Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 16:32:55 (7133)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa skýrslu sem hér liggur fyrir til umræðu. Hún er ítarleg og hún er að mínu mati vel unnin að ýmsu leyti og ég get tekið undir margt sem þar er sagt þó að ég áskilji mér rétt til að gera athugasemdir við annað. Mér finnst það í sjálfu sér mjög gleðileg breyting að utanríkismálum er gefið miklu meira rúm í störfum Alþingis nú á síðustu árum en var hér fyrrum og utanríkismál hafa sannarlega fengið mikla athygli á þessu þingi og sjaldan eða aldrei verið rætt meira um utanríkismál eða mál tengd utanríkismálum en á þessu þingi. Ekki er reyndar allt jafngæfulegt sem ákvarðað hefur verið hér í þeim efnum en nóg um það.
    Ég mun, frú forseti, stikla á nokkrum stikkorðum í þessari skýrslu sem mig langar til að gera að umtalsefni. Á síðu 5 segir frá því og ég get út af fyrir sig tekið undir með skýrsluhöfundi: ,,Fátt rýrir orðstír ríkja meira en óvæntar byltur í utanríkismálum.``
    Þetta er a.m.k. rétt að misvissu marki, enda hafi utanríkisstefnan verið í sæmilegu lagi, góð og siðmannleg. Ég held hins vegar að bylting á utanríkisstefnu Austur-Evrópuríkjanna t.d. sem við höfum horft upp á á undanförnum árum auki fremur traust á þeim heldur en ef þau hefðu haldið áfram óbreyttri stefnu þannig að í þessu er e.t.v. nokkur mótsögn. Hins vegar hefur utanríkisstefna íslensku ríkisstjórnarinnar breyst að nokkru leyti. Aðildin að Vestur-Evrópusambandinu t.d. er algerlega óvænt bylta, aukaaðildin að Vestur-Evrópusambandinu. Það má jafnvel segja að það sé óvænt bylting í utanríkisstefnu Íslendinga að meiri hluti Alþingis skuli hafa samþykkt uppkast að samningi um Evrópskt efnahagssvæði, svo sem hann varð í endanlegri gerð og opnun fiskveiðilögsögu okkar sem endurgjald fyrir tollaívilnanir er líka stefnubreyting sem er byltingarkennd.
    Ég lít svo á að utanríkisþjónustan sé okkur ákaflega mikilvæg og ég er ekki viss um að allir Íslendingar hafi skilning á því hve geysimikilvæg vel rekin utanríkisþjónusta er og hvað utanríkisráðherraembættið í sjálfu sér er geysilega mikilvægt. Ég hygg hins vegar að hæstv. utanrrh. sé sjálfum vel ljóst hverja vigt embættið getur haft. Hann hefur sjálfur stært sig af því í útvarpsþætti að í gegnum starf sitt sem utanrrh. hafi honum tekist t.d. að koma að verulegu leyti í framkvæmd eða sé vel komin á veg með að koma í framkvæmd landbúnaðarstefnu Alþfl. í gegnum EES-samninginn og í gegnum GATT-samningana sem ég mun gera að umræðuefni síðar í þessu spjalli mínu.
    Þessi utanríkismálaskýrsla ber auðvitað mjög keim af hinni miklu Evróputilhneigingu ríkisstjórnarinnar og samskiptunum við Evrópu, sú áherslubreyting, sem orðið hefur á utanríkisstefnu Íslendinga í tíð þessarar ríkisstjórnar í þá átt að tengja okkur fastar við Evrópu og losa um tenglsin við Bandaríkin er veruleg breyting. Ég lít svo á og hef nýlega látið þá skoðun koma fram hér úr ræðustól að aukaaðildin að Vestur-Evrópusambandinu hafi verið mistök og það sé rangt hjá ríkisstjórninni að leggja svo mikla áherslu á að tengja sem fastast böndin við Evrópubandalagið. Ég tel að það sé ekki einungis rangt heldur sé það benlínis hættulegt og geti í mörgum tilfellum skaðað hagsmuni Íslendinga í bráð og lengd. Það hafa þrjú stór skref verið tekin til að tengja okkur Evrópubandalaginu. Í fyrsta lagi að við skulum ganga inn í það fordyri Evrópubandalagsins sem Evrópskt efnahagssvæði er orðið. Í öðru lagi að við skulum gerast aukaaðilar að hernaðararmi Evrópubandalagsins, þ.e. Vestur-Evrópusambandinu, og í þriðja lagi að við skulum hafa opnað fiskveiðilögsögu okkar fyrir flota Evrópubandalagsins.
    Í þessari skýrslu hef ég ekki rekist á landhelgismál og það hefur verið gert að umræðuefni í þessum umræðum af hv. 4. þm. Reykv., réttilega, því að sannarlega eru landhelgismálin málefni sem eiga heima í þessari umræðu og eiga heima í svona skýrslu. En það stendur bara svo illa á tungli að með hinum miklu tengslum okkar við Evrópubandalagið erum við að glata síðasta tækifærinu til frekari útfærslu landhelginnar. Hverjum dettur það í huga að eftir að við erum orðnir formlega aðilar að Evrópsku efnahagssvæði sem kannski gerist undir árslok eða innan árs, að við gætum fært út fiskveiðilögsögu okkar enn frekar?
    Ég tel að ríkisstjórnin hafi haldið að mörgu leyti illa á málum í utanríkismálum og af ótrúlegri skammsýni. Á bls. 8 í þessari skýrslu er fjallað um herinn og ég vil, með leyfi forseta, lesa nokkrar línur úr þeirri klausu:
    ,,Eftirlits- og varnarhlutverk varnarliðsins á Íslandi er óbreytt og ekki hafa orðið verulegar breytingar á liðsafla eða búnaði þess á sl. ári. Á hinn bóginn má búast við að vart verði við almennan niðurskurð útgjalda til varnarliðsins og á Bandaríkjaþingi eru nú til meðferðar tillögur um verulega skerðingu á varaliði bandaríska hersins. Verði þessar tillögur samþykktar er hugsanlegt að þær varaliðsherdeildir, sem eru ætlaðar til varna á Íslandi, verði lagðar niður á tímabilinu 1995--1996. Íslensk stjórnvöld fylgjast vel með þessum tillögum og er þegar farið að huga að öðrum bandarískum herdeildum sem geta e.t.v. komið í staðinn. Enn er nauðsynlegt að varaliðið, sem hefur það verkefni að verja hernaðarlega mikilvæga staði á landinu á hættu- eða ófriðartímum samkvæmt sérstakri varnaráætlun, haldi reglubundnar æfingar á Íslandi til að kynnast staðháttum, veðurfari og landslagi.
    Virk þátttaka Íslendinga í vörnum landsins hefur verið á dagskrá íslenskra stjórnvalda allt frá árinu 1985 og kemur það m.a. fram í fundasókn innan hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, þátttöku í gerð varnaráætlana fyrir Ísland, heræfingum hér á landi og rekstri Ratsjárstofnunar. Með hliðsjón af ofangreindum breytingum er tímabært að auka þátttöku íslenskra sérfræðinga og starfsmanna í verkefnum sem tengjast beinlínis framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951. Þannig er æskilegt að kanna í samráði við dómsmrn. hvort Landhelgisgæslan geti í samvinnu við varnarliðið tekið þátt í auknu eftirliti með hafsvæðum umhverfis Ísland. Þess má og geta að nú er í gildi samningur um samstarf Landhelgisgæslunnar og bandaríska sjóhersins um sjómælingar við Ísland, en slíkar mælingar koma m.a. að notum við tundurduflavarnir. Einnig þarf að stefna að nánara samstarfi Landhelgisgæslunnar og þyrlubjörgunarsveitar varnarliðsins.``
    Ég verð að játa það að mér finnst öðrum þræði hér verið að undirbúa hervæðingu á Íslandi og því er ég í grundvallaratriðum ósammála. Ég tel að við eigum að halda áfram að vera vopnlaus þjóð og við eigum ekki að taka að okkur, a.m.k. ekki í ríkum mæli, hernaðarstörf. Ég lít svo á þrátt fyrir fullyrðingar á bls. 10, þá sé Vestur-Evrópusambandið ögrun við Atlantshafsbandalagið. Nú er ég ekki eins og hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, orðinn neinn lautinant í hjálpræðisher NATO, en ég tel að aðild að NATO dugi okkur og varnarsamningurinn sé yfirleitt nægilegur til þess að friða þá sem hræddastir eru í þessum efnum.
    Á bls. 11 segir svo með leyfi forseta: ,,Vangaveltur um mögulega aðild Íslands að EB eru því fjarlægari nú en fyrir ári.`` Þessi setning finnst mér koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum miðað við annað innihald skýrslunnar því ég lít svo á að við séum nær Evrópubandalaginu nú, miklu nær og miklu nær aðild að Evrópubandalaginu en við vorum fyrir ári síðan og var þá tekið öðruvísi til orða í skýrslunni þar sem utanrrh. fjallaði um það mál af miklu gáleysi.
    Í þessari skýrslu getur á einum stað um hugsanlegan velmegunarmúr sem kæmi í stað járntjaldsins. Það kann að vera og það er vafalaust mjög mikilvægt að lífskjör jafnist og batni austan hins gamla járntjalds, en ég er hræddur við að reisa annan múr, þ.e. múr viðskiptahindrana, múr peningavalds á milli Bandaríkjanna og Evrópubandalagsins. Járntjaldið hafi með nokkrum hætti færst í vestur, vestur fyrir Evrópu og ríkisstjórn Íslands hefur skipað okkur Evrópumegin við þann múr.
    Hér er fjallað nokkuð um norrænt samstarf og öðruvísi mér áður brá. Ég er ekki samþykkur því sem segir hér á bls. 22: ,,Hinar föstu skorður sem einkenndu samskipti austurs og vesturs á tímum kalda stríðsins áttu sinn þátt í því að Norðurlönd gátu einbeitt sér að samstarfi sínu innbyrðis.`` Mér finnst þetta vera tóm vitleysa. Ég held að kalda stríðið hafi út af fyrir sig ekki verið neinn hvati til norræns samstarfs. Hitt er rétt að norrænt samstarf hefur breyst mjög mikið á þessu ári og vægi þess hefur að mínum dómi minnkað ákaflega sorglega. Norrænt samstarf er að verulegu leyti komið til Brussel og þar tel ég að það eigi ekki heima. En við Íslendingar fáum ekki verulega um það ráðið og hinar norrænu þjóðirnar verða auðvitað að fá að ráða sínum málum sjálfar, en ég harma þá breytingu sem þar hefur orðið jafnframt því sem það vekur furðu mína að allt í einu taka menn til, menn sem hafa á undanförnum árum gert við hvert tækifæri sem boðist hefur lítið úr norrænu samstarfi, að lofsyngja mikilvægi norræns samstarfs þegar það er komið til Brussel og er hætt að vera norrænt samstarf nema að tiltölulega litlu leyti.
    Í þessari skýrslu er réttilega nokkuð fjallað um umhverfismál og ég tel að það sé af hinu góða þó að ástæða væri til að gera það ítarlegar en gert er í skýrslunni því að umhverfismál eru að verða mál málanna og Íslendingum er lífsnauðsyn að taka þar virkan þátt og reyna að hafa áhrif á þróunina.
    Hér er getið um þátttöku í afvopnunartilraunum. Ég tel að Ísland eigi að taka þátt í afvopnunartilraunum sem mest en mér finnst gæta nokkurrar þversagnar í því þegar við viljum afvopna heiminn annars staðar en jafnframt leggja áherslu á svo sem gert er í þessari skýrslu að vopnabúnaður hér á landi minnki ekki. Þetta finnst mér vera mikil þversögn.
    Í skýrslunni er nokkuð fjallað um GATT og þróunin rakin. Eins sakna ég þó í þeirri umfjöllun sem kemur okkur Íslendingum verulega við. Það er hvergi minnst á það hér í skýrslunni að ríkisstjórn Íslands hafi gert neinn fyrirvara út af GATT-málinu. Ég hef að vísu orðið var við það eftir því sem ég hef kynnst GATT-samningunum í sambandi við þingmannanefnd EFTA, að þar hefur ríkisstjórn Íslands ekki haldið á lofti þeim fyrirvara og þeim skilyrðum sem ríkisstjórnin setti þann 10. jan. 1992 og friðaði okkur þingmenn á Alþingi og ég tel að á því máli hafi verið illa haldið.
    Ég vil leyfa mér til þess að öllu sé til skila haldið að lesa þessa samþykkt ríkisstjórnarinnar eins og hún er prentuð í Alþingistíðindum 10. jan. 1992. Þá fóru fram að tilhlutan þess sem hér stendur umræður utan dagskrár um samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT og ég vitna til ræðu hæstv. forsrh. þar um en hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við frekari vinnslu þessa máls á Norðurlandavettvangi og innan viðskiptasamninganefndar GATT í Genf verður lögð áhersla á eftirfarandi atriði:
    1. Unnið verður að því að fá fram þriðjungs lækkun allra tolla á sjávarafurðum til samræmis við aðra vöruflokka. Enn fremur leggur Ísland áherslu á að sambærilegar tillögur og fyrir liggja um lækkun ríkisstyrkja til landbúnaðar nái einnig til sjávarútvegs.
    2. Ísland mun gera mjög strangar kröfur á sviði heilbrigðiseftirlits vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum. Hér kemur sérstaklega til næmi íslenskra búfjárstofna fyrir smitsjúkdómum vegna langrar einangrunar og er í þeim efnum vitnað til biturrar og dýrkeyptrar reynslu þegar á hefur verið slakað. Ísland

ætlast til viðurkenningar á þessum sérstökum aðstæðum.
    3. Nauðsynlegt er að leyfilegt sé að framreikna stuðningsaðgerðir miðað við verðbólgu og verðtryggja skuldbindingar, einkanlega í tollaígildum og innanlandsstuðningi. Það er út í hött að sveiflur í verðlagi eða gengi eða skattkerfisbreytingar leiði til þess að sumar þjóðir taki á sig meiri skuldbindingar en aðrar.
    4. Íslendingum þykir miður að tillögur Dunkels varðandi niðurskurð útflutningsuppbóta skuli ná svo skammt sem raun ber vitni. Útflutningsbæturnar eru þó sá þátturinn sem hefur verst áhrif á heimsviðskipti. Í tilboði sínu bauðst Ísland til þess að draga úr útflutningsbótum um 65%. Íslensk stjórnvöld hafa í millitíðinni ákveðið að stefna að algeru afnámi útflutningsbóta frá haustinu 1992. Ísland mun telja það afturför ef hverfa þarf frá þeirri stefnu vegna þrýstings sem skapast af öðrum ákvæðum í samningsdrögunum. Sú aðgerð að hverfa frá útflutningsbótum er sársaukafull og hefur m.a. í för með sér verulegan samdrátt í landbúnaðarframleiðslu. Ísland kýs hins vegar að halda sig við þessa stefnu en telur að taka eigi tillit til slíkra aðgerða í samkomulaginu og telja það viðkomandi landi til góða. Af þessum sökum telur Ísland að inn í samningsdrögin ætti að koma ákvæði sem hvetji til meiri samdráttar í útflutningsbótum og veita viðurkenningu fyrir slíka aðgerð. Að dómi Íslands er álitlegast að gera það með eftirfarandi hætti:
    a. Ríki sem skuldbindur sig til að afnema allar útflutningsbætur hafi rétt til þess frá þeim tíma sem slík aðgerð kæmi til framkvæmda að grípa til magntakmarkana á innflutningi á vörum sem útflutningsbætur eru afnumdar á.
    b. Þá fjárhæð sem útflutningsbætur eru skornar niður um umfram hina almennu umsömdu prósentu, 36%, skal heimilt að reikna til góða sem sérstakt álag við tollaígildun fyrir þær vörur sem í hlut eiga og/eða sem sérstakar niðurskurðarfríar innanlandsgreiðslur sem bætast við ,,græna boxið``.
    5. Studdar verða kröfur um meiri sveigjanleika við skilgreiningu svonefndra grænna greiðslna beint til bænda og áskilið að þær verði ekki bundnar einstaklingum heldur geti þær flust milli bænda og bújarða.
    Ekki er enn komið að því Ísland taki bindandi afstöðu til hins nýja fyrirkomulags heimsviðskipta sem nú er í smíðum. Verði hins vegar hægt að samræma þau sjónarmið sem taka þarf tillit til innan ramma heildarsamkomulags er óhugsandi að Ísland velji þann kost að standa utan þess. Íslendingar munu sem aðrar þjóðir áskilja sér rétt til að taka afstöðu til samkomulagsins þegar það liggur fyrir í heild í ljósi jafnvægis samningsins og gagnkvæmra hagsmuna aðildarríkja.``
    Síðan segir hæstv. forsrh.: ,,Þetta er sú samþykkt sem ríkisstjórnin gerði í dag. Það er verið að fjölfalda hana og ég vona að hún komi til þingmanna sem allra fyrst.``
    Frú forseti. Ég taldi mér skylt að rifja þetta upp vegna þess að þetta hefur fallið niður úr skýrslunni. Þetta er utanríkispólitísk yfirlýsing sem gefin var á árinu 1992 og ég tel að eigi heima í þessari skýrslu. Og jafnframt ætti það að fylgja hvernig hefur verið unnið eftir þessari yfirlýsingu. Ég óttast að það hafi lítið sem ekkert verið gert. Hins vegar eru engin tvímæli á því að þetta var kynnt fyrir okkur á Alþingi sem fyrirvari ríkisstjórnarinnar og ég gríp aftur niður síðar í umræðunum þar sem hæstv. forsrh. er að svara fyrirspurn frá mér, þ.e. um eðli þessarar samþykktar. Ég spurði:
    ,,Ber að skoða þessa samþykkt sem formlegan fyrirvara sem lagður verður fram sem svar ríkisstjórnar Íslands við hugmyndum eða tillögu Dunkels eða ber að skilja þetta sem yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem ætluð sé til heimabrúks eða verður henni einungis komið á framfæri sem innlegg í ræðu hæstv. utanrrh. eða formælanda Íslands í þessum umræðum?``
    Hæstv. forsrh. svaraði svo: ,,Virðulegi forseti. Þessi samþykkt ríkisstjórnarinnar eða svar, athugasemd, sem formlega verður lögð fram á mánudaginn kemur vegna þeirrar tillögu sem herra Dunkel hefur lagt fram sem andsvar og fyrirvarar af Íslands hálfu en jafnframt verður þetta plagg notað`` og þá er gripið fram í: ,,Sem fyrirvari?`` og forsrh. svarar: ,,já, fyrirvari af Íslands hálfu vegna þess tilboðs sem herra Dunkel lagði fram og þjóðirnar hafa nú til meðferðar. En jafnframt verður þetta plagg notað í dag af hálfu Íslendinga í viðræðum norrænu þjóðanna í Ósló sem eru að móta sína sameiginlegu afstöðu eða ná fram sem víðtækastri samstöðu varðandi það hvernig þær vilji sameiginlega svara þessu tilboði. En óháð því hvaða niðurstaða verður þar, þá stendur þetta plagg sem svar íslensku ríkisstjórnarnnar.`` Og aftur er gripið fram í: ,,Sem fyrirvari?`` Forsrh. segir: ,,Ég held að ég sé búinn að svara þessu alloft, ágæti þingmaður. Ég vona að aðrir heyri betur hér í salnum heldur en þessi virðulegi ágæti þingmaður.``
    Því miður sé ég ekki betur en þetta hafi verið plagg sem einungis hefur verið til innanlandsbrúks. Mér er ekki kunnugt um að eðlilega hafi verið haldið á þessu máli af utanrrh. eða utanríkisþjónustunni og a.m.k. eru þessir fyrirvarar Íslands ekki ofarlega í huga þeirra manna sem greina okkur íslenskum þingmönnum frá gangi GATT-viðræðna.
    Þá langar mig til að fara nokkrum orðum, frú forseti, um þátttöku Íslands í Sameinuðu þjóðunum. Ég lít svo á að Sameinuðu þjóðirnar séu með nokkrum hætti von heimsins, en mér sýnist að Sameinuðu þjóðirnar séu hornreka núv. ríkisstjórnar. Núv. ríkisstjórn hefur ekki séð sóma sinn í því einu sinni að setja íslenskan sendiherra til Sameinuðu þjóðanna heldur ríkir þar bráðabirgðaástand. Kannski fæst einhver krati eða þarf að geyma þetta pláss handa einhverjum krata. En ég tel að það sé óviðunandi að láta við svo búið standa að setja ekki þarna fullmektugan sendiherra til Sameinuðu þjóðanna sem fylgi þar eftir af fullum myndugleik og í fullu umboði málefnum Íslands.

    Ég hef líka ákveðnar athugasemdir fram að færa varðandi afstöðu Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til ýmissa mála. Ég nefni einungis eitt dæmi. Það er um ríkjahóp þann sem Ísland hefur verið aðili að um Vestur-Evrópuríki og önnur sem eru þau ríki sem við viljum helst eiga félagsskap við á alþjóðavettvangi. Ísrael hefur sótt ákaflega á að komast í þann hóp og mætt andstöðu sumra þessara ríkja þannig að það hefur ekki enn þá verið tekið inn í þennan hóp. Sú hefur verið afstaða Íslands þangað til í vetur að standa gegn innkomu Ísraels í hópinn, en í vetur fékk sendifulltrúinn fyrirmæli um það að breyta um afstöðu og styðja inntökubeiðni Ísraels. Nú er það út af fyrir sig gott að vera gestrisinn og þægilegur við Ísraelsmenn og það hafa Íslendingar reyndar oft verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar, en ýmis verk Ísraels nú í seinni tíð eru þess eðlis að þeir eru ekki sérstaklega geðfelldir félagar á alþjóðavettvangi og það er því verra að þessi ríki í ríkjahópnum skiptast á um að vera formælendur hópsins og það hefur það í för með sér að ef Ísrael væri tekið í hópinn að við yrðum að lúta því að Ísrael talaði fyrir hönd Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna tímunum saman og kannski í viðkvæmum málum. Þetta finnst mér vera óskynsamlegt og ekki eðlileg íslensk utanríkispólitík. Ég nefni einungis þetta eina dæmi þó fleiri mætti til tína.
    Ég lít svo á að verkefni Sameinuðu þjóðanna séu þess eðlis að það sé full ástæða til þess að Ísland taki þar þátt af fullum heilindum, fullri atorku og þá á ég sérstaklega við umhverfismál sem nú eru að verða eitt meginviðfangsefni Sameinuðu þjóðanna. Í kjölfar ráðstefnunnar í Ríó hefur komist hreyfing á þessi mál og þau eru orðin mjög mikilvæg í starfi og umfjöllun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Umhverfismálaumræðan þar er ekki að öllu leyti eins og ég tel að þjónaði best hagsmunum Íslendinga vegna þess að umhverfismálaumræðan þar fer fyrst og fremst fram um land og reyndar loft. Hafið er að miklu leyti undanskilið og ég tel að Íslendingar eigi að nota hvert tækifæri til þess að reyna að beita sér fyrir því að athyglin beinist að hafinu, skynsamlegri nýtingu hafsins og siðmannlegri umgengni um hafið. Í skýrslu hæstv. utanrrh. varð ég ekki var við það við skjótan yfirlestur að mál væri gert að þeirri hættu sem okkur stafar af losun kjarnorkuúrgangs í hafið eða þeirri ógn sem okkur stafar af hugsanlegum kjarnorkuslysum í hafinu í kringum Ísland. Það tel ég vöntun og ég tel að íslenska utanrrn. megi ekki láta neitt tækifæri ónotað og íslenska ríkisstjórnin til þess að vekja athygli á þessari hættu og á því að þetta er ástand sem verður að breyta.
    Ég lít svo á að utanríkispólitík núv. ríkisstjórnar sé ekki ásættanleg vegna þess að hún gengur fyrst og fremst út á það að tengja okkur Evrópubandalaginu.
    Hér hefur verið talað um þróunaraðstoðina og ég ætla að leiða hest minn frá því. Sumt hefur kannski tekist sæmilega hjá okkur en sumt er okkur til minnkunar. Við höfum lofað fjármagni til þróunaraðstoðar, við höfum innágengist að verja til þess fjármunum og við höfum ekki staðið við það og það er náttúrlega ekki gott. Hins vegar höfum við efni á því að verja peningum í mislukkaðar aðgerðir í þróunaraðstoðarmálum eins og t.d. þegar hæstv. utanrrh. brá undir sig betri fætinum og heimsótti Hastings Banda í Malaví sem mér finnst ekki vera geðfelldur gestgjafi eins og stendur. Hæstv. utanrrh. var hrifinn af þessari persónu og fór um hann lofsamlegum orðum í íslenskum fjölmiðlum, mig minnir að honum hafi fundist hann vera ákaflega hygginn maður. Það getur vel verið að hann sé hygginn á sinn hátt ( Utanrrh.: Hann er Jónas frá Hriflu þeirra í Afríku.) en ég held að hans stjórnarhættir séu ekki með þeim hætti að hann sé heppilegur gestgjafi fyrir hæstv. utanrrh. Þaðan af verr líkar mér þegar verið er að ráðast á látinn íslenskan stjórnmálaskörung, Jónas Jónsson frá Hriflu, og líkja Hastings Banda við hann. Það tel ég vera bæði ósmekklegt og strákslegt orðbragð sem hæstv. utanrrh. sé til skammar.
    Á fyrri árum hefur mér stundum þótt ríkisstjórnir Íslands óþarflega fylgispakar Bandaríkjamönnum. Gildir þar einu þó ég hafi stutt flestar þær ríkisstjórnir en nú er þó svo komið að ég óttast þá kollsteypu sem mér finnst íslensk utanríkispólitík vera að taka, þ.e. að fjarlægjast Bandaríkin með þeim hætti sem hér er gert og er þó þar flest á uppleið og von um bætta og breytta stjórnarhætti undir nýjum forseta og traustara efnahagslífi en þar hefur verið um sinn í Reagan/Bush kreppunni. Ég óttast þá kollsteypu að snúa okkur alfarið til Evrópubandalagsins sem núv. ríkisstjórn gerir.
    Ég tel að okkur sé mikilvægt að halda uppi myndugri og sjálfstæðri íslenskri utanríkisstefnu, gæta viðskiptahagsmuna okkar hvarvetna, bæði í austri og vestri, norðri og suðri, og láta sjálfstæða og mynduga rödd Íslands heyrast á alþjóðavettvangi og kannski er besta tækifærið í starfi Sameinuðu þjóðanna.