Staða samninga milli aðila vinnumarkaðarins

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 16:15:30 (7126)

     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Nú hefur slitnað upp úr samningaviðræðum ríkisstjórnar og ASÍ, a.m.k. í bili. Hæstv. forsrh. sagði í hádegisfréttum eitthvað á þá leið að hann dragi í efa samningsvilja ASÍ. Þó fólk standi upp frá samningsborði þarf það ekki að merkja skort á samningsvilja, það er alveg marktæk afstaða að líka ekki innihald samningsboða. Ég fullyrði að það hafi einmitt verið óánægja með tilboð ríkisstjórnarinnar eða yfirlýsingu, eins og það er kallað, sem olli samningsslitum en ekki skortur á samningsvilja. Hverjum ætti að vera meira í hag en einmitt launþegum að ná samningum og það sem fyrst? En af hverju stafar þá óánægjan? Ekki þarf að rýna fast eða lengi í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til að skilja afstöðu ASÍ því það er fátt þar fast í hendi og með tilliti til þess að launþegar þurfa nú meira en áður að treysta á aðgerðir stjórnvalda. Í ljósi þeirra staðreynda að bágt ástand atvinnuveganna í landinu gerir þá lítt aflögufæra er ljóst að í tilboðum ríkisstjórnarinnar verða að felast áþreifanlegar kjarabætur, ekki óljósar yfirlýsingar um að stefnt skuli að eða unnið skuli að. Slíkt og þvílíkt hafa menn oft heyrt áður og oftar en ekki orðið lítið úr efndum.
    Nú verður í ljósi þess sem ég sagði áðan með mikilvægi aðgerða ríkisstjórnarinnar að liggja fyrir tryggingar um hvað skuli gert og hvernig og ekki síður hvernig skuli fjármagna aðgerðirnar. Mig hefði langað til að gera aðeins að umræðuefni hvernig tilboð ríkisstjórnarinnar um fé til atvinnuskapandi aðgerða snúa að konum. Það virðist fyrst og fremst vera hugsað um að bæta atvinnuástand karlkynsins en þar sem launþegahreyfingarnar sjálfar virðast ekki frekar en fyrri daginn hafa mikið við það að athuga fjölyrði ég ekki um það frekar en beini þess til kvenfólks í launþegahreyfingunni til umhugsunar.
    Mjög mikilvægar kjarabætur, ekki síst fyrir láglaunafólk og barnafólk, er vissulega loforð um lækkun virðisaukaskatts á matvælum. Að vísu er launþegum ætlað að bíða í átta mánuði eftir að þær aðgerðir komi að fullu til framkvæmda en ekki liggja fyrir fullunnar tillögur þar um fjármögnun frekar en í öðru og sama gildir um heilbrigðismálin þar sem sagt er að unnið verði að því að lyfja- og lækniskostnaður verði ekki fólki ofviða. Ég hefði gjarnan viljað gera það að umræðuefni aðeins líka en það er auðvitað skylda ríkisstjórnarinnar að vinna heimavinnuna sína almennilega og koma með tilboð (Forseti hringir.) þar sem ekki eru bara yfirlýsingar heldur fastmótaðar tillögur um fjármögnun tilboða.