Fjáraukalög 1992

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 18:02:54 (7094)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. um það að það skiptir ákaflega miklu máli við erfiðar aðstæður að jafna byrðum á okkur því að við erum í raun að skipta tapi um þessar mundir en ekki að deila út ágóða. Það verður einungis gert með þeim hætti að þeir greiði til sameiginlegra þarfa sem það geta og við það hefur stefna ríkisstjórnarinnar miðast.
    Hv. þm. segir að stefna ríkisstjórnarinnar sé fálmkennd í skattamálum. Kannski má halda því fram og ég skal vissulega viðurkenna að stundum hefur verið gripið til óvæntra aðgerða, ekki síst þegar um hefur verið að ræða að ná kjarasamningum eða reyna einmitt að jafna byrðunum á landsmenn. En meginstefnan hefur þó verið sú að reyna að breikka skattstofna. Ég minni á að þótt ferðamannaiðnaðurinn þurfi að bera 14% virðisaukaskatt í öllum greinum nú, en hann þurfti að gera það í flestum greinum áður, þá verður tryggingagjaldið jafnframt lækkað af ferðamannaþjónustunni.
    Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram en vissulega má segja og ég skal viðurkenna það að það að lækka t.d. sérstaklega skatta af matvælum sé stílbrot á þessari stefnu. Ég leyni því ekkert að ég hefði fremur viljað sjá hærra hlutfallið almennt lækkað en fara þá leið sem uppi er krafa um, en þá verður auðvitað pólitískt mat að ráða. Þegar til lokaniðurstöðunnar kemur borgar sig að halda friði og stöðugleika í þjóðfélaginu og reyna að byggja upp framtíðina við slík skilyrði eða á að halda áfram og vera í stríði við aðila vinnumarkaðarins?