Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 17:09:28 (7134)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Fyrir tveimur árum mátti heyra margan halda því fram að við lifðum á ánægjulegum breytingartímum, við slaka á spennu milli austurs og vesturs, vaxandi einingu, ekki í einungis hefðbundinni Vestur-Evrópu heldur teygðist samstarfið stöðugt í austurátt og samvinna tækist væntanlega loksins um fækkun kjarnavopna. Í dag má vissulega segja að við lifum á athyglisverðum tímum breytinga en svo sannarlega er nú erfiðara að hamra á því jákvæða. Þrátt fyrir gott samstarf núverandi stjórnarherra í

Moskvu og Washington verður ekki með góðu móti séð hvað framtíðin felur í skauti sér við ótryggt ástand í Rússlandi. Eins og komið hefur fram í dag hefur Balkanskagi logað í hræðilegu stríði undanfarin tæp tvö ár og spennan þaðan teygir sig í suður, norður, austur og vestur. Sú samvinna sem Vestur-Evrópa var markvisst sögð byggja upp innan vébanda sinna hefur gengið hægar og tregar en vonast var eftir og eftir að járntjaldið hvarf er silfurmúrinn að hlaðast upp milli Vestur- og Austur-Evrópu.
    Loks er önnur kjarnorkuvá fyrir dyrum. Vá sem ekki byggir að mestu leyti á vopnakapphlaupi heldur á afleiðingum lélegrar uppbyggingar kjarnorkuvera, aðallega í fyrrverandi austantjaldslöndum þar sem tíðir lekar hafa orðið undanfarið og vá sem felst í kjarnorkuúrgangi jafnt á láði sem legi.
    Þetta er sú sýn sem blasir við okkur héðan af Íslandi þegar horft er til meginlandanna úr miðju Atlantshafi. Þrátt fyrir landfræðilega legu okkar má ekki á neinn hátt segja að það ástand sem ríkir í kringum okkur snerti okkur lítið. Bæði í efnahagslegu og öryggislegu tilliti erum við samofin því sem gerist í kringum okkur. Það er því mikilvægt að við gerum það sem í okkar valdi stendur til að hafa áhrif á gang mála og reyna þannig að tryggja afkomu okkar, öryggi og framtíðarmöguleika. Í því sambandi er rétt að gera sér grein fyrir því hvort, hvert og hversu hratt eigi að stefna í samrunaþróun Evrópuríkja, ekki aðeins milli ríkjanna 12 og EFTA heldur allrar Evrópu.
    Í umræðum á alþjóðavettvangi hefur talsvert verið rætt um hver mörk Evrópu muni verða í framtíðinni, hvort mörkin muni skorðast við Úralfjöll og Atlantshaf, hvort þau þrengist eða víkki út. Ljóst er að ríkin í austri hafa af efnahagslegum ástæðum áhuga á nánari tengslum við vesturhluta meginlandsins og muni væntanlega í framtíðinni er umrótinu linnir leita eftir slíku.
    Með tilliti til þess hversu erfiðlega hefur gengið að ná einingu um samruna þeirra landa sem nú reyna slíkt má sjá hvílík hyldýpisgjá í menningarlegu og efnahagslegu tilliti hlýtur að vera milli Vestur-Evrópulanda og þeirra ríkja sem liggja austast í þeirri Evrópu sem við skilgreinum í dag, hvað þá heldur þeirra ríkja sem liggja enn austar. Því er brýn nauðsyn að fara sér hægt í samrunaferlinu og meta gaumgæfilega hvert skref. Tel ég einsýnt að í þeirri þróun muni menningararfur einstakra þjóða og þjóðarbrota leika stórt hlutverk í endanlegri samsetningu Evrópu þannig að bandalög myndist milli þeirra ríkja sem standa næst hvert öðru í menningarlegu tilliti. Skilgreining Evrópu gæti því hugsanlega endað sem skilgreining á sameiginlegum menningararfi sem geti fallið saman í eina heild, Evrópu. Það þykir einsýnt að gildistaka EES-samningsins muni dragast, jafnvel allt fram á næsta ár og lengra er vart unnt að spá. Jafnframt er víst að ef úr samningnum verður muni hann vara lengur gagnvart flestum EFTA-ríkjum en spáð var fyrr í vetur. Mun samningurinn þá væntanlega hafa borgað sig og línur breyst og e.t.v. skýrst innan Evrópu eins og ég benti á í framsöguræðu minni við 1. umr. um EES-samninginn á sl. hausti.
    Enn fremur hafa úrslitin í atkvæðagreiðslu í Danmörku um Maastricht-samninginn haft meiri áhrif en ætla hefði mátt í fyrstu. Nú velta margir vöngum yfir því hvort Maastricht verði nokkurn tímann að veruleika í nánast upphaflegri mynd. Efnahagsbandalagið mun þannig verða laustengdara en ráð var fyrir gert. Auðvitað munu slíkar niðurstöður valda ýmsum ráðamanninum innan EB vonbrigðum. Á hinn bóginn má velta fyrir sér hvort æskilegt sé með tilliti til þess ástands, sem nú ríkir og ríkja mun í nánustu framtíð í Austur-Evrópu, að svo þéttur efnahags- og samrunakjarni sem EB gæti orðið og jafnvel EES þó í minna mæli sé að það hafi jákvæð áhrif á gang mála í Austur-Evrópu, þ.e. hvort slíkt muni flýta fyrir uppbyggingu þar og hvort slíkur kjarni muni geta haldið niðri spennu sem óhjákvæmilega myndast milli svo nálægra ríkja með svo mismunandi efnahag.
    Ég minntist áðan á silfurmúrinn. Þetta orðatiltæki er að verða æ algengara þegar rætt er um mismuninn á lífsafkomu Austur- og Vestur-Evrópubúa. Þess hefur gætt í umræðum að þessi silfurmúr geti orðið hátt í jafnskeinuhættur og járntjaldið var áður ef Vestur-Evrópuríki gæta þess ekki að styðja fjárhagslega við þá þróun sem þar verður að eiga sér stað. Þegar gætir innan Austur-Evrópu spennu, vonbrigða og reiði í garð efnaðra ríkja. Því er afar brýnt að þessi nýfrjálsu ríki fái markvissa aðstoð til að flýta fyrir uppbyggingu í hvaða formi sem þessi aðstoð verður veitt. Slíkt verður á endanum beggja hagur, veitenda og þiggjenda.
    Það er ekki eingöngu á sviði efnahagslegrar uppbyggingar sem nauðsynlegt er að eiga samvinnu við Austur-Evrópuríkin. Eins og ég gat um hér áðan þá steðjar að mikil kjarnorkuógn úr austri og sú ógn stafar að þessu sinni ekki aðallega af kjarnorkuvopnum heldur af kjarnorkuverum og kjarnorkuúrgangi. A.m.k. 20 kjarnorkuver í Austur-Evrópu eru nánast að hruni komin. Þegar hafa orðið nokkur slys og nú síðast í Tomsk í Síberíu og nú er ekki lengur spurning hvort um annað slys verði að ræða heldur hvenær. Enn er kjarnorkuúrgangur ekki urðaður nægilega tryggilega í jörðu og síðast en ekki síst eru höfin farin að fá sinn skammt af geislun vegna úrgangs.
    Einn er sá þáttur sem hefur ekki nægilega verið ræddur opinberlega en það eru afleiðingar geislunar á menn og annað umhverfi. Til að gefa litla hugmynd um afleiðingar Tsjernóbíl-slyssins, þess slyss sem hingað til hefur verið talið stærsta kjarnorkuslys sögunnar, þá er vitað með vissu að á þriðja þúsund manns hafa þegar látist vegna geislunar. Talið er að alls 11 milljónir manna hafi orðið fyrir beinum áhrifum geislunar í meira eða minna mæli og af þeim hópi hefur aðeins lítill hluti hlotið reglulegt eftirlit. Vestur-Evrópulönd hafa heitið fjármunum til að hefja verkefni sem miðast að því að leita uppi, fylgjast með og lækna eða fremur lina þjáningar þeirra sem fyrir geislun urðu. Þetta verkefni á einnig að vera fyrirmynd fyrir þau viðbrögð sem beita á við sams konar slys. Meira en tvö ár hafa liðið frá því að ýta átti

verkefninu úr vör en sökum erfiðs efnahagsástands í Vestur-Evrópu hefur það ekki hafist enn.
    Ég vil benda á að áætlaður lækniskostnaður vegna þessa slyss mun nema um 55 milljörðum Bandaríkjadollara en aðeins brot af þeirri upphæð hefur þegar verið reitt fram. Það er mjög miður að ekki skuli hafa tekist betur með að hefja framkvæmd þessa verkefnis.
    Afleiðingar kjarnorkuslysa eru ekki einangruð fyrirbæri, þær snerta alla heimsbyggðina og þar er Ísland engan veginn undanskilið. Það er því brýnt að vera á verði og taka virkan þátt í að koma á auknu öryggi í kjarnorkumálum. Þessi mál verða okkur æ tengdari með hugsanlegri vaxandi geislun sjávar norðan Íslands og við verðum að beina kröftum okkar í að gera það sem í okkar valdi stendur til að bægja slíkri ógnun frá gjöfulum fiskimiðum okkar. Kjarnorkuvá er ekki óraunhæfur eða fjarlægur möguleiki, heldur gæti slík ógn dunið yfir fyrr en varir í okkar nánasta umhverfi. Því er skylda okkar Íslendinga að beita okkur af öllu afli til að tryggja kjarnoruöryggi hvar sem er í heiminum.
    Ég hef beint augunum aðallega í austurátt, til Evrópu og því sem þar hefur gerst að undanförnu enda eðlilegt þar sem svo miklar umbreytingar eða umbylting er þar að verða. Við höfum hins vegar átt gott og náið samstarf við nágranna okkar í vestri, Bandaríki Norður-Ameríku og Kanada. Til skamms tíma áttum við mun meiri viðskiptahagsmuna að gæta þar en í dag og e.t.v. skapast slíkt tækifæri aftur fyrr en varir. Við höfum einnig haft varnarsamning við Bandaríkin og tryggt þannig öryggishagsmuni okkar. Mikilvægt er að við rjúfum hvergi þau góðu tengsl sem við höfum við þessa granna okkar.
    Eins og stendur er mikil spenna á viðskiptasviðinu milli vina okkar í austri, EB og Bandaríkjanna, vegna GATT-samningsins. Vonandi tekst okkur að finna lausn á þeim samningsörðuleikum sem allra fyrst. Hætta er á að ef slíkt næst ekki sem fyrst muni skapast aukin spenna almennt milli þessara ríkja og afleiðingarnar af því ástandi eru ófyrirsjáanlegar. Nauðsynlegt er fyrir okkur að gæta þess að halda því góða sambandi sem við höfum átt við granna okkar beggja vegna Atlantshafsins og leggja okkar af mörkum þar sem kostur er. Við eigum að styðja vel við samstarfsþætti beggja aðila, þ.e. NATO og RÖSE, og við eigum jafnframt að fylgjast vel með þeirri þróun sem fram fer á hvoru meginlandinu fyrir sig, hvort heldur er á öryggis- eða viðskiptasviðinu og hvort heldur er Vestur-Evrópusambandinu eða NAFTA. Með virki þátttöku í alþjóðasamstarfi og árvökulum augum okkar mun okkur væntanlega takast að fyrirbyggja einangrun eða að við heltumst úr lestinni en fylgjast heldur með þróuninni og jafnvel hafa hlutfallslega meiri áhrif á þróunina en ætla mætti miðað við stærð þjóðar og legu landsins.