Staða samninga milli aðila vinnumarkaðarins

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 16:25:25 (7130)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Forsrh. gat þess áðan þegar hann svaraði upphafsmanni þessarar umræðu að í þessum samningaviðræðum sem nú hafa staðið yfir hafi verið mismunandi skoðanir beggja vegna borðsins, eins og hann sagði. Hugtakið ,,beggja vegna borðsins`` í kjaraviðræðum hefur hingað til haft þá merkingu að öðrum megin séu atvinnurekendur og hinum megin sé launþegahreyfingin. Ég skil þetta hugtak ekki lengur vegna þess að ég veit ekki hverjir sitja hvorum megin borðsins í þeim kjaraviðræðum sem nú fara fram vegna þess að mér hefur sýnst að ríkisvaldið sitji öðrum megin og atvinnurekendur og ASÍ sitji hinum megin. Spurningin er því hvort það verði þá mismunandi og tvær skoðanir uppi hjá ríkisstjórninni og tvær hjá ASÍ og VSÍ eða hvað á forsrh. við vegna þess að hugtakið ,,beggja vegna borðsins`` hefur öðlast alveg nýja vídd í þeim viðræðum sem nú hafa farið fram.
    Forsrh. sagði líka áðan að hlutdeild ríkisins hefði aldrei verið stærri í kjaraviðræðum og ríkisvaldið hefði aldrei gengið eins langt í kjaraviðræðum og nú hefur verið og var að telja það þessari ríkisstjórn til ágætis. Ég veit ekki hvort það er rétt að ríkisstjórnin geri það vegna þess að ástæðan fyrir því að hlutdeild ríkisins er svona stór er sú að sjaldan hefur ríkisstjórn verið jafnmikill örlagavaldur í kjaramálum og efnahagsmálum eins og þessi ríkisstjórn, ýmist með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi. Í aðgerðum getum við nefnt aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn launafólki. Hún hefur verið dálítið mikilvirk í þeim og svo hefur hún sýnt aðgerðarleysi í efnahags- og atvinnumálum þannig að hún er mikill örlagavaldur og það er eðlilegt að hlutur hennar sé stór við þessar aðstæður. Það sem hefur hækkað að undanförnu og haft áhrif á kjör launafólks er ýmislegt sem ríkisvaldið hefur hækkað. Við getum tekið orkukostnaðinn, húshitunarkostnað, heilbrigðisþjónustuna o.s.frv. Matur hefur ekki hækkað. Bændur hafa ekki hækkað afurðir sínar og matur hefur ekki hækkað hér í búðum. Það er ríkisvaldið sem hefur gengið á undan og hækkað vörur og þess vegna er það auðvitað mjög eðlilegt að það spili stórt hlutverk í þessu og það ráði miklu um framgang þessara viðræðna og það verður að axla þá ábyrgð.