Fjáraukalög 1992

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 17:35:21 (7089)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu mikið um þessi mál en vil aðeins vekja athygli á örfáum atriðum. Það er þá fyrst og fremst það að samkvæmt þessum fjáraukalögum hefur ekki verið rétt metin sú staða sem kom fram í fjáraukalögum sem samþykkt voru í desember sl. og má undarlegt heita að það skuli á þeim tíma ekki hafa verið raunhæfara mat en gert var. Þá vil ég einnig geta þess í sambandi við yfirfærsluheimild á milli áranna 1992 og 1993 að mótaðar hafa verið vinnureglur, samkvæmt því sem segir í grg. með frv., um hvernig að því skuli staðið og þær vinnureglur eru í þremur liðum. Þar er í fyrsta lagi talað um, með leyfi forseta, að ,,miðað er við að flutningur innstæðu takmarkist við lækkun sem náð er með hagræðingu eða flutningi verkefna milli ára. Ef hins vegar af einhverjum ástæðum hefur ekki verið haldið uppi þeirri þjónustu sem gert er ráð fyrir í fjárlögum fellur heimildin niður.``
    Mér finnst þetta ekki vera nógu skýrt þar sem hér er talað um að flutningur innstæðu milli ára takmarkist við lækkun sem náð er með hagræðingu eða flutningi verkefna milli ára en þó ekki ef af einhverjum ástæðum hafi ekki verið haldið uppi þeirri þjónustu sem gert er ráð fyrir, þá falli heimildin niður. Það hefur auðvitað ekki verið haldið uppi þeirri þjónustu sem gert er ráð fyrir með því að flytja hluta af þeirri þjónustu í verkefnum milli ára. Ég get því ekki séð hvernig hægt er að segja að þetta skuli notað ef þetta er bara verkefni sem flutt er á milli ára, en hins vegar ekki ef það hefur ekki verið haldið uppi þeirri þjónustu sem átti að gera. Ég held að það þurfi að skoða betur þessar reglur sem hér hafa verið settar fram, enda veit ég nú ekki til þess að þær hafi verið samþykktar, þær hafi verið kynntar einu sinni á fundi í fjárln. en ekki verið samþykktar og ég held að það þurfi að ræða það betur og móta skýrari vinnureglur um það hvernig að þessum málum skuli staðið.
    Það er líka spurning hvort það er raunverulegur sparnaður í ríkisrekstri þegar verið er að færa nauðsynleg verkefni sem hefðu átt að vinnast á árinu 1992 yfir á árið 1993. Sama fjármagnið hlýtur að fara til þeirra verkefna hvorum megin áramótanna sem það er fært, og þá er ekki um beinan sparnað í raun og veru að ræða. Þessu vildi ég velta hér upp í framhaldi af þessu og auk þess vil ég taka undir orð þeirra ræðumanna sem hér hafa talað á undan mér. Ég tel að sparnaðurinn hafi alls ekki náðst. Ef við nefnum aðeins t.d. heilbrrn., þá kemur hér viðbótarframlag til Tryggingastofnunar ríkisins upp á 450 millj. kr. rúmar og í síðustu fjáraukalögum sem samþykkt voru í desember var bætt við heilbr.- og trmrn. 1.600 millj. kr. Þá erum við komin með um 2 milljarða kr. í viðbót við upphaflega samþykkt fjárlög og það voru 2 milljarðar kr. sem áttu að nást í sparnað í heilbr.- og trmrn. þannig að ég get ekki séð að sparnaðurinn sé nokkur.
    Hæstv. heilbrrh. hefur hampað skýrslu þar sem segir að náðst hafi sparnaður í sjúkrahúsarekstri á höfuðborgarsvæðinu, en ég get ekki nú kallað það sparnað þegar á móti kemur að fólk hefur leitað meira til sérfræðinga. Það hefur þurft að kaupa sér meira af lyfjum utan sjúkrahúsa og það kemur auðvitað fram

í auknum kostnaði hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þannig að það er nú sama hvort þetta er tekið úr vinstri vasanum eða hægri. Það hlýtur að verða sama upphæðin þegar upp er staðið með auðvitað ómældu erfiði og amstri hjá þeim sem þurfa að nota þessa þjónustu, það er svo aftur annað mál. En peningalega get ég ekki séð að þetta skili neinum sérstökum hagnaði fyrir ríkissjóð.
    Hér er verið eins og hæstv. fjmrh. sagði að stefna að því að leggja síðustu hönd á uppgjör ríkissjóðs fyrir síðasta ár, árið 1992. Það er út af fyrir sig gott mál að það skuli vera komið til Alþingis svo snemma þegar ekki er lengra liðið á árið 1993 en raun ber vitni. En ég vil minna á það sem kom fram í umræðum áðan um ríkisreikning fyrir árið 1991. Það er uppi ágreiningur um ýmis mál hvernig með skuli fara í sambandi við hann, hvort ákveðnir liðir skuli færast þar eða yfir á árið 1992 og eins og ég sagði í umræðunni um ríkisreikning fyrir árið 1991 sem við vorum með í dag, þá tel ég að þessi mál tengist öll saman. Ég tel að það tengist hvort hægt er að ljúka ríkisreikningi fyrir árið 1991, hvernig farið verður með lokafjáraukalög fyrir árið 1991 og svo þau fjáraukalög sem við erum að ræða hér núna fyrir árið 1992. Ég held að því miður hafi ekki náðst sá sparnaður sem áætlað var. Það er alveg greinilegt og reyndar ekki öll kurl komin til grafar enn. En eins og ég sagði í upphafi, þá hef ég ekki hugsað mér að hafa langa umræðu um þetta núna. Ég ætla að geyma mér það til 2. umr. um málið.