Staða samninga milli aðila vinnumarkaðarins

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 16:27:47 (7131)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hafa í margar vikur rætt við forsvarsmenn ASÍ og VSÍ. Það hefur verið forsrh. og utanrrh. ljóst í margar vikur hvaða ákvarðanir þurfti að taka til þess að hægt væri að skapa grundvöll fyrir langtímakjarasamningum. Það var ljóst fyrir páska. Ríkisstjórninni tókst hins vegar ekki að taka þær ákvarðanir, virðulegi ráðherra, og þess vegna varð að senda alla samningamennina heim. Síðan kemur það loksins í ljós þegar ríkisstjórnin sendir frá sér ákvarðanir að þær duga ekki og ráðherrunum hlýtur að hafa verið það ljóst að þær mundu ekki duga. Þess vegna er það auðvitað alveg furðuleg óskammfeilni í bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. að koma hér upp og fara að drótta því að forustu Alþýðusambandsins að það sem forusta Alþýðusambandsins hefur sagt núna á þessum sólarhring sé fyrirsláttur. Er forsrh. að væna Benedikt Davíðsson, forseta Alþýðusambands Íslands, um að mæla ekki af heilindum eða sannferðuglega það sem hann hefur sagt í þessum málum? Og síðan kemur hæstv. utanrrh. og fer að tala í dularfullum tón um það að það séu einhver öfl inni í Alþýðusambandinu sem hafi ekki viljað þessa samninga. Getgátur af þessu tagi eru ekki ráðherrum sæmandi sem eiga að taka það hlutverk alvarlega að koma á sáttum í samfélaginu til þess að endurreisn íslensks atvinnulís geti hafist. Því miður sýnist mér það vera þannig að ríkisstjórnin ætlar ekki að gera neitt meir. Hún ætlar að láta duga þessi ófullnægjandi svör og þá er alveg ljóst að hér blasir við áframhaldandi atvinnuleysi. Hér blasa við áframhaldandi svo háir vextir að það hefur skapað gífurlega rekstrarerfiðleika fyrir útflutningsgreinarnar og ógna stöðugleika gengisins. Það er alveg ljóst að óvissan á vinnumarkaðinum mun skapa þannig ástand í íslenskum efnahagsmálum núna í sumar að það er ekki viðunandi að ríkisstjórnin hagi verkum sínum með þessum hætti. Þess vegna endurtek ég tilmæli mín til hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. að þeir sýni nú ábyrgð og taki málefni sín til endurskoðunar en láti það ekki duga að mæta í þingsalinn með aðdróttanir í garð forustumanna samtaka launafólks í landinu.