Staða samninga milli aðila vinnumarkaðarins

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 16:22:54 (7129)


     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það úrræða- og aðgerðaleysi sem einkennt hefur stefnu þessarar hæstv. ríkisstjórnar í efnahags- og atvinnumálum kemur e.t.v best fram gagnvart aðilum vinnumarkaðarins við gerð þeirra kjarasamninga sem staðið hafa yfir að undanförnu. Þjóðarsáttin sem rofin var á sl. hausti var auðvitað upphafið að þessu öllu saman, en síðan hefur tíminn allur einkennst af úrræðaleysi og úrtölum. Stjórnin hefur m.a. reynt að leika biðleiki eins og t.d. í uppákomunni í kringum Landsbankann og ég hygg að að hluta til hafi þeirri uppákomu verið ætlað það hlutverk að draga mátt og kjark úr launþegahreyfingunni. Eftir mikið þóf og þrýsting kemur loksins plagg frá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. sem er svo loðið og máttlaust að launþegasamtökin geta að sjálfsögðu ekki tekið mikið mark á því plaggi, enda sýna atburðir næturinnar og dagsins í dag hverjar afleiðingarnar eru. Og maður getur auðvitað spurt hvað ríkisstjórn hugsi, líklega ekki neitt, sem setur fram setningu eins og t.d. þessa: Til að treysta íslenskt atvinnulíf þarf öfluga sókn í atvinnumálum. Þetta vita auðvitað allir og þetta hafa menn oftsinnis heyrt. En það er eins og öfugmæli þegar það kemur frá þessari hæstv. ríkisstjórn sem ekkert hefur gert annað en vera með úrtölur og barlómurinn hefur verið það sem mest hefur verið áberandi í umræðum hjá þessari hæstv. ríkisstjórn.
    Sama er auðvitað að segja með textann sem varðar vaxtamálin sem hefur verið ein aðalkrafa launþegahreyfingarinnar í sambandi við þessa kjarasamninga og reyndar vinnuveitendanna líka. Þar segir: Ríkisstjórnin mun stuðla að áframhaldandi lækkun vaxta og aðgerðum í peningamálum verður hagað þannig að vextir geti lækkað. Það á að gera í auknum mæli með frjálsu útboði á markaði, fjölbreytni í framboði bréfa, ríkisverðbréfum í erlendri mynt o.s.frv. Þetta er nú varla orðalag sem er líklegt til þess að styrkja mjög samningastöðuna.
    Nei, hæstv. forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. að vinna heimavinnu sína betur nú um helgina og ég tek undir það með frummælanda hér í þessum umræðum að það verði gert vegna þess að það hlýtur að vera eitt af meginmarkmiðunum að koma á langtímasamningum sem geta skapað stöðugleika hér í efnahags- og atvinnulífi.