Gjald af tóbaksvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 18:05:51 (7096)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að fá að mæla fyrir þessum tveimur frv. í einni framsöguræðu, enda er það frv. sem síðar er á dagskrá bein afleiðing fyrra frv. sem er efnislega aðalfrv. Með því frv. er lagt til að tekið verði upp nýtt gjald er leggja skal á allt tóbak og gjaldinu er ætlað að koma í stað einkasölugjalds á tóbaki. Talið er eðlilegra fyrir ríkið og mun einfaldara miðað við núverandi aðstæður að afla þeirra tekna af tóbakssölu sem taldar eru æskilegar á hverjum tíma með beinni skattlagningu á innflutning þess og framleiðslu í stað þess að afla þeirra tekna sem einkasöluaðili. Frv. gerir ekki ráð fyrir breytingum á fyrirkomulagi tóbaksvarna. Áfram verður í gildi ákvæði um merkingar, bann við auglýsingum o.s.frv. Þær verðlagningarreglur sem munu gilda samkvæmt þessu frv. ef það verður að lögum eru byggðar á þeim aðferðum sem notaðar hafa verið við ákvörðun verðs hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á undanförnum árum.
    Gert er ráð fyrir hækkun tóbaksgjalds um 3% til að mæta framlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem annars hefði orðið af tekjum eins og þekkt er. Í megindráttum felast þessar nýju álagningarregur tóbaks í því að við kostnaðarverð vindlinga er bætt föstu gjaldi, þ.e. tóbaksgjaldi, sem nemur 5,60 kr. á hvert stykki. Gjald þetta er grunngjald sem má hækka í samræmi við þróun framfærsluvísitölunnar. Á kostnaðarverð annars tóbaks er hins vegar lagt fast gjald er nemur 4,30 kr. á gr nema neftóbak þar sem gjaldið nemur 1,50 kr. á gr. Engar reglur munu gilda um ákvörðun heildsölu- og smásöluálagningar.
    Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að tóbaksgjald verði innheimt með sama hætti og vörugjald að öðru leyti en því að tóbaksgjald verður magngjald. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 1. gr. er lagt til að tóbaksgjald verði innheimt af öllu óunnu tóbaki. Þetta leiðir til þess að af hráefnum til tóbaksframleiðslu ber þegar við tollafgreiðslu að greiða tóbaksgjaldið.
    Samkvæmt b-lið þessarar greinar er lagt til að gjald af hverju grammi af nettóþyngd hvers pakka af vindlum verði 4,30 kr. Á árinu 1992 voru seld tæplega 26 tonn af vindlum og hefðu tekjur ríkissjóðs þá verið tæpar 112 millj. kr. vegna þeirra miðað við það gjald sem að ofan greinir fyrir utan aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt. Samkvæmt c-lið er lagt til að gjaldið verði 560 kr. af hverjum 100 stykkjum af vindlingum. Gjald af hverju grammi vindlings er samkvæmt þessu aðeins hærra en af öðru tóbaki. Á árinu 1992 seldust rúmlega 400 þús. mill af vindlingum en mill eru þúsund stykki. Miðað við svipaða sölu má áætla að tekjur af gjaldinu af vindlingum á næsta ári verði 2,2 milljarðar eða rúmlega það á verðlagi janúarmánaðar á þessu ári.
    Samkvæmt d-lið greinarinnar er lagt til að sama gjald verði lagt á reyktóbak og vindla. Til þessa hefur einkasölugjaldið af reyktóbaki verið nokkru lægra en af vindlum. Sala á árinu 1992 nam tæpum 14 tonnum. Miðað við svipaða sölu næmu tekjur af gjaldi af reyktóbaki um 59 millj. kr. á næsta ári á núvirði. Í f-lið 1. gr. er lagt til að gjald á neftóbak, sem inniheldur ammoníakupplausn, verði 1,50 kr. af hverju grammi. Sala þess á árinu 1992 nam rúmum 17 tonnum.
    Í 2. gr. er sýnt hvernig skipting tóbaksgjaldsins verður á milli Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ríkissjóðs en með afnámi einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins af tóbaki munu tekjur Jöfnunarsjóðs af landsútsvari lækka. Með því að láta 3% af tóbaksgjaldinu renna í sjóðinn er talið að vega megi upp þessa lækkun.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla sérstaklega um 3., 4. og 5. gr. en í 6. gr. er lagt til að allar gjaldskyldar tóbaksvörur skulu merktar merki tollyfirvalda til sönnunar því að tóbaksgjald hafi verið af þeim greitt og er það sama regla og nú gildir.
    Í 7. gr. er kveðið á um heimild til handa fjmrh. að hækka tóbaksgjald í samræmi við hækkun framfærsluvísitölu. Grunngjaldið er miðað við framfærsluvísitölu í janúar 1991 sem hefur það í för með sér að fjmrh. á hverjum tíma hefur heimild til að hækka tóbaksgjaldið sem næst 10% frá því sem nú gildir. Þessi heimild er til að tryggja að ráðherra hafi nokkurt svigrúm til verðákvörðunar, m.a. til að bregðast við ef afnám á einkasölu á tóbaki verður til þess að tóbaksverð lækki.
    Í 8. gr. er fjallað um reglurnar um vörugjald. Ég tek fram að þá mundu sömu reglur gilda um tóbaksgjaldið og greiðslu þess og um vörugjald og þar með greiðslufrest á vörugjaldi.
    Í 9. gr. er fjallað um tóbaksvarnir en samkvæmt 15. gr. laga nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, þá skal verja til þeirra 0,2% af brúttósölu ÁTVR. Í frv. sem er til umræðu er gerð tillaga um að 0,5% af tekjum ríkisins af tóbaksgjaldi sbr. 1. gr. frv. til laga um gjöld af tóbaksvörum verði varið til tóbaksvarna. Með þessu ákvæði á að vera tryggt að fjárframlög til tóbaksvarna verði með sama hætti og nú tíðkast þrátt fyrir þá kerfisbreytingu sem hér um ræðir.
    Því miður birtist ekki með frv. umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. en sú umsögn verður að sjálfsögðu send hv. efh.- og viðskn. sem fær málið til afgreiðslu, en ég get látið það koma fram að það er gert ráð fyrir að tekjur ríkisis geti aukist um allt að 100 millj. kr. miðað við óbreytta sölu verði þetta frv. samþykkt.
    Verðlag tóbaks mun líklega hækka eitthvað, bæði vegna hækkunar tóbaksskattsins og eins vegna þess að heildsalar þurfa álagningu til að mæta heildsölukostnaði. Hækkunin mun leiða til samdráttar í neyslu að mati tóbaksvarnarnefndar. Þegar allt er saman dregið er náttúrlega um nokkra óvissu að ræða, en heldur má gera ráð fyrir að frv. auki tekjur ríkissjóðs.
    Hæstv. forseti, ég mun nú víkja að síðara frv., þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Þær breytingar sem þar eru gerðar eru breytingar sem leiða af fyrra frv. en frv. þessu er ætlað að breyta lögum þannig að einkaréttur ríkisins til sölu á tóbaki verður afnuminn. Í frv. sem ég mælti fyrir hér rétt í þessu er gerð grein fyrir því að nettótekjur ríkissjóðs af tóbakssölu munu hækka við afnám einkasölunnar. Gjöld af tóbaksvörum breytast af einkasölugjaldi í tóbaksgjald sem verður innheimt við tollafgreiðslu.
    Eins og hv. alþm. vita á sér stað verðjöfnun á tóbaki í dag. Verði frv. þetta að lögum fellur hún að mestu niður, enda verður ekki séð hvaða sjónarmið það eru sem réttlæta verðjöfnun á tóbaki umfram aðrar vörur, þar á meðal ýmsar nauðsynjavörur. Í kjölfar frjálsrar verslunar með tóbak er ljóst að tóbaksdeild ÁTVR verður lögð niður. Samt sem áður tek ég fram að það er álit þeirra heildsala sem ég hef átt tal við um þetta efni að munur á vöruverðinu verði mjög lítill. Það hefur tíðkast að heildsalar hafa dreift álagningunni þannig að nokkur hluti flutningskostnaðarins kemur fram í hærri álagningu á þéttbýlissvæðunum og er talið að ekki verði mikill munur á álagningunni þrátt fyrir það að flutningskostnaðurinn komi til. Þótt það sé ekkert markmið í sjálfu sér fyrir þann sem hér stendur tel ég rétt að það komi fram.
    Sumir telja að þetta frv. hafi í för með sér stórkostlega breytingu á söluvenjum. Svo er að sjálfsögðu ekki vegna þess að tóbak fæst í öllum matvöruverslunum, sjoppum og hvar sem er og er ekki selt í sérstökum verslunum eins og áfengi, en ekki er gert ráð fyrir því í þessu frv. né heldur hefur ríkisstjórnin markað neina stefnu í þeim efnum og verður að sjálfsögðu að skilja hér rækilega á milli annars vegar tóbaks og hins vegar áfengis. Ég leyni því hins vegar ekki að ég tel að það væri til bóta ef ríkið hætti útsölu á áfengi. Ég tel að engin nauðsyn sé á því að opinberir starfsmenn afgreiði brennivín á daginn á meðan þjónar í veitingahúsum geta gert það á kvöldin. Þetta þýðir hins vegar ekki það að ég sé hlynntur frjálsri sölu áfengis, síður en svo, því að ég tel að auðvitað eigi sveitarstjórnir og lögregluyfirvöld að hafa mest um það að segja hvar slíkar verslanir eigi að vera opnar og hvaða skilyrði eigi að vera fyrir hendi til þess að opna megi slíkar verslanir. Það er til að mynda í góðu samræmi við þá reglu sem hér gildir um áfengissölu að kvöldi til. Mér finnst það vera í reynd dálítið sérkennilegt að fjmrh. á hverjum tíma geti t.d. ráðið hve margar áfengissölur eru opnar í Reykjavík á daginn. Mér finnst það vera frekar stjórnvaldið sem stendur íbúunum nær sem eigi að ráða slíku og þá í fullu samráði við lögregluyfirvöld og ég hef aldrei skilið hvers vegna fjmrh. á að ráða því nákvæmlega hvenær sveitarstjórnum úti á landi þóknast að opna útsölur þar. Mjög margar beiðnir liggja fyrir um slíkt og ég tel að fjmrh. sé ekki sá sem mest vit hefur á þeim málum jafnvel þótt í þá stöðu veljist nú oft menn sem þekkja vel til brennivínsmála, misjafnlega mikið þó sem betur fer eins og dæmin sýna. Ég held að þessu máli sé betur varið hjá stjórnvöldum sem eru nær íbúum hvers byggðarlags fyrir sig, en ég tek fram að hér er ekki verið að fjalla um þau mál, síður en svo, heldur einungis um tóbaksverslunina.
    Hæstv. forseti. Að allra síðustu mælist ég til þess eftir að þetta mál hefur fengið þá umræðu sem þarf við 1. umr. málsins, verði frv. vísað ti 2. umr. og þá til afgreiðslu í efh.- og viðskn. hv. Alþingis.