Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 18:06:57 (7137)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara hv. þm. Birni Bjarnasyni, ég er ekki í neinni yfirheyrslu hjá honum. Það er ekki þannig og þetta var ekki andsvar við neinu í minni ræðu, heldur einhverjar túlkanir út í loftið á mínu máli sem eru mér óviðkomandi. Hv. þm. Björn Bjarnason getur leikið sér með það eins og hann vill. Ég held að hann hafi algjörlega snúið öfugt því í því litla sem hann vitnaði í mitt mál, ég tók það einmitt fram að Íslendingar gætu sjálfir annast í fyllingu tímans að svo miklu leyti sem ástæða þætti til einhverja þætti sem eru á skyldum sviðum þeim sem herstöðin í Keflavík eða ratsjárstöðvakerfi eða aðrir slíkir þættir hafa gegnt hér enda verði það þá í slíka þágu sem hér er um að ræða, þ.e. hluti af einhverju skipulögðu alþjóðlegu öryggiskerfi en ekki á þeim forsendum sem það er í dag, hluta af hernaðaruppbyggingu og vígbúnaði eins herveldis eða hernaðarbandalags.
    Ég held að engin ástæða sé fyrir hv. þm. Björn Bjarnason að hafa áhyggjur af því að einhver ágreiningur sé um þessi mál í Alþb. Það liggur alveg skýrt fyrir hvaða afstöðu Alþb. hefur í þessum grundvallarmálum og hefur lengi haft. Það er á móti erlendum her í landinu og það er á móti hernaðarbandalögum. Það stendur skýrt skrifað í stefnuskrá þess. Hins vegar þakka ég hv. þm. Birni Bjarnasyni umhyggjuna fyrir velferð okkar, honum hefur lengi þótt vænt um Alþb. eins og kunnugt er og auðvitað er gott að eiga slíka vini að.