Gjald af tóbaksvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 21:18:40 (7106)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tók eftir því að eitthvað hefur ráðherra heyrt misvel þær athugasemdir sem voru gerðar við frumvörp hans í ræðustólnum fyrir kvöldmat vegna þess að í máli mínu var aðalinntakið tvennt:
    Í fyrsta lagi hvort eftir sem áður væri hægt að hækka og beita verðstýringu á tóbak með því að stjórnvöld hefðu ótakmarkaða heimild til að hækka tóbak ef þau vildu svo við hafa til að stýra neyslunni. Ég skildi frv. svo að þetta yrði ekki hægt nema í 7. gr. er gefið visst svigrúm en þegar það svigrúm hefur verið nýtt þá getur hækkun bara verið í samræmi við vísitölu. Ekki er hægt að gera það með einfaldri ríkisvaldsákvörðun eftir þessa breytingu ef ég hef skilið þetta rétt.
    Í öðru lagi lagði ég einmitt út af þessu með heildsölu- og smásöluálagninguna og benti á það sem stendur í athugasemdum við frv. en þar segir: ,,að engar reglur muni gilda um ákvörðun heildsölu- og smásöluálagningar``. Þar af leiðandi gæti sú staða komið upp að sú álagning yrði einfaldlega felld niður til að bjóða tóbakið á einhverju tilboðsverði. Enda þótt ekki megi auglýsa það þá berst það fljótt út til þess að ná í kúnnana. Ég tala ekki um ef eitthvert verðstríð er í uppsiglingu hjá tóbaksrisunum þá er alveg opin leið að það verðstríð komi hér inn á markaðinn með þeim afleiðingum og áhrifum sem það hefur. Ef við erum með það fyrirkomulag sem er í dag þá hefur slíkt verðstríð engin áhrif vegna þess að ríkið getur eftir sem áður haldið uppi verðinu eins og það er í dag og fær þá bara meira í sinn hlut ef tóbaksframleiðendur lækka sitt verð. En verðstríð eftir þessa breytingu mundi hafa bein áhrif hér á markaðinn. Þegar tóbaksrisarnir eru annars vegar þá er engum grið gefin.