Gjald af tóbaksvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 21:22:53 (7108)


     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans og upplýsingar sem komu fram í allítarlegri ræðu hans hér áðan. Jafnframt þakka ég honum fyrir að víkja sérstaklega að mér kannski meira en öðrum með sum atriði þó ég hafi ekki beinlínis gefið tilefni til þeirra atriða sem hann nefndi. En jafnframt verð ég þó að láta í ljós vonbrigði mín eins og hv. 10. þm. Reykv. gerði að hann hafi ekki tekið eftir öllu sem ég sagði og skal ég fyrirgefa honum það. En ég minntist einmitt á þá hættu eins og hv. 10. þm. Reykv. að tóbakið yrði notað sem tálbeita í verslun með tímabundnum lækkunum a.m.k. þó hæstv. ráðherra segði nú í framsöguræðu sinni að heildverslunin þyrfti að fá meira til sín og því mundi verðið hækka af þeim sökum.
    En það sem hæstv. fjmrh. byrjaði ræðu sína á og endaði líka var það að hann sagðist ekki hafa heyrt neinar ábendingar eða rök fyrir því að ríkið ætti að versla með þetta. Ég reyndi a.m.k. að benda á í orðum mínum að ég teldi að ríkið ætti að vera með þetta vegna þess að hér væri að mínu mati meira um að ræða heilbrigðismál en efnahagsmál. Ég minntist á þær afleiðingar fyrir þá sem reykja sem kæmu vegna ýmissa sjúkdóma. sem eru fylgikvillar tóbaksneyslu. Við vitum líka að síðustu árin hefur verið lögð sívaxandi áhersla á rétt þeirra sem reykja ekki til þess að hafa hreint loft. Óbeinar reykingar geta undir vissum kringumstæðum haft mjög alvarlegar afleiðingar. Mér finnst þess vegna að annað gildi um áfengi og tóbak en aðrar vörur og eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur er hér um fíkniefni að ræða, fíkniefni sem Alþingi og ríkisvald hefur reynt að berjast gegn á síðustu árum, sem betur fer með nokkrum árangri. Um nokkurra ára skeið fór tóbaksneysla minnkandi enda þótt ýmsir óttist að hún sé að vaxa aftur a.m.k. meðal unglinga. En úr því að það kerfi, sem við búum við, hefur þó skilað þeim árangri að úr tóbaksneyslu hefur dregið þá tel ég varhugavert að gera þessa breytingu þar sem eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, það er sannað sums staðar erlendis að þar sem einkaverslun hefur verið afnumin þá hefur áfengisneysla vaxið svo mikið að ótvírætt er hægt að rekja það til þeirrar breytingar. Alveg á sama hátt og hæstv. ráðherra

sagði að erfitt væri í Bandaríkjunum að hækka mikið skatta á tóbaki vegna hagsmuna tóbaksframleiðenda þá er það svo að eftir því sem fleiri fara að vinna við þessi fíkniefni og eiga þar af leiðandi hagsmuna að gæta þeim mun meiri verður þrýstingurinn á að ekki verði settar þar miklar hömlur. Um það þekkjum við því miður dæmi. Þetta skiptir mestu máli í mínum huga og eru rökin fyrir minni afstöðu miklu fremur en hin efnahagslegu rök enda þótt líka megi spyrja sig að því hverning ríkið á að græða á þessari breytingu eins og kom glöggt fram í spurningum hv. 11. þm. Reykn. Þrátt fyrir ýmsar upplýsingar sem hæstv. ráðherra gaf um verðmyndun tóbaks og ýmislegt fleira vantar upplýsingar um mikilvæga þætti í ávinningi ríkisins eða tapi af þessari breytingu.
    Í greinargerð frv. kemur t.d. fram að væntanlega muni fækka um a.m.k. sex stöður. En í greinargerðinni kemur ekki fram hversu margir vinna nú hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Ég tók ekki eftir því í ræðum hæstv. fjmrh. að það kæmi neitt fram hversu stór hluti af starfsliði Áfengis- og tóbaksverslunarinnar þessar sex stöður eru. Úr því að hér er um að ræða meira en einn þriðja af heildarveltu þá hygg ég nú að mér sé óhætt að fullyrða að það er ekki nærri því einn þriðji af stöðum sem eru nú í dag hjá ÁTVR. Eins og hér var vikið að áður og hæstv. ráðherra gerði einnig er því alveg ósvarað hvernig tekst að draga úr rekstri í samræmi við tekjutapið, t.d. að nýta húsnæði og ýmislegt annað. Ekki verður forstjórastaðan lögð niður, alltaf verður að hafa forstjóra þó samdráttur verði meiri en um þriðjung í fyrirtækinu. Ég geri varla ráð fyrir því að laun hans verði lækkuð mikið heldur. ( Gripið fram í: Það borgar sig að sameina þetta Ríkisspítölum og hafa einn stjórnanda.)
    Ég vænti þess að mér hafi tekist að skýra heldur betur en í mínu fyrra máli fyrir hæstv. ráðherra hvað er efst í mínum huga í þessu máli og ég vonast til þess að það verði tekið til athugunar í nefndarstarfi. Ég vil þakka hv. 11. þm. Reykn. fyrir að lýsa yfir að hún muni koma á framfæri ábendingu minni um að þetta mál verði einnig skoðað í hv. heilbr.- og trn. og það verði litið á málið út frá því sjónarmiði.