Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 18:08:29 (7138)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég var ekki að efna til yfirheyrslu yfir hv. þm., þvert á móti var ég að vekja athygli á þeirri staðreynd að hans málflutningur stangast alfarið á við það sem fram hefur komið í málflutningi formanns Alþb. í þessum umræðum og umræðum sem fóru fram 6. apríl. Enginn þarf að fara í grafgötur um það ef hann settist niður með hv. þm. og ræddi við hann um utanríkis- og öryggismál hvaða niðurstöður hann vildi fá í slíkum umræðum. En hv. 8. þm. Reykn. sagði einmitt í umræðunum 6. apríl, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég tel ekki að það sé hægt fyrir nokkurn ábyrgan stjórnmálamann að gefa sér það fyrir fram áður en slík umræða fer fram, umræða sem er byggð á þessum nýju aðstæðum, að gefa sér það fyrir fram um hvað ágreiningur yrði.``
    Ef ég ætti að setjast niður með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni væri ég í engum vafa um hvað við mundum deila. Hins vegar eru þetta orð formanns Alþb. og ég vil aðeins ítreka þá skoðun mína að hér hefur komið fram djúpstæður ágreiningur á milli formanns og varaformanns Alþb. um afstöðuna til utanríkis- og öryggismála.