Gjald af tóbaksvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 18:29:34 (7098)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Siðbótamaðurinn í ríkisstjórninni hefur nú lagt fram tvö frumvörp sem hafa lengi verið til umfjöllunar í fjölmiðlum þó að þau komi ekki til okkar kasta fyrr en nú og eftir því sem best verður séð á þessum frumvörpum virðist markmiðið með þeim fyrst og fremst vera að draga úr ríkisumsvifum eins og segir í greinargerð með öðru þeirra. En þar eru menn að reyna að efna einhver fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að draga úr ríkisumsvifum þar sem þess er kostur og afnema einkarétt ríkisins til sölu á tóbaki. Það er kannski ekki seinna vænna að ríkisstjórnin fari að uppfylla einhver þau loforð sem hún gaf um einkavæðingu í stefnuyfirlýsingu sinni vegna þess að ekki gengur nú vel að selja þau fyrirtæki sem áttu að skila heilmiklum tekjum til ríkissjóðs á þessu ári og reyndar kjörtímabilinu öllu. En ég er ekki sannfærð um að þetta sé rétt stefna sem ríkisstjórnin er hér með, þ.e. að afnema þennan einkarétt ríkisins til sölu á tóbaki og áfengi vegna þess að ég sé ekki einkavæðingu eða það að draga úr ríkisumsvifum sem dyggð í sjálfu sér. Það getur þjónað ákveðnum markmiðum að draga úr ríkisumsvifum og að einkavæða, en menn verða þó að gera sér grein fyrir hver þau markmið eru nákvæmlega. Ef menn hefðu t.d. einhver markmið eins og þau að draga úr neyslu áfengis og tóbaks og vildu þar af leiðandi beita einkavæðingu til þess, þá væri þetta auðvitað skiljanlegt. En það eru engin sérstök markmið sett í þessum frumvörpum önnur en þau að draga úr ríkisumsvifum en markmiðin eru engin.
    Ég hef alltaf skilið það svo að ef við værum að koma á frjálsri verslun með einhverja vöru, þá værum við að bjóða upp á frjálsa samkeppni, frjálsa verðmyndun sem leiddi síðan hugsanlega til aukinnar neyslu, til lægra vöruverðs o.s.frv. Nú verður það ekki svo að það verði frjáls verslun í rauninni með tóbak og áfengi, ekki áfengi sérstaklega en tóbak er auðvitað selt hvar sem er, en það er ekki frjáls verðmyndun í þessum vöruflokki þannig að við getum aldrei talað um að einkavæða á þann máta sem menn

hafa yfirleitt hugsað sér þegar um einkavæðingu er að ræða. Tóbak og áfengi er yfirleitt ekki eins og aðrar nauðsynjavörur og geta ekki lotið sömu lögmálum og aðrar nauðsynjavörur. Þess vegna hnaut ég líka um þetta eins og sá sem talaði hér á undan mér að það er dálítið sérkennilegt yfirleitt að vera að líkja tóbaki við aðrar vörur, þar á meðal ýmsar nauðsynjavörur eins og gert er í greinargerð með frv. vegna þess að þó að ég viti það að tóbak sé ýmsum mikil nauðsyn og ég hef svo sem verið í þeim hópi líka, þá eru þetta ekki hinar hefðbundnu nauðsynjavörur. Það vill nefnilega þannig til með tóbak og áfengi að það eru kannski einu lögleiddu fíkniefnin í landinu og við skulum bara horfast í augu við það. Þetta eru auðvitað fíkniefnin sem eru lögleidd og sem eru seld með vissri vernd af ríkisins hálfu, en það er ekki þar með sagt að þau eigi að lúta sama frjálsræði og aðrar vörur.
    Hingað til hafa yfirvöld haft þrjár aðferðir til þess að takmarka neyslu á bæði áfengi og tóbaki. Það er í gegnum aðgengið, að takmarka aðgengi að þessum vörum, þ.e. eins og með áfengi að selja það á fáum tiltölulega afmörkuðum stöðum. Það er í gegnum verðmyndunina og það hefur t.d. verið með tóbakið að verðleggja það hátt, draga þannig úr neyslunni, og svo hefur það verið í gegnum fræðsluna.
    Nú kann það að vera minn ókunnugleiki en mér sýnist eins og á þessu frv. um gjald af tóbaksvörum sé í rauninni girt fyrir þann möguleika að beita hækkunum til þess að sporna gegn neyslu eins og verið hefur. Það hefur verið hægt að taka einfalda ákvörðun um það að hækka verulega tóbak til þess m.a. að ná tekjum í ríkissjóð, en líka til þess að draga úr neyslu en mér sýnist á þessu frv. að þetta muni ekki vera hægt áfram. Það þurfi þá sérstaka lagabreytingu til þess því að í 7. gr. frv., og ráðherra leiðréttir mig ef þetta er ekki rétt hjá mér, er sagt að fjmrh. sé heimilt með reglugerð að hækka gjald af hverri gjaldskyldri einingu, samkvæmt 2. mgr. 1. gr., þannig að það hækki í réttu hlutfalli við hækkun sem kann að verða á framfærsluvísitölu en annað ekki, þetta sé grunntaxti sem hækki síðan með vísitölu. Þannig að ef þetta er rétt skilið hjá mér, þá verði ekki hægt að beita t.d. verðhækkunum á tóbaki til þess að stýra neyslu og hafa stjórn á henni.
    Þá kemur fram í greinargerðinni eða athugasemdum við lagafrv. að engar regur munu gilda um ákvörðun heildsölu- og smásöluálagningar, þ.e. heildsalinn geti ákveðið það sjálfur hvað hann tekur mikið til sín og eins sá sem er með þetta í smásölu sem þýðir þá væntanlega það, ef ég skil þetta líka rétt, að heildsalinn og sá sem er með þetta í smásölu getur gefið tiltekinn afslátt meðan hann verður að ná upp neyslu. Ef hann vildi ná upp neyslu á sinni tóbakstegund, þá gæti hann gefið afslátt af heildsöluverði, af smásöluverði í tiltekinn tíma og þetta er auðvitað alkunna á markaðnum að fyrirtæki beita slíkum aðferðum til þess að ná markaðsstöðu, þá geta þau gert það meðan þau eru ná upp tiltekinni neyslu á vörunni. Og ég held að þetta ákvæði t.d. muni virka neysluhvetjandi. Þar af leiðandi finnst mér að þetta frv. þjóni voða litlum tilgangi vegna þess að það hafi það eitt að markmiði að draga úr ríkisumsvifum, heldur held ég að það geti verið slæmt vegna þess að það muni auka neyslu á tóbaki.
    Það var gert að umtalsefni hérna á undan mér að það væri dálítið sérkennilegt að sjá það í grg. með frv. að fjmrh. væri að þessu til þess að gera ákveðna siðbót vegna þess að hann hefði móral yfir því að ríkisstjórnin væri að selja tóbak, það væri siðferðilega ámælisvert af ríkinu að stunda verslun með tóbak. Þetta er náttúrlega mjög sérkennileg syndaaflausn sem farið er fram á þarna vegna þess að eftir sem áður á að selja tóbak og eftir sem áður á að hafa tekjur af áfengi og tóbaki og heldur meiri en núna þannig að þetta er nú hreinlega kattarþvottur en ekki hvítþvottur. Og það eina sem menn gætu gert ef þeir vildu í rauninni fá einhverja syndaaflausn og gera siðbót og draga úr neyslu á áfengi og tóbaki, væri hreinlega að flytja frv. um að afnema réttinn til að selja tóbak og áfengi ef menn væru í raun og veru að hugsa um siðbótina eða þá að flytja einhver frumvörp um að draga úr neyslu á tóbaki og áfengi. En mér finnst þessi frumvörp vera varhugaverð og ég held að þau þurfi mjög gaumgæfilegrar skoðunar við.