. Þessi stefna var mörkuð í ljósi þess að rekstur stofnana ríkisins var samfelldur frá ári til árs og það væri nánast tilviljun ef greiðslustaðan um áramót væri nákvæmlega í samræmi við heimildir. Það hefur sýnt sig að þessi flutningur á greiðsluheimildum yfir áramót hvetur til aukins aðhalds og sparnaðar í rekstri þar sem stofnanir hafa möguleika á að haga rekstri sínum með sveigjanlegri hætti en áður hefur verið eins og reynsla síðasta árs hefur ótvírætt sýnt. Undir þetta tekur Ríkisendurskoðun sérstaklega í nýlegri skýrslu sinni. Nánar er gerð grein fyrir fjárhæðum til einstakra stofnana í fskj. með frv. Alls er gert ráð fyrir að flytja innstæðu til rekstrar að fjárhæð 912 millj. kr. til þessa árs og lækka rekstrarheimildir um 780 millj. kr. Þá eru innstæður til stofnframkvæmda hækkaðar um 739 millj. kr.
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta frv. sem er frv. til endanlegra fjáraukalaga. Ég vil þó benda á tvö atriði sérstaklega sem ég bið hv. nefnd um að taka til athugunar. Annars vegar er um að ræða liðinn Hafrannsóknastofnun sem er liður upp á 342 millj. kr. Áætlað var að ná þessum fjármunum inn á þessu ári með sölu hagræðingarheimildar. Það gæti breyst og þarf þá að taka tillit til þess. Hins vegar er upphæð á Tryggingastofnun ríkisins upp á 450 millj. kr., há upphæð. Þessa upphæð þarf að kanna nánar og kryfja og hafa samband bæði við fjmrn. og heilbrrn. þegar fjallað verður um þann þátt í þessu frv.
    Á bls. 13 í athugasemdum með frv. er skýrt frá því hvaða reglur gilda um flutning innstæðna og umframgjalda yfir áramót. Það eru sömu reglur og áður hafa verið kynntar á hinu háa Alþingi. Loks bendi ég á að í fskj. með frv. er í einstökum atriðum sýnt hvernig sá flutningur á inneignum og skuldum á sér stað yfir áramótin. Þetta er gert með sama hætti og á sl. ári og ég tel að þetta sé einhver mesta framför sem hefur átt sér stað í ríkisrekstrinum því að því miður virtist brenna við á árum áður að menn teldu það nánast skyldu sína að eyða öllu því fé sem þeir höfðu til umráða áður en árinu lyki því oft fannst viðkomandi stjórnendum eins og þeim væri refsað fyrir það á árinu eftir ef þeir komu ekki öllum fjármunum í lóg. Á sama hátt gefur þessi yfirfærsla tækifæri til þess að leggja þær kvaðir á stofnanir og fyrirtæki að þær tækju með sér skuldir frá fyrra ári og reyni jafnvel ekki einungis á einu ári heldur kannski á einu, tveimur eða þremur árum að vinna upp þá stöðu sem orðið hefur vegna þess að viðkomandi stofnun hefur farið yfir fjárlagaheimildir. Þetta er kannað mjög ítarlega í hverju einstöku tilviki á grundvelli fyrirliggjandi reglna og um það er víðtæk samstaða á milli fjmrn. og viðkomandi stofnana, a.m.k. viðkomandi ráðuneyta, hvernig með skuli fara. Ég tel að þessir starfshættir séu mjög til bóta og fagna því að Ríkisendurskoðun tekur undir það.
    Að þessum orðum mæltum, hæstv. forseti, legg ég til að þessu máli, frv. til fjáraukalaga á þskj. 897, verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln.