Tekjuskattur og eignarskattur

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 21:50:45 (7111)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þetta virðist nú vera aðeins til lagfæringar á þeirri stöðu sem getur komið upp þegar menn þurfa um tíma að vera búsettir annars staðar og vilja heldur leigja sér húsnæði og halda úti sínu eigin húsnæði einnig til leigu á meðan en ekki að selja það. Þetta hefur oft skapað mönnum erfiðleika, veit ég, og það hefur verið þannig í framkvæmd þar sem ég þekki til, að hafi menn haft bein leigubýtti milli landshluta, þá hefur ekki komið til skattaleg meðferð á húsaleigugreiðslum ef hægt er að sýna að Jón fari í íbúð Björns og Björn í íbúð Jóns, en ef einhver einn er þarna í milli, að menn leigja ekki hvor af öðrum og hafa ekki bein leiguskipti, þá eru þessar tekjur skattlagðar ef hægt er að kalla tekjur. Og það er alveg greinilegt að það vantar eitthvað inn í lögin til þess að koma til móts við það fólk sem þarf að standa í því að leigja húsnæði sitt tímabundið vegna atvinnu eða náms eða annars slíks.
    Ég held að þetta sé mjög gott mál ef væri hægt að koma þessu í gegn og kannski þarf það nú ekki mikla skoðun. Ég hygg að þetta sé ekki stórt fjárhagsspursmál fyrir fjmrn. en það er engin umsögn frá ráðuneytinu um þetta frv. eins og raunar á nú að vera þegar frumvörp eru lögð fram sem geta snert skattlagningu eða haft áhrif á fjárhagsstöðu ríkissjóðs, en ég hygg að þetta sé ekki stórt í sniðum hvað það varðar þannig að ég vil aðeins koma hér til þess að lýsa yfir ánægju minni með það að þetta skuli vera komið fram og tekið á þessum vandkvæðum sem ég veit að fólk á oft í og hefur lent í ýmsum erfiðleikum og vandamálum í sambandi við það að gera grein fyrir þessu, gera grein fyrir húsaleigu, sem það fær greidda fyrir eigið húsnæði og þarf síðan í raun og veru aftur að borga jafnvel meira en það fær greitt, en verður síðan að greiða skatt af þeirri leigu sem það fær. Og mér sýnist að hér sé um leiðréttingu að ræða ef þetta getur gengið eftir.