Staða samninga milli aðila vinnumarkaðarins

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 16:10:17 (7124)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég er ekki sannfærður um að þessi umræða sé fyllilega tímabær og aukin heldur verður hún ekki tæmd á hálftíma. Ef slitnar upp úr samningum, sem ekki hefur gerst enn þá, a.m.k. ekki formlega, þá held ég að óhjákvæmilegt sé að fá langa umræðu eftir helgina. Ég er ekkert hissa þó að það slitni upp úr samningaumleitunum vegna þess að sá grundvöllur sem ríkisstjórnin lagði fram frá sinni hendi er mjög veikur. Að vísu er sumt í þessu tilboði skynsamlegt að mínum dómi og virðingarvert hjá ríkisstjórninni, en sumt er nokkuð skrumkennt og í óskalistastíl. Mér finnst sönnun þess að ríkisstjórnin hafi fundið það sjálf að þetta var ekki raunhæft, heldur fyrst og fremst auglýsingamennska að hún skyldi senda tilboðið í sjónvarpið jafnhliða því sem samningamennirnir fengu það.
    Það sem mér finnst vanta í þennan grundvöll er í fyrsta lagi kjarajöfnunin. Sáralítil kjarajöfnun er í þessum hugmyndum. Raunhæfar hugmyndir um vaxtalækkun vantar. Sjávarútvegurinn er skilinn eftir á köldum klaka. Sá mikli halli sem hann er rekinn með núna lagast ekki nema að litlu leyti við þessar aðgerðir. Síðast en ekki síst ber að hafa í huga að ekki var neinn allsherjarvinnufriður tryggður með því þó þessir samningar gengju saman því að BSRB er eftir og BSRB hefur a.m.k. fram að þessu verið hunsað af ríkisstjórninni.
    Taktík þessarar ríkisstjórnar þegar í nauðirnar hefur rekið hefur verið að draga ofurlítið af slæmum verkum sínum til baka og láta margt standa eftir. (Forseti hringir.) Ég held, frú forseti, að ríkisstjórnin hafi haldið klaufalega á málinu og ég leyfi mér að fullyrða að fyrrv. forsrh. hefði haldið lögulegar á málinu.