Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 14:46:37 (7119)

    Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir það að leggja nú fyrir Alþingi viðamikla skýrslu um utanríkismál. Því miður er hann af óviðráðanlegum ástæðum ekki enn mættur hér en ég féllst á að mælendaskrá gæti verið óbreytt engu að síður þó að hann væri ekki mættur, en hann kemur hér síðar og við getum þá skipst á skoðunum ef svo ber undir, en ég held að ekkert af því sem ég hafði hugsað mér að segja sé særandi á nokkurn veg. Það er málefnaleg umræða sem hér fer fram og ekki ómerk. En þetta plagg er þannig að það á auðvitað eftir að fá frekari skoðun, bæði megintextinn og viðaukar og fylgiskjöl.
    Hæstv. utanrrh. fer vítt yfir völlinn í þessari skýrslu þegar fjallað er um lífshagsmunamál íslensku þjóðarinnar, utanríkismálin, og þar með fullveldis- og sjálfstæðismálin. Það er nú hvorki meira né minna en þetta sem við erum að ræða. Það gætir því margra grasa og auðvitað misjafnra. Ekki mun ég í þessu stutta máli reyna að fjalla um nema lítið eitt af því sem í hugann kemur og frekar þá það sem mér er hugleikið heldur en eitthvað sem ógeðfelldara er og það finnst auðvitað líka. En von mín er sú, eins og ráðherrans sem hann lét í ljósi í morgun, að í umræðunni í dag og næstu daga og kannski ár þar muni menn skiptast á skoðunum, slíkar umræður munu leiða til varúðar í öllu málinu og umræður verði þar til þess vaxnar, eins og eðlilegt og sjálfsagt er og alltaf hefur verið á Alþingi Íslendinga, að í lokin reynum við að sameinast um það sem við náum samkomulagi um að sé mikilvægast fyrir þjóðina í heild sinni. Að því erum við að keppa og til þess erum við hér og það á þess vegna að vera ástæðulaust að fárast yfir því að menn ræði í hreinskilni um málið.
    Það er þannig að strax um miðbik fyrstu síðu þessarar skýrslu getur að líta eftirfarandi setningu, sem vissulega gladdi mig. Setningin er svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin hefur ákveðið að Ísland muni ekki slást í hóp þeirra EFTA-ríkja sem sótt hafa um aðild að Evrópubandalaginu.``
    Hér er komin staðfesting á þeirri stefnu sem raunar hefur verið ríkjandi nú um þriggja til fjögurra ára skeið því að í þeirri merku bók sem Evrópustefnunefnd gaf út er í lokin dregið saman það sem menn eru sammála um í nefndinni --- þetta var níu manna nefnd þingmanna eins og hv. þm. vita --- þar segir í 1. tölul. í fyrirsögn: ,,Aðild að Evrópubandalaginu er ekki á dagskrá.`` Og síðan segir:
    ,,Enginn íslensku stjórnmálaflokkanna hefur á stefnuskrá sinni aðild að Evrópubandalaginu. Sumir flokkanna orða það svo í stefnuyfirlýsingum sínum og samþykktum að umsókn um aðild sé ekki á dagskrá. Aðrir kveða svo að orði að aðild komi ekki til greina.``
    Síðan gera einstakir nefndarmenn frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum og þar er það sérstaklega tekið fram sem menn voru meira og minna sammála um, en síðan er vitnað frekar í sérákvæði eða sérskoðanir, en um þetta meginmál sem öllu skiptir, var algjör samstaða og við glöddumst öll yfir því og vonum að það haldi áfram að samkomulag geti náðst um meginmálið.
    Ef ég vík þá aftur að skýrslunni, þá er síðar á þessari fyrstu blaðsíðu setning sem hljóðar svo: ,,Á sviði öryggis- og varnarmála hefur ríkisstjórnin ákveðið að Ísland gerist aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu til að tryggja Íslendingum hlutdeild í samráði Evrópuríkja Atlantshafsbandalagsins.`` Þessi setning gleður mig svo sem ekki á sama hátt og hin fyrri en engu að síður er við það allt saman unandi og þarf ekki frekar um það að ræða.
    Í sambandi við þessi mál var það raunar svo að þegar ég las skýrsluna yfir fannst mér ég sakna

einhvers. Það væri eitthvað meira en lítið sem vantaði í þessa skýrslu og ég fletti síðan áfram til að finna hvað það gæti verið og kannski grunaði mig það sem verst var að það vantaði algerlega að ræða um okkar mestu og mikilvægustu mál, þ.e. landhelgismálið og þá landgrunnsmálið, því að þar eigum við gífurleg auðæfi óheimt, úr greipum Ægis getum við sagt, því að hafsbotninn er auðvitað undirstaða alls þess sem yfir honum er. Og það er kannski rétt að minna á það að þegar allt þetta byrjaði að gerast með stóra landhelgislínu, þá voru það Bandaríkjamenn sem árið 1945 frekar en 1946 tóku sér 200 mílna landgrunnsréttindi fyrir öllum sínum ströndum. Síðar var það alveg ljóst og kennimenn og stjórnmálamenn bentu á það að sá sem ætti hafsbotninn mundi líka eignast sjóinn þar fyrir ofan og allar þær auðlindir sem þar var að finna. Sú varð líka raunin á að smám saman voru Suður-Ameríkuþjóðirnar að heimta 200 mílna réttindi. Við vorum tiltölulega seinir, Evrópumenn, að átta okkur á því hvað væri að gerast. Það var sem sagt ekki nein sérstök forusta af okkar hálfu þá. En raunar er landhelgissaga Íslendinga orðin það mikil að menn mættu gjarnan hugsa um hvað var þar að gerast þegar við höfðum fengið takmarkað frelsi að vísu, ekki fullkomið. Árið 1918 byrjuðu okkar bestu menn strax að vinna að því að reyna að fá úr gildi felldan eða breytt samningi sem var gerður milli Breta og Dana um viðskiptamálefni sem voru þess valdandi að erlend skip gátu verið í okkar landhelgi allt inn að þremur mílum og síðan smáþróaðist þetta upp í það að við jukum þessi réttindi okkar.
    En það sem vakti mig til vitundar um hvað það væri sem skorti svona sáran í þessa skýrslu hæstv. ráðherra var það að maður að nafni dr. Manik Talvani, sem var okkar aðaltrúnaðarmaður og sérfræðingur á hafréttarráðstefnunni árum saman, á annan áratug, mikill vinur Hans G. Andersens og samstarfsmaður þennan langa tíma, kom hér við á ferð sinni til Evrópu á leið til síns heima í Bandaríkjunum og ég notaði tækifærið til þess og nokkrir fleiri að ná af honum tali. Raunar hafði hann nú frumkvæðið að því að ná í okkar því hann stoppaði hér, hann langaði til þess, hafði komið hér svo oft áður, langaði til að koma við. Og þá orðaði ég það við hann hvort hann gæti, ef um það kæmi ósk frá réttum íslenskum yfirvöldum, hjálpað okkur að átta okkur á því hvernig við gætum heimt þau réttidi sem við eigum á Reykjaneshrygg út í 350 mílur á Hatton-banka og út í 600 mílur allt norður að Pól, á Norðurpólinn ef farið er þá leiðina, og svo aftur á hafsbotnssvæðið sem er autt enn þá, 200 mílur milli Noregs og Íslands.
    Það er skemmst frá að segja að hann leyfði mér að greina réttum yfirvöldum frá því að hann mundi skoða það með miklum áhuga vegna þess að þetta svæði, norðurslóðirnar, var nú víst held ég einmitt hans prófverkefni en hann er eins og ég sagði merkur vísindamaður á þessum sviðum. Það gerðist sem sagt að hann er til þess reiðubúinn að athuga það að aðstoða okkur við að heimta þessi réttindi okkar.
    Þegar við höfum byrjað að berjast fyrir einhverju á sviði landgrunnsmála og landhelgismála yfirleitt, þá hefur verið alveg ótrúleg deyfð yfir Alþingi, hvað þá framkvæmdarvaldinu. Menn máttu helst aldrei heyra það nefnt að það væri nokkur möguleiki að hreyfa sig í eina átt eða aðra því að það hlytu að koma einhverjar hefndarráðstafanir og við gætum aldrei komið þessu fram, þetta væri brot á alþjóðalögum. En alþjóðalög myndast nú aldrei nema fyrir venju og þess vegna væri það gjörsamlega vonlaust að hreyfa þessu máli. Ég veit ekki hvað oft ég hef farið í þetta púlt til þess að segja þessa sömu setningu. Nú er að því komið að þetta getur ekkert gengið lengur. Við erum að reyna að rækta upp og verja okkar meginauðlegð og varðveita frá bæði mengun og ofveiði og við eigum þessi gífurlega miklu réttindi hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Og skyldi ekki alþingismönnum líka það betur að við eigum þessi réttindi til sjávarins og alls sem er yfir honum nú þegar er svo komið. Þessi réttindi byggjast á því sem kallað er framlenging landgrunnsins, the natural prolongation of the sea bed, út á höfin og allt sem þar hreyfist ekki öðruvísi en í snertingu við botninn og síðan allar botnlægar tegundir og allt sem í botninum er þar að auki, olían og það allt saman sem við höfum rætt um áður og komist alllangt í því í samningum við Breta að geta náð samningum á Hatton-Rockall svæðinu eins og allir hér vita. En þetta hefur verið trassað. Og við höfum ekki leyfi til þess að fara með það vald að vera þingmenn og ráða þar af leiðandi yfir æðstu stjórn landsins án þess að við könnum öll þessi atriði og þrýstum á um framkvæmdir ef þrýsting þarf að hafa.
    En þá er komið að því að minna á að sá styrkleiki, sem við Íslendingar höfum þegar við lítum á 74. gr. hafréttarsáttmálans sem fjallar um hafsbotninn, er m.a. fólginn í 6. tölul. þeirrar greinar. Þar segir að þrátt fyrir önnur ákvæði skuli ytri mörk landgrunnsins á neðansjávarhryggjum ekki vera lengra en 350 mílur frá grunnlínu. En þar sem ekki er um neðansjávarhryggi að ræða heldur framlengingu af öðrum sökum, t.d. framburður ánna o.s.frv. og landris að fornu og nýju, geta mörkin náð lengra, t.d. fara Indverjar út í einar 1.300 mílur og margir aðrir nokkuð skemmri leið en þeir. Það sem er aðalatriðið í sambandi við þetta er að það voru Íslendingar og Rússar af öllum mönnum sem á hafréttarráðstefnunni gengu til samninga um það hve langt menn mættu fara út eftir hafsbotninum á neðansjávarhryggjum, því eins og allir vita eru bæði í Atlantshafinu og þó einkum og sér í lagi í Kyrrahafinu langir og mjög víðáttumiklir neðansjávarhryggir sem eru jafnvel þúsundir mílna. Og þegar um það var orðið samkomulag á hafréttarráðstefnunni um að þjóðirnar ættu meira en 200 mílur, það væri fullveldisréttur að einnig þessari framlengingu sem ég var að nefna og menn þekkja, þá var það auðvitað alveg ljóst að það var ekki hægt að við Íslendingar, sem erum á hæsta punktinum á Norður-Atlantshafinu og njótum þess þar af leiðandi að eiga þessa framlengingu í allar áttir því að enginn getur framlengt að okkur heldur frá okkur, þegar þetta var síðan skoðað nánar, þá gengum við til óformlegra samninga.
    Ég man það vel og hef sagt frá því hér þegar Hans Andersen ræddi við aðalsamningamann Rússa

á hafréttarráðstefnunni. Sá rússneski var mjög yggldur og þegar búið var að halda eina þrjá, fjóra fundi var farið að reyna að tala saman í alvöru. Hann hafði haft orð á því að værum mestu ,,imperíalistar`` veraldarsögunnar því að við ætluðum okkur að eignast hafsbotnssvæðið 2.000 mílur suður í höf. Og við sögðum það náttúrlega vera mikla fjarstæðu, en hvað þeir gætu hugsað sér að við gætum farið langt því að varla ættum við að fara skemmra en margir aðrir sem hefðu framlengingu bara frá framburði ánna en ekki beina óslitna framlengingu landgrunnsins. Og þá man ég það eins og það hefði gerst í gær að á lokafundinum sagði sá rússneski eitthvað í þá áttina: ,,Jæja, við verðum að klára þetta. Þið verðið auðvitað að fá eitthvað og getum við þá ekki sagt að þið fáið 100 mílur í viðbót?`` Og við sögðum: ,,Nei, við verðum að fá a.m.k. 200, ekki má það vera minna heldur en hitt.`` Þá hló einhver og sagði: ,,Við segjum þá 150 þannig að heildarlandhelgin verði 350.`` Þessi tillaga fór beint inn í hafréttarsáttmálann og enginn mótmælti.
    Síðan er komið nokkuð á annan áratug og enn þá horfum við upp á það að verið er að rányrkja Reykjaneshrygginn og við erum minnt á það núna á hverjum degi að það er verið að gjöreyða stofnum sem þar eru og það er ekkert aðhafst eða lítið, varla að Landhelgisgæslunni sé beitt, en hún er peningalaus og varð að skera niður eins og allir aðrir því að það nú orðið móðins að skera niður, sérstaklega að halda því í skefjum sem mikilvægast er, en eyða þá kannski í eitthvað þarflausara. Þetta er nú það sem við þurfum að kljást við núna og sameinast um reyndar áfram.
    Þá kemur að EES-samningnum blessaða. Við höfum deilt um það mál og eigum ábyggilega eftir að gera það áfram. En við þurfum fyrst að átta okkur á því að það er enginn EES-samningur til. Hvar er sá samningur? Ég hef lýst eftir honum æ ofan í æ. Hann er hvergi til. (Gripið fram í.) Já, einn þingmaður, einmitt sá sem greip fram í, hefur strax skilið þetta af því að hann er svo barnalegur eins og ég. Þetta liggur í augum uppi. Það er ekkert um það að tala. Það er enginn samningur til sem vantar í meira og minna alla partana. Ég á nú að heita hæstaréttarlögmaður og ég veit að það er enginn samningur til ef botninn er úr honum og hefur aldrei verið settur saman, er suður í Borgarfirði. Og það er þó játað af þeim sem eru óðastir í að þvæla okkur inn í þetta allt saman, að það vanti allt kjötið á beinið. Núna erum við að fá fréttir af því á hverjum degi að ef það eru ekki Spánverjar, þá eru það einhverjir aðrir. Og hæstv. utanrrh. sjálfur hefur sagt það og segir núna annan hvern dag að kannski verði ekkert úr þessu á þessu árinu. Auðvitað verður ekkert úr því á þessu árinu og heldur ekki hinu næsta ef við ætlum ekki að láta neitt verða úr því. Við höfum ekkert upp úr því að þessi samningur verði að veruleika. Þess vegna er það alveg nákvæmlega eins rétt núna og fyrir þó nokkrum árum að segja: Flýtum okkur hægt, bíðum átekta. Við höfum allt að vinna með biðinni en engu að tapa.
    Fyrir eitthvað tveimur árum síðan eða svo komu þeir heim hæstv. ráðherra og hans aðalsamningamaður, Hannes Hafstein. Það var mikið um dýrðir og það var komið hér upp í pontu og sagt: ,,Við fengum allt fyrir ekkert.`` Það hljóta allir Íslendingar að muna þetta. Við fengum allt fyrir ekkert. Hvers vegna voru þeir þá að leita eftir einhverju öðru ef þeir voru búnir að fá allt fyrir ekkert? Þetta hefur allt verið á þessum nótunum. Og nú fréttum við það í gær eða fyrradag að það er kominn nýr utanríkisráðherra í Finnlandi. Hann afneitar öllu þessu EES og Evrópubandalagi meira og minna.
    Menn eru að sjá það nú í vaxandi mæli, fleiri og fleiri sjá það víða um heim að það er ekkert hagstætt að vera endilega stórveldi. Það er ekkert unnið við það. Það eru miðlungsstóru ríkin og smáríkin sem eru að komast í tísku. --- Velkominn ráðherra, ég var einmitt að vonast til að þú kæmir. Ráðherrann hefur að vísu heyrt mig segja þetta allt saman áður svo ég get endurtekið það við hann bara prívat, en þetta var nú það sem ég vildi þó segja nú að það eru minni löndin sem eru að komast í tísku. Það er verið að skipta upp stórum ríkjum sem að vísu hafa verið til komin með óeðlilegum hætti en engu að síður er það nú svo.
    Þá er að athuga það sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson gat sérstaklega um í sinni ræðu, að viðskiptaerjur, eins og hann kallaði það hóflega, munu verða með Evrópubandalaginu annars vegar og Japönum og nágrönnum Japana hins vegar og síðan Bandaríkjamönnum, að þarna mundi verða þrefalt átakasvæði, þrír pólar sem mundu berjast á sviði viðskipta. Ég held að það sé ekki heppileg þróun að það gerist þannig. Ég held að við eigum að hugsa núna rækilegar en oft áður um tvíhliða samninga við Evrópubandalagið. Það hefur alltaf legið á borðinu að geta hafið þá samninga og það hefur eingöngu verið trassað að fullkomna þá og það hefur staðið upp á okkur en ekki aðra að reyna að hrinda því fram, alveg eins og samningur við Breta, það stendur opið að ræða við þá hvenær sem er.
    Auðvitað hljótum við að hugleiða betur en við höfum gert hvað hægt er að gera innan vébanda GATT. Ég held að það sé einmitt leiðin og við getum gert það í rólegheitunum að taka þá samninga upp og styðja auðvitað alla þá sem vilja raunverulegt frjálsræði í viðskiptum því að það er auðvitað ekki frjálsræði í viðskiptum, ef við tökum Evrópubandalagið sérstaklega, þá er það ekki frjálsræði gagnvart öðrum sem vilja flytja inn á þeirra svæði. Evrópubandalagið getur auðvitað ekki kallast fríverslunarbandalag, heldur þvert á móti. Það er haftabandalag. Það lokar sínum mörkuðum fyrir öðrum og það verður ekkert frjálsræði úr því ef allir loka sínum mörkuðum fyrir öllum utanaðkomandi. Þetta er nú svo augljóst mál að ég held að ég sé ekkert að ræða frekar um þetta nú. --- Ráðherrann hefur brugðið sér frá og það er ekkert sérstakt við hann að tala frekar en það sem ég sagði hér áðan.
    Ég vænti þess að menn gefi sér tíma til að hugsa sitt ráð og séu ekki að flasa að neinu. Við eigum þessi miklu réttindi sem ég var að geta hér um og við erum sjálstæð þjóð og ætlum okkur ekkert að

fórna sjálfstæðinu, ekki einu sinni hluta af frjálsræðinu sem við auðvitað mundum gera ef við sökkvum okkur á kaf í þetta Evrópuævintýri allt saman. Við getum bara tekið lífinu með ró og við munum sigra.