Staða samninga milli aðila vinnumarkaðarins

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 16:30:53 (7132)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrst vegna aukaatriðis sem hefur verið gert að nokkru atriði í umræðum hér með hvaða hætti þessi yfirlýsing var kynnt. Það var gert með nákvæmlega þeim hætti sem aðilum vinnumarkaðarins hafði verið greint frá af að gert yrði og það var hálftíma millibil milli sendinga til þeirra og til sjónvarps. Og það er nú svo að eftir að forsrh. hefur skrifað undir yfirlýsingu fyrir ríkisstjórnarinnar hönd, þá á öll þjóðin á sama tíma rétt á að vita hvað í slíkri yfirlýsingu felst.
    Varðandi það sem spurt var um ,,beggja vegna borðsins`` sem ég hafði nefnt, þá var ég að tala um aðdraganda samninga. Áður en kom til kasta ríkisstjórnarinnar var ljóst að beggja vegna þess borðs, sem menn sátu við þá, voru uppi deildar meiningar um það hvort ætti að semja til langs eða skamms tíma. Þegar niðurstaðan varð sú að reyna að semja til lengri tíma, þá var komið að borði ríkisstjórnar og ríkisstjórnin hefur svo sannarlega reynt að stuðla að því að það yrði gert.
    Menn hafa tekið upp hér eina og eina setningu úr þessari yfirlýsingu sem hér hefur verið til umræðu og sagt að það væri þunnt sem þar væri kynnt, óskir og væntingar sem þar voru nefndar. Auðvitað geta menn tekið slíkar setningar út úr öllum slíkum yfirlýsingum. Ég fullyrði það og er tilbúinn til að fara í samanburð um þau efni. En þegar menn horfa á þann veruleika sem í þessari yfirlýsingu var, þá er um það að ræða að ríkisstjórnin var tilbúin til þess að verja meiri fjármunum af sinni hálfu til að skapa grundvöll fyrir kjarasamningum en menn hafa í annan tíma verið tilbúnir til að gera. Þetta er ekki hægt að hrekja og þetta er mjög mikilvægt.
    Ég tek undir með þeim sem hér hafa sagt að það sé mikilvægt, mjög mikilvægt, að samningar séu gerðir til langs tíma. Og ég tel að það sé mikill ábyrgðarhluti hjá aðilum vinnumarkaðar sem hafa fengið þann grundvöll sem yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sannarlega var ef þeim tekst ekki á þeim grundvelli að ná samningum til lengri tíma. Meðan aðilar hins vegar kjósa sjálfir, þeir hafa forræði máls, gáum að því, meðan þeir kjósa sjálfir að fjalla um samninga til skemmri tíma, þá eru þeir við það borð en ríkisstjórnin ekki. Kjósi þeir hins vegar að halda áfram viðræðum um samninga til lengri tíma, þá er ríkisstjórnin auðvitað við það borð áfram.