Gjald af tóbaksvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 20:33:30 (7102)


     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mér þykir miður að hafa misst af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um þetta frv. en þingmenn míns kjördæmis voru á fundi í Vegagerð ríkisins þannig að e.t.v. er það svo að hér hefur komið fram eitthvað af því sem mig hefur langað að spyrja um og vona ég þá að fjmrh. hafi tök á því þrátt fyrir það að svara mér í örfáum orðum því sem hvílir mér á huga eða hjarta. Þetta er frv. um afnám einkasölu ríkisins og skoðast væntanlega sem tillaga um einkavæðingu fyrirtækja ríkis.
    Um einkavæðingu stofnana almennt og ríkisfyrirtækja eru deildar meiningar. Ég held að ég skoðist ekki ,,fanatísk`` í þessum efnum, en hins vegar er það svo að hvað varðar einkavæðingu sumra þátta hjá ríkinu er ég mjög varkár.
    Sumt af því sem hefur verið á hendi hins opinbera í gegnum tíðina hefur verið barn síns tíma, þótti

eðlilegt að það væri á höndum ríkis eða sveitarfélaga á þeim tíma sem það var sett á laggir og jafnvel nauðsynlegt til að yfirleitt kæmist á en oft tekið of langan tíma að skoða það að aflétta þessu af hendi hins opinbera og verið umdeilt þegar það var gert. Þetta eru hlutir sem ævinlega þarf að skoða með opnum huga og líta á það sem lagt er til hverju sinni. Ég gæti varðandi þessi mál nefnt það, að á sínum tíma var það mjög mikilvægt atriði að setja á laggir bæjarútgerðir í hinum ýmsu sveitarfélögum á landinu og voru mikilvægar í atvinnuuppbyggingu sinna sveitarfélaga, en það var jafnrétt að leggja þessar bæjarútgerðir af sem slíkar þegar þar að kom því að þær voru einmitt barn síns tíma á þennan hátt sem ég nefndi hér áður.
    Sumir þættir einkavæðingaráforma eru þó af þeim toga að ég er þeirrar skoðunar að varlega ætti að fara. Þar er ég að vísa til þeirra þátta sem hægt er að orða á þann veg að varði almannaheill á einhvern hátt. Þar mundi ég líka flokka undir sumar þær stofnanir sem er áformað að gera að hlutafélögum með sölu í huga og þá gætu í slíkum tilfellum verið mjög afgerandi þættir hvaða tímasetning er á slíkum áformum, hvaða aðstæður eru í þjóðfélaginu, hvaða líkur eru á því að almenningur almennt mundi eignast hlut í slíkum stofnunum og hvort hætta er á að þær fari á fárra hendur svo að ég nefni eitthvað.
    Ég hef reyndar verið talsmaður þess í mínum flokki að fara varlega í sumum afmörkuðum málum er lúta að einkavæðingu. Ég hef í þessu máli fundið til þess að ég hef af því nokkrar áhygggjur eða réttara væri að segja að ég er ekki alveg sannfærð og tel að þetta frv. hafi að sumu leyti öfug áhrif en þau áhrif sem mætti ætla að séu þau markmið almennt sem ná eigi fram með einkavæðingu. Þegar ég er að tala um almenn markmið, þá hefði ég haldið að það sem menn vildu ná fram væri væntanlega lækkuð útgjöld ríkisins og lækkað vöruverð ef um vöru er að ræða. Þetta tvennt saman séu orsakir eða markmið þess að það eigi að einkavæða, losa af höndum ríkisins ákveðin útgjöld og lækka þau og það sé til hagsbóta fyrir neytandann.
    Þetta frv. finnst mér einhvern veginn að samræmist þessu ekki alveg og þess vegna vil ég aðeins vera með þessa hugleiðingu við fjmrh. Mér finnst að þetta frv. leiði til hækkaðs vöruverðs án þess að ég einmitt með þessum orðum sé að setja fram þá skoðun að tóbak eigi að vera ódýrt. Þvert á móti vil ég að tóbak sér fremur dýrt, en ég bendi á þennan þátt í þessum vangaveltum mínum um markmið þess sem neytandinn eigi að njóta við einkavæðingu. Mér virðist líka að þetta frv. muni auka útgjöld ríkisins en ekki að þeim verði aflétt að því marki sem ég tel að muni nást fram með einkavæðingu.
    Við skoðun á frv. vakna nokkrar spurningar sem ég ætla að leggja fyrir fjmrh. Þessi tóbakseinkasala hefur haft það í för með sér að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur gegnt eftirlitshlutverki. M.a. er ekki flutt inn tóbak frá ýmsum stöðum, ýmsum löndum. Það eru t.d. engir staðlar hér hjá okkur. Það getur verið um það að ræða að það sé mismunandi mikið tjörumagn í tóbaki og það standist ekki þá Evrópustaðla sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur ákveðið að taka mið af. Það getur verið um að ræða tóbak sem inniheldur ýmiss konar aukefni, sé unnið á stöðum þar sem e.t.v. er meira um áburð eða önnur efni sem hafa komist í tóbakið. Þetta hefur mér skilist að, eftir því sem ég hef leitað mér upplýsinga, sé meðal þess sem eftirlitið lýtur það. Það kemur fram hér í greinargerð með frv. ef ég, með leyfi hæstv. forseta, les hér nokkrar línur:
    ,,Þau sjónarmið, sem einkum réttlættu einkarétt ríkisins til innflutnings og heildsölu á tóbaki, voru á sínum tíma þau að með þessum hætti mætti afla ríkissjóði tryggra tekna í formi einkasölugjalda af vörum þessum auk þess sem líklegra þótti að þetta fyrirkomulag tryggði betur en ella hagstæðari innkaup á vörum þessum til landsins. Einnig var á það bent að með þessum hætti væri mun auðveldara að annast eftirlit með innflutningi á þessum vörum þar sem honum mætti aðeins einn aðili sinna með lögmætum hætti.
    Telja verður að framangreind sjónarmið eigi ekki lengur við um innflutning og heildsölu þessara vara. Kemur þar einkum þrennt til.`` Og eru þau þrjú atriði tilgreint. Svo kemur fram í greinargerðinni: ,,Í öðru lagi hefur tóbakseinkasalan í raun aðeins annast innflutning og birgðahald fyrir umboðsmann en engin takmörkun verið á innflutningi og smásalan frjáls. Í þriðja lagi verða möguleikar til eftirlits með ólögmætum innflutningi og sölu þessara vara ekkert síðri við þessa breytingu eftir að merkingar eru teknar upp á tóbak.``
    Í ljósi þess sem ég sagði hér áður hvaðan tóbak hefur verð flutt inn í gegnum Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einmitt með tilliti til þessara efna og þess sem ég hef þegar rakið, þá langar mig að spyrja ráðherra: Hver mun sjá um eftirlitið hvað þetta varðar þegar einkasalan hefur verið aflögð?
    Mér skilst að ÁTVR velti um 12 milljörðum kr. og þar af séu um það bil 4 milljarðar velta vegna tóbakssölunnar. Á sínum tíma þegar fyrirtækin, Áfengisverslunin og tóbakseinkasalan voru sameinuð 1962 held ég að það hafi verið, var það gert m.a. af því að talið var að það væri hagkvæmara í rekstri og þá átti m.a. við bæði mannahald, útkeyrslu og fleira, samrekstur af þessum þáttum. Því langar mig að spyrja fjmrh. hvort rekstrarkostnaður Áfengisverslunar hækki ekki eftir að búið er að taka tóbakið frá, tekjur lækka en þarna er ákveðinn rekstur áfram til staðar, m.a. og væntanlega hærri dreifingarkostnaður. Varla verður um mikla breytingu eða a.m.k. ekki fyrst um sinn á húsakosti og varla stórkostlegar breytingar á starfsmannahaldi umfram það sem hefur verið getið hér í greinargerð.
    ÁTVR hefur staðið fyrir jöfnunaraðgerð varðandi kostnað og tóbaksverð. Það hefur verið fullyrt að innflytjandi geti ekki dreift vörum þessum fyrir sama verð úti á landi og að hækkun vegna þessa gæti orðið allt að 11%. Það er líka nefnt í greinargerðinni að það sé óeðlilegt að verðjafna þessa vöru fremur en matvöru og það er alveg rétt að það getur vissuleg verið mjög umdeilt. En það hefur verið gert fram

að þessu og þetta er einn af þeim þáttum sem fólk hefur gengið út frá að sé á sama verði hvar sem maður er staddur og því spyr ég hvort þessi breyting muni leiða til þess að tóbaksverð verði hærra úti um land og verði kannski mjög misjafnt eftir því hvar maður er staddur á landinu og þá m.a. vegna flutningskostnaðar.
    Annað sem ég velti fyrir mér er að ef til kemur 11% hækkun af þessum völdum og að það er í lagi vegna þeirra áhrifa sem það veldur, væri þá ekki bara miklu nær að ríkissjóður tæki þessi 11% til sín með hækkuðum álögum og við óbreyttar aðstæður? Landsútsvar ÁTVR er eitthvað um 325 millj. og þriðjungur af því vegna tóbaks og þá mundi ég halda að það væri svona um 108 millj. en 3% tóbaksgjald gæfi mun minna, sennilega eitthvað yfir 70 millj. Þar að auki vegur tóbakið þungt í vísitölunni og e.t.v. kemur alltaf 11% hækkun tóbaks eins og verið er að tala um --- ég veit að sú tala eru getsakir, en hefur það þá ekki mjög mikil áhrif á vísitöluna og þar með mikilvæga þætti sem skipta ríkisvaldið máli? Er ríkissjóður ekki bara að tapa mjög mikið á þessari aðgerð núna?
    Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um ýmislegt annað sem ég tel samt svo minni háttar að það hljóti að verða rætt þegar aðilar koma á fund nefndar. Það má þó nefna að þegar talað er um það hér í greinargerðinni að stöður eru lagðar niður í tóbaksdeild og m.a. vegna dreifingar, þá er það nú svo að það er líka ákveðin framleiðsla hjá ÁTVR. Það er neftóbaksframleiðslan sem margir mundu ekki vilja verða án og einhver hefur sagt mér að það séu framleidd um 12 tonn á ári af því, þá veltir maður því fyrir sér, hvernig er með dreifingu þar? Er hægt að leggja alla dreifingu af af því að umboðsaðilar eiga að sjá um það? Munu þeir taka að sér að dreifa neftóbaki fyrir ríkið eða mun ríkið hugsanlega leggja niður þessa framleiðslu? Og lokaspurning mín er e.t.v. þessi og lít ég svo á að þetta séu ljúfmannlegar vangaveltur af minni hálfu fremur en annað: Ef Áfengisverslunin tapar, ef umboðsmenn tapa nema þeir fái að hækka vöruna og ef neytendur tapa af því að varan hækkar, hver í ósköpunum hagnast á málinu?
    Ég vona að fjmrh. sjái sér fært þó þessar spurningar hafi e.t.v. komið fram að svara mér í fáum orðum því sem ég hef hér spurt um.