Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 14:03:17 (7118)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns setja fram þá skoðun að mér finnst þessi skýrsla utanrrh. vel úr gerði gerð. Það er á henni nokkuð nýtt snið miðað við það sem áður hefur verið. Hún er skipulegri í uppbyggingu og þess vegna ætti að vera auðveldara fyrir hv. þm. að kynna sér efni hennar og aðra sem áhuga hafa á því máli. En því miður verður að segja það eins og er að miðað við þátttökuna í þeim umræðum sem hér fara fram virðast þeir ekki vera mjög margir. En hvað sem því líður þá er nauðsynlegt að þessi skýrsla sé rædd hér á Alþingi og menn geri grein fyrir skoðunum sínum á stöðu alþjóðamála. Ég lít þannig á að í þessum umræðum gefist mönnum tækifæri til þess að lýsa sjónarmiðum sínum varðandi ýmsa meginþætti alþjóðamálanna og það sé frekar í tengslum við einstök mál sem hér eru til afgreiðslu á hinu háa Alþingi þar sem menn lýsa afstöðu sinni til þeirra ákvarðana sem við blasa á vettvangi utanríkismála hér hjá okkur Íslendingum. Þannig var skömmu fyrir páska umræða um þátttöku okkar í Vestur-Evrópusambandinu og það munu fara fram hér umræður síðar um skýrslu nefndar um öryggis- og varnarmál og þá gefst mönnum tækifæri til þess að ræða nánar stöðu Íslands í öryggis- og varnarmálum. Ég lít sem sagt þannig á að í þessum umræðum gefist okkur þingmönnum tækifæri til að ræða fremur almennt um stöðu alþjóðamála og þróun þeirra en einstök ákvörðunaratriði sem við okkur blasa við stefnumótun Íslands í utanríkis- og alþjóðamálum.
    Það segir á bls. 6 í skýrslunni, þegar rætt er um þær breytingar sem orðið hafa á þróun alþjóðamála frá því að sovétkerfið hrundi og stjórnkerfi kommúnismans í Sovétríkjunum og í austurhluta Evrópu, að þær breytingar hafi orðið á þann veg, eins og segir í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En veruleikinn hefur þó orðið annar og fáir gera sér lengur vonir um að fram undan bíði viðburðasnautt þúsund ára sæluríki. Ofstæki, hatur og þjóðernishroki í einstökum ríkjum hafa á örstuttum tíma opinberað vanmátt hins alþjóðlega samfélags til að hafa hemil á skærum og átökum og minnt á að markmiðum lýðræðisríkjanna verður ekki náð nema með hægfara þróun og þrotlausu starfi til langs tíma.``
    Við hljótum öll að vera sammála því mati sem þarna kemur fram, þessari lýsingu sem þarna kemur fram í þann mund sem Sovétríkin voru að byrja að liðast í sundur og kommúnisminn að hrynja þá urðu nokkrar umræður um það á alþjóðlegum vettvangi hvort þetta táknaði endalok sögunnar, þessi mikla umbylting en flestir voru sammála um að svo væri ekki og þróunin síðar sýnir okkur svart á hvítu að svo er alls ekki. Í sumum löndum Evrópu, í austurhluta álfunnar og í Sovétríkjunum fyrrverandi má segja að sagan sé að hefjast, það sé að hefjast --- og við hljótum að vona að svo sé --- það sögulega skeið hjá þessum þjóðum sem við á Vesturlöndum höfum kynnst þegar við höfum þróað stjórnarhætti í átt til lýðræðis, og að svipað sé að hefjast í þessum ríkjum að í þessum óróa og upplausn allri séu vonandi að skjóta rótum hugmyndir um lýðræðislega stjórnarhætti og það kunni að skapast grundvöllur fyrir því að slíkir stjórnarhættir þróist í þessum ríkjum.
    En það sem segir í skýrslunni um vanmátt hins alþjóðlega samfélags hlýtur að vera okkur mikið umhugsunarefni sem Íslendingum þegar talað er um að hið alþjóðlega samfélag sé vanmáttugt til að hafa hemil á skærum og átökum. Við hljótum að þurfa að velta því fyrir okkur eins og aðrir hvernig hið alþjóðlega samfélag eigi að bregðast við aðstæðum eins og við fylgjumst nú með í Júgóslavíu fyrrverandi og í öðrum ríkjum þar sem greinilega herðir mjög að fólki ef það er ekki beinlínis myrt af algeru miskunnarleysi. Í dag hafa okkur borist fréttir um það að serbneski herinn sé að sækja inn í bæinn Srebrenica sem hefur verið mjög í fréttum og friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna sé við því búið að flytja tugi þúsunda á brott frá borginni, fólk sem hefur búið við hungur og vosbúð um margra mánaða skeið vegna hernaðarátakanna og þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna þess að hjálparsveitum og friðargæslusveitum hefur verið meinað að fara inn í bæinn og hjálpa þessu fólki.
    Frammi fyrir þessu finnst mörgum að við sem búum við frelsi og efnahagslega velsæld höfum verið allt of aðgerðalitlir og það sé unnt að gera til okkar ríkari kröfur en gerðar hafa verið um að við leggjum þessu fólki lið. Nú í vikunni var viðtal við Margréti Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, sem tók af skarið mjög afdráttarlaust í þessu efni og sagði sem svo að Vesturlönd og hinar frjálsu þjóðir ættu að leggja þeim lið sem berjast gegn Serbum, það ætti að afnema vopnasölubann á múhameðstrúarmenn í Bosníu og gefa þeim færi á því að vígbúast til þess að geta snúist gegn serbneska hernum. Aðrir benda hins vegar á það að yrði gripið til slíkra aðgerða þá mundi serbneski herinn eflast og Rússar kynnu að leggja honum lið og rjúfa þannig það vopnasölubann sem allir telja í orði a.m.k. að eigi að gilda gagnvart Serbum.
    Þarna er í hnotskurn minnt á þann vanda sem við blasir þegar að því kemur að taka ákvarðanir eins og þessar. Menn óttast annars vegar að aðstoð kunni að leiða til langvinnari hernaðarátaka en standa síðan aðgerðalausir hjá og horfa á þegar bæir falla eins og sá sem er að falla í dag.
    Í blaði sem gefið er út af samtökunum Læknar án landamæra, sem eru frönsk að uppruna, þetta eru frönsk samtök lækna sem hafa lagt sig fram um að aðstoða fólk á hættusvæðum og þá sem búa við styrjaldarástand eða hungursneyð, í nýjasta blaði þessara samtaka er forustugrein þar sem fjallað er um hvernig eigi að standa að hjálpar- og mannúðarstörfum á alþjóðavettvangi og hvernig eigi að draga mörkin á milli þess þar sem menn beita annars vegar hervaldi og hins vegar láta sér nægja, ef þannig mætti að orði komast, að senda hjálparsveitir á vettvang og sveitir lækna eða annarra sem veita aðstoð. En eins og við vitum hefur markmiðið með íhlutun herja á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra í löndum fyrrverandi Júgóslavíu miðað að því að auðvelda vistflutning og flutning á hjálpargögnum til þeirra sem eiga um sárt að binda vegna átakanna. Í þessari forustugrein er komist þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Mannúðaraðstoð getur stuðlað að því að almenningur einfaldi fyrir sér hættuástand. Annars vegar sjáum við hungruð og deyjandi saklaus fórnarlömb og hins vegar matvæli og hjálpargögn sem verður að koma til þeirra hvað sem það kostar. Í Mogadishu, Sarajevo og Monróvíu sjáum við sams konar myndir af fórnarlömbum sem kalla á hjálp. Frá þeim sjónarhóli séð mætti líkja landgöngu bandarískra hermanna í Sómalíu við fyrsta skref mannsins á tunglinu. En Sómalía er alls ekki tunglið. Hermennirnir áttuðu sig smátt og smátt á því að þeir voru við störf í raunverulegu landi sem á sér flókna sögu, eigin hefðir og stjórnmál. Nú er komið að okkur að átta okkur á því hvernig hugsanagangur okkar er einfaldaður með því að leggja aðeins mannúðarmál til grundvallar í samskiptum fórnarlambs og bjargvættar. Það er ákaflega hættulegt fyrir samfélag þjóðanna að leyfa einu ríki að hlutast hernaðarlega til um málefni annars ríkis aðeins með mannúðleg markmið.
    Í tveimur undantekningartilvikum er unnt að beita herafla. Fyrra tilvikið er þegar öflug og ofbeldisfull ríkisstjórn kúgar hluta þegna sinna. Síðara tilvikið er þegar ríki hættir að starfa og fólkið er skilið eftir varnarlaust. Við þessar aðstæður verður alþjóðlegur herafli að láta að sér kveða með öðrum fyrirmælum en þeim að láta mannúðarsjónarmið ráða. Við pólitískum hörmungum verður að bregðast með pólitískum aðgerðum. Ef ætlunin er að berjast gegn glæpastjórn er ekki nægilegt að koma hjálpargögnum til þeirra sem óttast glæpamennina. Lítum á það sem gerðist í síðari heimsstyrjöldinni. Engum datt í hug að fara með mat og ábreiður til Auschwitz. Eina hugsanlega svarið var hernaðarlegt. Hjálparstofnanir sem reyndu að koma hjálpargögnum í útrýmingarbúðirnar voru réttilega gagnrýndar þegar sannleikurinn kom í ljós.``
    Það er fast að orði kveðið í forustugrein þessara samtaka, fast að orði kveðið um það hvernig bregðast þurfi við og niðurstaða höfundarins er sú að ástandið í Bosníu sé t.d. á þann veg að þar verði ekki

lengur við það unað að menn sinni einungis mannúðarstörfum eða hjálparstörfum heldur verði að láta til skarar skríða með herafla til að binda enda á það ógnarástand sem ríkir í þessum hluta Evrópu. Þetta er mikilvægt málefni sem við Íslendingar þurfum að ræða og velta fyrir okkur og erum knúnir til vegna þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi að taka afstöðu til.
    Við höfum látið að okkur kveða með ýmsum hætti. Við höfum ekki staðið gegn því t.d. á vettvangi Atlantshafsbandalagsins eins og okkur hefði verið fært sem aðildarþjóð að því bandalagi að herstjórnum bandalagsins hafi verið gefin fyrirmæli um að beita flugher til þess að halda uppi öryggi í lofthelginni yfir Bosníu-Hersegovínu í umboði Sameinuðu þjóðanna en spurningin er hvort sú aðgerð ein er nægjanleg og hvort ekki verður að grípa til enn þá harkalegri aðgerða með herafla. Þannig heyrði ég í fréttum í hádeginu haft eftir Owen lávarði, sem er annar höfunda friðaráætlana Sameinuðu þjóðanna, að það væri ekki nægilegt að láta orrustuþoturnar fljúga yfir Bosníu-Hersegovínu og fylgjast með því sem þar sé að gerast í lofthelginni heldur ættu þær að nota vopnabúnað sinn til að sprengja upp aðgönguleiðir og vegi og brýr og samgöngumannvirki til þess að hindra framgang herafla Serbíu. Við kunnum að standa frammi fyrir því núna að ákvarðanir verði teknar um frekari aðgerðir hernaðarlegs eðlis til að binda enda á þau voðaverk sem unnin eru í þessum hluta Evrópu því það hefur verið sagt að ef ætlunin sé að beita utanaðkomandi herafla til þess að stilla til friðar, því það er það sem þarf að gera en ekki að gæta friðar þar sem enginn friður ríkir, þá þurfi kannski að senda 70--100 þúsund manna herafla á vettvang. Og menn sjá það fyrir sér að slíkar ákvarðanir tekur enginn stjórnmálamaður án þess að íhuga vel alla kosti málsins.
    Það er nauðsynlegt fyrir okkur að velta þessu fyrir okkur hér á þessari stundu því að þeir atburðir eru að gerast í Evrópu, eru að gerast með þátttöku okkar ef svo má að orði komast, sem aðila að Atlantshafsbandalaginu, aðila að Sameinuðu þjóðunum og aðila að Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu. Til þess kann vissulega að koma að óskað verði eftir því við okkur Íslendinga að við látum meira af hendi rakna, ekki aðeins fjárhagslega heldur einnig með öðrum hætti, til þess að unnt sé að stilla til friðar á þessum slóðum. Þess verður ekki óskað af okkur að við leggjum til mannafla til hernaðar heldur í friðargæslu og mannúðarstörf og við hlytum að taka slíkt til athugunar eins og við höfum gert þegar kallað hefur verið til okkar af hálfu Sameinuðu þjóðanna en eins og við vitum hafa margir Íslendingar látið að sér kveða við friðargæslustörf á vegum Sameinuðu þjóðanna. Ákvarðanir um að auka þátttöku okkar í þeim voru teknar nú í vetur og kom í ljós að það er mikill áhugi hjá mörgum hér að taka þátt í slíku starfi.
    Í utanrmn. Alþingis hefur verið rætt um þátttöku Íslands í friðargæslu og ég vil reifa það sjónarmið mitt að mér finnst ákaflega mikilvægt að ef til þess kæmi að um það yrði beðið að við létum frekar að okkur kveða, hvort heldur væri á vegum Sameinuðu þjóðanna eða einhverra annarra samtaka, þá verði að búa þannig um hnúta að þeir sem fari í slík störf hljóti góðan undirbúning og þjálfun og fullkomna vitneskju um það hvaða hættur kynnu að vera á ferðinni þegar menn taka sér slík störf á hendur sem má líta á sem fórnarstörf í þágu friðar og viðleitni til þess að búa þeim sem hér búa á jörðinni með okkur betri aðstæður. Þannig finnst mér að út frá þessu orðalagi sem er á bls. 6 í skýrslunni um vanmátt hins alþjóðlega samfélags, þá þurfum við að velta því fyrir okkur hvaða kröfur á að gera, hvaða sjónarmið við höfum um það yfirleitt hvenær á að hlutast til um málefni annarra ríkja með hervaldi og hvað það er sem réttlætir það að farið er inn í önnur ríki á grundvelli ákvarðana Sameinuðu þjóðanna eða annarra alþjóðastofnana og hlutast til um málefni þessara ríkja. Ég las hér upp úr forustugrein þessara læknasamtaka sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar og þar dregur höfundurinn t.d. skil á milli atburða í Sómalíu annars vegar þar sem herafli fór á vettvang á vegum Sameinuðu þjóðanna og hins vegar bendir hann á það sem er að gerast í Bosníu. Það er greinilegt af orðum hans að hann telur réttlætanlegra að beita herafla í Bosníu heldur en í Sómalíu, ef menn hafa farið inn í Sómalíu einungis í mannúðarskyni því að það komi að því þegar herafla er beitt að þá þurfi menn einnig að taka pólitískum afleiðingum þess og uppræta þá með hervaldi það sem veldur íbúunum og fólkinu mestri hættu og mestu tjóni.
    Þessar spurningar eru mjög áleitnar, allar þessar spurningar í samstarfi ríkja hvað eigi að gera og hverjar séu skyldur okkar sem búum við frið og öryggi til þess að auka og koma á slíku ástandi hjá þeim þjóðum sem búa við öryggisleysi og ófrið.
    Evrópuráðsins er getið hér í skýrslunni og sagt að ráðið hafi öðlast aukið hlutverk við þær breytingar sem eru að verða í Evrópu með fjölgun lýðræðisríkja og hruni einræðisstjórna í austurhluta álfunnar. Þar hafa menn tekist á við þessa spurningu: Hvað getum við gert án þess að beita hervaldi til þess að koma á stjórnarháttum í þessum ríkjum þar sem mannréttindi eru virt, þar sem lýðræðislegir stjórnarhættir eru í heiðri hafðir og þar sem fólk býr við sæmilegt öryggi þrátt fyrir afskipti stjórnvalda? Það má velta því fyrir sér hvort það sé skynsamleg leið í slíkum málum að þröngva, ef þannig mætti að orði komast, lýðræðislegum stjórnarháttum upp á ríki. Ef til vill má segja sem svo að slíkt felist í þeirri kröfu sem Evrópuráðið gerir til stjórnarhátta í aðildarríkjum sínum og þær ströngu kröfur sem þar eru gerðar og sú mælistika sem notuð er við umsóknarríki, þar er þess krafist að þau hafi tileinkað sér lýðræðislega stjórnarhætti, þar hafi t.d. farið fram frjálsar kosningar, þar hafi verið gerðar ráðstafanir til þess að tryggja rétt minni hluta o.s.frv. En Evrópuráðið fer ekki til þessara ríkja með einhverja forskrift og segir: Þetta er það sem þið eigið að taka upp, heldur skoðar það hvern þátt í stjórnarfari landanna fyrir sig og metur þróun hans og stöðu. Og ég held að þetta sé sú rétta aðferð. Ég held að við eigum ekki að nálgast þessi ríki með einhverja forskrift og segja: Svona á þetta að vera. Við höfum þetta svona og þið eigið að laga ykkur alveg að okkar forskrift í þessu efni. Þvert á móti verðum við að líta á aðstæður í hverju ríki fyrir sig, skoða og meta, setja fram ákveðnar lágmarkskröfur og síðan að leggja þessum þjóðum lið við að þróa þá þætti í stjórnkerfinu, í samfélaginu sem við teljum að samrýmist best þeim sjónarmiðum sem byggjast á lýðræðislegum stjórnarháttum. Með öðrum orðum að í stað þess að fara til þessara ríkja með forskrift, þá eigum við að segja við þau: Við skulum leggja ykkur lið. Við skulum auðvelda ykkur að þróa stjórnarhætti ykkar og koma á nýrri stjórnskipan, taka upp málfrelsi og skoðanafrelsi og virðingu fyrir minnihlutahópum. Þetta skulum við aðstoða ykkur við, en við ætlum ekki að gera til ykkar meiri kröfur um það hvernig þið standið að þessu heldur en þið sjálfir eruð reiðubúnir til að gera. Í þessu felst með öðrum orðum eins konar fræðslustarf og ræktunarstarf og þar held ég að við Íslendingar sem vopnlaus smáþjóð ættum einnig að huga að verkefnum fyrir okkur í þessu starfi. Þegar krafa er gerð til hins alþjóðlega samfélags um að það leggi eitthvað af mörkum í því efni að bæta kjör þeirra sem nú búa við vandkvæði eftir hrun einræðisstjórnanna, þá ættum við að huga að því hvort við gætum ekki látið meira að okkur kveða á þessu lýðræðislega sviði varðandi vernd mannréttinda, stjórnskipun, málfrelsi og skoðanafrelsi. Það sé viðfangsefni sem við ættum að huga að og ef óskir koma til okkar um framlag til friðargæslu, þá hljótum við einnig að beina athygli okkar að mannúðarstörfum frekar en þeim sem eru hernaðarlegs eðlis. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að ræða þetta og velta þessu fyrir okkur og mér finnst að skýrsla utanrrh. gefi tilefni til þess og sérstaklega vangavelturnar í henni um hlutverk hins alþjóðlega samfélags við það að uppræta það sem nú veldur mestum óróa og vandkvæðum í ýmsum ríkjum Evrópu.
    Það hlýtur einnig að vera markmið okkar hér í vesturhluta álfunnar að stuðla sem mest að því að þeir sem nú búa við vandkvæði í austurhlutanum geti leyst úr sínum vanda á sínum heimaslóðum því að ella kynnum við að kalla yfir álfuna mikinn flóttamannastraum sem þegar hefur vakið ótta og dregið fram í dagsljósið, ef þannig mætti að orði komast, mjög frumstæðar hvatir eins og brjótast fram í útlendingahatri og voru t.d. mjög til umræðu í þýskum stjórnmálum í Þýskalandi fyrr í vetur. Það hlýtur að vera markmið í sjálfu sér að halda þannig á málum að þróunin í þeim ríkjum sem nú eru að berjast fyrir nýjum stjórnarháttum leiði ekki til upplausnar í þeim ríkjum þar sem tiltölulega góð festa hefur verið í stjórnarháttum og það verður best gert með því að leggja þessum þjóðum lið á þeirra heimavelli og auðvelda þeim að leysa sín vandamál heima fyrir. Og þá verðum við líka þá að draga nokkur mörk á milli þeirra ríkja sem eru vestan fyrrverandi Sovétríkjanna og síðan ástandsins í Sovétríkjunum fyrrverandi þar sem ástandið virðist því miður vera mun verra en t.d. í Póllandi, Ungverjalandi, Tékklandi og Slóvakíu. Ástandið í Úkraínu, Rússlandi og Hvíta-Rússlandi er mun verra en í þessum ríkjum og þar er greinilega nauðsynlegt að draga einhver mörk og huga að aðgerðum með mismunandi hætti eftir aðstæðum í hverju ríki fyrir sig. En þessu þurfum við að sinna eins og aðrar þjóðir. Þótt við séum fámenn þjóð þá erum við þátttakendur eins og hér hefur komið fram, þá sitjum við við sama borð og hin stærri ríki og það eru gerðar kröfur til okkar í þessu sambandi eins og til annarra þjóða.
    Ég vildi, frú forseti, gera þetta að meginefni í mínu máli, þessar hugleiðingar um þessi atriði. Eins og ég sagði tel ég að við munum ræða nánar um öryggi og varnir Íslands síðar þegar skýrsla um það efni verður tekin til meðferðar hér á Alþingi. Þó vil ég aðeins drepa á þátttöku okkar í fjölþjóðasamstarfi í Evrópu. Ég hef þegar minnt á Evrópuráðið og ég er sammála því mati hér í skýrslunni að mikilvægi þess er að aukast. Ég tel einnig að það sé rétt mat að Atlantsharfsbandalagið sé hornsteinn okkar utanríkisstefnu og þátttaka í því og mér finnst líka sjálfsagt að þróa Atlantshafsbandalagið á þann veg sem gert er með svokölluðu Norður-Atlantshafssamstarfsráði þar sem ríkin í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum fyrrverandi koma til viðræðna og samstarfs við Atlantshafsbandalagsríkin. Og loks finnst mér sjálfsagt að við Íslendingar tökum þátt í samstarfinu á vettvangi Vestur-Evrópusambandsins og ég tel að það sé eðlilegt skref að stíga það eins og fram hefur komið í ræðum sem ég hef flutt um það mál hér á þingi.
    Þá er það Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu. Í mínum huga er sá samstarfsvettvangur afsprengi kalda stríðsins. Til hans var stofnað árið 1975 til að reyna að sætta viðhorf Varsjárbandalagsríkjanna og Atlantshafsbandalagsríkjanna og hlutlausra ríkja í Evrópu á tímum kalda stríðsins. Þessi ráðstefna þjónaði ákveðnu og töluvert mikilvægu hlutverki á þeim tíma og ekki ber að gera lítið út hlutverki ráðstefnunnar á því breytingaskeiði sem gengið hefur yfir. En að mín mati fer hlutverk þessarar ráðstefnu nú síminnkandi. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé ástæða til að búast við því að hún verði endilega mjög langlíf. Eftir því sem fleiri ríki eiga aðild að Evrópuráðinu og eftir því sem samstarfið á vettvangi Norður-Atlantshafssamstarfsráðsins verður meira, svo að ekki sé nú talað um hugmyndir ríkja í austurhluta Evrópu um aðild að Evrópubandalaginu, sem kunna að koma til ákvarðana innan fárra ára, þá held ég Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu gegni minna hlutverki. Mér finnst að við Íslendingar ættum að miða okkar þátttöku í alþjóðlegu samstarfi við það að þessi vettvangur eigi eftir að dragast saman og e.t.v. hverfa alfarið úr sögunni og þá verði að líta til þess að samstarf þeirra þjóða sem þarna sitja stendur traustari fótum innan stofnana sem urðu til í lok fimmta áratugarins og upphafi þess sjötta og hafa áunnið sér traust og eru nú þær stofnanir sem ríkin í austurhluta Evrópu vilja helst tengjast, og þar á ég við Atlantshafsbandalagið, Evrópbandalagið og Evrópuráðið. Mér finnst því líklegast að Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu verði ekki langlíf, og mér finnst í sjálfu sér ekki nauðsynlegt að hún verði langlíf, eftir að fjölgað hefur ríkjum í þessum stofnunum. Þannig kynni þar að verða á breyting og auðvitað kunna að verða fleiri breytingar sem valda því að verkefni og viðfangsefni alþjóðastofnana taki breytingum.

    Hér kom fram í máli hv. 7. þm. Reykn. það sem hann kallaði Evrópuhyggju sem hann óttast og telur að sé of ríkjandi hér á Íslandi --- þetta hefur komið fram í umræðum okkar um þátttökuna í Evrópska efnahagssvæðinu --- og það mátti skilja á máli hv. 7. þm. Reykn. að Evrópuhyggjan væri andstæða við náið samstarf við Bandaríkin eða ríkin í Norður-Ameríku eða annars staðar en í Evrópu. Ég held að þetta sé mikill misskilningur. Ég held að menn geti tekið virkan þátt í samstarfi Evrópuríkjanna án þess að fórna nokkru í samstarfi við önnur ríki og á þessum breytingatímum sé nauðsynlegt fyrir ríki að skoða alla þá möguleika sem þau hafa til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Okkur Íslendingum bjóðast slík tækifæri í samvinnu Evrópuríkjanna og við eigum að skoða þau og vega og meta en ekki nálgast þau með því hugarfari að þátttaka í Evrópusamstarfi útiloki okkur frá nánum og góðu samskiptum við nánar samstarfsþjóð eins og hina bandarísku sem við höfum auðvitað tengst nánar en nokkurri annarri á grundvelli varnarsamningsins. Ég held að við þurfum ekki að óttast að þar rofni um eða skilji á milli vegna þess að við lítum á okkur sem Evrópuþjóð og tökum þátt í þessu Evrópusamstarfi.
    Ég ætla ekki á þessum vettvangi að leggja mat á þróunina innan Evrópubandalagsins. Ég er þeirrar skoðunar að hún endurspegli nú mjög þær efnahagslegu þrengingar sem eru í Evrópu. Það er staðreynd sem unnt er að rökstyðja með dæmum að það hægir yfirleitt alltaf á samrunaþróuninni í Evrópu þegar Evrópuríkin ganga í gegnum efnahagslegar þrengingar eins og nú hafa gengið yfir, og þá þurfa ríkisstjórnir og stjórnmálamenn og fyrirtæki að huga að sínum eigin málum frekar en að sinna framvindu mála eins og Evrópumálanna og það virðist alltaf hafa gerst að það hefur hægt á þessari samrunaþróun á slíkum erfiðleikatímum.
    Ég minni einnig á það að þróunin í Evrópubandalaginu á eftir að mótast mjög af því sem gerist í Danmörku nú 18. maí nk., þegar Maastricht-samkomulagið verður borið þar undir þjóðaratkvæði í annað sinn. Og síðan, eins og hér hefur komið fram, hefur breska þingið ekki enn þá tekið endanlegar ákvarðanir varðandi Maastricht-samninginn eða samkomulagið, en eftir að línur hafa skýrst varðandi afstöðu Dana og Breta, þá kann það einnig að taka mjög skamman tíma fyrir Evrópuríkin að ná vopnum sínum og halda áfram þannig að við erum nú á óvissutíma í þessu en mér finnst ástæðulaust að líta þannig á eins og hann þurfi að vara mjög lengi. Við Íslendingar þurfum að fylgjast mjög náið með þessu og ég held að það sé samdóma álit allra, hvar í flokki sem þeir standa og hér hafa tekið til máls, að það sé okkur Íslendingum ákaflega brýnt að fylgjast náið með framvindunni í Evrópubandalaginu og huga að því hvernig hagsmunum okkar er best borgið gagnvart því. Ég tel að það sé skynsamlegt að gera það á grundvelli EES-samningsins. Það er rétt sem hér hefur komið fram að EES-samningurinn er ekki kominn í gildi enn, en allar líkur benda nú til þess að hann komist í gildi og ég held að það sé frekar formsatriði heldur en efnisatriði sem tefja málið úr þessu og við eigum á grundvelli þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu að móta okkur stefnu um framtíðarsamskiptin við Evrópubandalagið. Og mjög æskilegt væri að sem víðtækust samstaða tækist um slíka stefnumótun á Alþingi eftir hinar miklu og langvinnu deilur sem hér hafa staðið yfir um þátttökuna í Evrópska efnahagssvæðinu og okkur eru í fersku minni.
    Þetta verður sífellt viðfangsefni okkar hér að fylgjast með þróuninni innan Evrópubandalagsins og eins og ég segi, þá væri æskilegast að það myndaðist sem víðtækust pólitísk samstaða um það hvernig að því starfi verður staðið eftir að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur tekið gildi.
    Hv. 8. þm. Reykn. vék í máli sínu að samstarfi Bandaríkjanna og Rússlands og ég tek undir það með honum að sá samningur sem þar var gerður og þeir undirrituðu Jeltsín og Bush í Washington í júní sl., ef ég man rétt, er mjög merkilegur. Það er mjög merkilegt að lesa þann samning og ef hann er túlkaður frá orði til orðs og lögð sú merking í hann sem orðin gefa til kynna, þá er þetta mikill vináttusamningur. En mitt mat á þessum samningi er að hann sé nú frekar pólitísk viljayfirlýsing heldur en honum hafi verið hrundið í framkvæmd og ég hallast að þeirri skoðun sem Henry Kissinger setti fram skömmu eftir að samningurinn var gerður þar sem hann flutti nokkur varnaðarorð af þessu tilefni að menn mættu ekki láta blekkjast af því sem þarna stæði því að það væru svo mikil óvissuatriði, sérstaklega hjá öðrum samningsaðilanum, þ.e. hinum rússneska, að það væri mjög óvarlegt að ganga þannig fram og treysta til fullnustu orðum þessa samnings. En ég tek undir það með hv. 8. þm. Reykn. að samningurinn er merkilegur og orðin sem í honum standa eru mörg mjög athyglisverð miðað við samskipti Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og það hvernig þau þróuðust og hvaða þáttaskil urðu með þessari samningsgerð. En ég held að það sé nauðsynlegt að líta til þess að framkvæmd samningsins byggist á ákveðinni þróun í Rússlandi sem því miður hefur ekki orðið. Það hefur ekki myndast stöðugleiki innan rússneska stjórnkerfisins og það hefur ekki þróast með þeim hætti að það sé við því að búast að Bandaríkjamenn sem annar aðili samningsins líti þannig á að unnt sé að treysta orðum hans 100% ef þannig mætti að orði komast eða að nokkru gagni fyrr en tekist hefur að breyta stjórnarháttum í Rússlandi. Eins og við vitum standa þau átök núna yfir einmitt þessa dagana og ef rétt er munað, þá verður núna 25. apríl atkvæðagreiðsla í Rússlandi um þessi mál og þá fæst leiðbeining a.m.k. frá þjóðinni um það hverjum hún treystir fyrir stjórn landsins og síðan eftir það verða væntanlega frekari ákvarðanir teknar þar um framvindu stjórnmála. En ég er einn þeirra sem enn efast um að það sé unnt að gera samninga af þessu tagi við Rússland og treysta þeim alfarið. Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa borð fyrir báru í þessu efni og menn eigi ekki að rasa um ráð fram þó að þeir eigi að leggja þessari þróun lið. Ég leit þannig á að þessi samningur væri gerður m.a., eins og síðan Clinton gerði þegar hann hitti Jeltsín á dögunum í Vancouver, þegar hann tilkynnti honum um fjárhagsaðstoð, að þessi samningur hafi verið viðleitni Bandaríkjastjórnar undir forustu Bush til þess að ýta undir lýðræðislega þróun í Rússlandi og samningurinn sé gerður með því fororði að árangur náist í því að breyta stjórnarháttum í Rússlandi. Þetta er mín skoðun á þessu og ég skipa mér í þá sveit sem vill bíða frekar og sjá og fylgjast með hver framvindan verður í Rússlandi og hvernig mönnum tekst þar að komast út úr þeim hremmingum sem þar eru.
    Ég ætla að öðru leyti ekki að gera að umtalsefni það sem komið hefur fram í þessum umræðum. Ég vil aðeins minna á það vegna þess að það hefur verið rætt um hlutverk Atlantshafsbandalagsins í þágu Sameinuðu þjóðanna að að sjálfsögðu var það strax í upphafi ljóst að Atlantshafsbandalagið var myndað sem hluti af því öryggiskerfi sem Sameinuðu þjóðirnar urðu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Í stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins er vísað í 51. gr. stofnskrár Sameinuðu þjóðanna og það skýrt fram tekið að til bandalagsins sé stofnað í fullu samræmi við Sameinuðu þjóða kerfið þannig að það er í sjálfu sér ekkert nýtt að Atlantshafsbandalagið starfi innan þess ramma sem Sameinuðu þjóðirnar mynda og þess öryggiskerfis sem þar var komið á laggirnar þó að hitt sé nýtt eins og fram hefur komið að á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Ósló nýverið var ákveðið að bandalagið mundi leggja fram herafla í þágu Sameinuðu þjóðanna og Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu ef þess yrði óskað til þess að stilla til friðar á svæðum utan varnarsvæðis bandalagsins.
    Í lok máls míns, frú forseti, vil ég láta þess getið að ég er sammála því sem kom fram í ræðu utanrrh. að það væri æskilegt að finna þessari umræðu um utanríkismál hér á þinginu nýtt form. Það er mikið sem er hér undir þegar þessi skýrsla er rædd með þeim hætti sem hér er gert og það væri betra að afmarka sig kannski meira við einstaka þætti hverju sinni heldur en að hafa jafnmmikið undir eins og óhjákvæmilegt er þegar þessi stóra skýrsla er rædd. Ég vona að það takist samkomulag um það hér í þinginu að taka upp nýja skipan varðandi þessa málsmeðferð.