Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 18:12:00 (7140)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Utanríkismál eru áreiðanlega ekki aðeins eitt eða aðeins tvennt eins og stundum hefur virst á umræðum um málið. Umræðan í dag hefur mjög berlega leitt margbreytileikann í ljós og ekki síður skýrsla hæstv. utanrrh. Að því leyti til tel ég að umræðan í dag hafi verið jákvæðari en hún hefur oft verið vegna þess einfaldlega að það hefur verið víðari sjóndeildarhringur. Eitt af því sem hefur komið fram hér er það að utanríkismál eru allt í senn, spurning um viðskipti og vináttu, stríð og frið, umhverfið, bestu-vina-bandalög, varnarstefnu, mannréttindi og mannúð og raunar ýmislegt fleira. Herinn, NATO og varnarmálin hafa óneitanlega sett svip sinn á utanríkismálaumræðuna allt frá stofnun lýðveldisins. Þessi mál hafa fengið töluverða umfjöllun hér í dag og það vakti raunar athygli mína að fyrsta áherslan sem hæstv. utanrrh. sá ástæðu til að leggja í máli sínu var afstaða eins manns til þessara mála, þ.e. hv. 8. þm. Reykn. Út af fyrir sig eru skoðanir hans góðra gjalda verðar og ég veit að í eina tíð var kært með þessum tveimur mönnum í tíð lifrabandalaga en mér þykir þetta samt sem áður býsna sérkennileg áhersla. Því miður er hæstv. ráðherra fjarri í umræðunni og þykir mér það óheppilegt en hafi hann einhverjum svo brýnum störfum að gegna að hann geti ekki verið við þann dag sem skýrslan er til umræðu þá verður það að vera hans mál en ekki mitt.
    Umræðan um varnarmál Íslands og aðild okkar að hernaðarbandalaginu NATO er út af fyrir sig alltaf gild en ég verð að segja að þrátt fyrir að allir virðist á einu máli um að gjörbreyttar aðstæður séu í heiminum þá fannst mér ótrúlega fátt nýtt koma fram í umræðunni í dag. Við höfum heyrt flest af þessu á tíma kaldra, heitra eða engra stríða ef maður telur að hið síðasta hafi einhvern tímann átt sér stað og við höfum heyrt það áður að enn um sinn sé þörf fyrir hernaðarbandalög á borð við NATO. Við höfum áður heyrt að þess bíði nýtt hlutverk en kannski er auðveldara að færa rök fyrir því máli nú en oft áður. Það þýðir ekki þar með að það sé rétt. Umræðan er hins vegar opnari.
    Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum að þessu þar sem ég vænti þess að frekar sé efni til þess að taka þetta mál sérstaklega fyrir þegar umræðan verður um skýrsluna um öryggis- og varnarmál eins og boðað hefur verið.
    Ég get þó ekki alveg horfið frá hinni almennu umræðu sem hefur verið í dag án þess að nefna utanríkisviðskipti. Þau eru stærri þáttur af efnahagslífi okkar Íslendinga en flestra annarra þjóða. Umræða um þau er sífellt fyrirferðarmeiri er utanríkismál eru rædd. Tilfærsla utanríkisviðskipta yfir í utanrrn. hefur án efa orðið til þess að tengja þessa umræðu enn frekar annarri utanríkismálaumræðu og það held ég að hljóti að vera af hinu góða. Hitt er svo annað hvernig sú umræða hefur gengið fyrir sig. Það hlýtur að mörgu leyti að gera þessa umræðu ómarkvissa nú hversu mikið er verið að ræða um smærri atriði en ekki hinar heilu línur og ég sakna þess dálítið að heyra of mikið af smáatriðum rædd og of lítið af beinni stefnumörkun. Þess vegna vísa ég í þá ræðu sem ég held ég geti sagt að sé undantekning í dag öðru fremur en það er starfssystir mín úr Kvennalistanum, hv. 10. þm. Reykv., sem náði að setja þetta mál í víðara samhengi en ýmsir aðrir í dag.
    Vissulega er klárt að vegna þess hve óljóst er um afdrif hins Evrópska efnahagssvæðis og vegna þess í hvaða lamasessi öll skipan utanríkisviðskipta okkar er þar sem verið er að bíða úrslita í því máli er eðlilegt að þetta beri á góma. En ég verð að óska þess að EES-draumarnir, hvernig svo sem þeir munu rætast eða ef þeir munu á einhvern hátt rætast, verði ekki eins lamandi fyrir íslensk utanríkisviðskipti og stóriðjudraumar hafa verið fyrir atvinnuþróun hér á landi í allt of mörg ár. Við höfum nefnilega því miður fordæmi fyrir því að það að einblína of mikið á eitt mál hefur staðið annarri og merkilegri umræðu og öðrum málum fyrir þrifum. En ég ætla að geyma mér það a.m.k. að sinni að fjalla nánar um framtíð utanríkisviðskipta Íslendinga.
    Í EES-umræðunni fyrr í vetur var tekist á um grundvallaratriði í því máli, þ.e. hvort við stefndum inn fyrir Evróputollmúrana eða ekki. Í því máli var að sinni a.m.k. knúin fram pólitísk niðurstaða á Alþingi. Þjóðin var ekki spurð álits og það er hneisa og ég vil benda á að ekki er of seint að bæta fyrir það. Við megum hafa það hér í huga.
    Það er ósk mín að við munum fyrr frekar en síðar komast úr þeim þrönga farvegi sem Evrópusamstarfið virðist stefna í og geta fjallað af meira frelsi og víðsýni um utanríkisviðskipti og utanríkispólitík gagnvart EB-löndunum eins og öðrum löndum en unnt er í skugga þessa bákns sem upp er að rísa.
    Í rauninni verður að fara að líta víðar og ég sé ekki að hægt sé á meðan við eyðum þeirri orku sem við gerum nú í það að líta einungis til þeirrar Evrópu sem innan þessara tollmúra er.
    Áður hefur verið sagt í dag og ég tek undir það að það er afskaplega hvimleitt að heyra þau sjónarmið enduróma æ ofan í æ að Evrópa byrji og endi við tollmúra innri markaðarins. Þetta er þeim mun furðulegri sjálfhverfa í ljósi þeirra atburða sem eiga sér nú stað við þröskuld Evrópubandalagsins, bakdyrnar segja sumir, ég vil ekki skilgreina þar hvað er þar fram og aftur, hverjir fá að fara sparidyramegin inn.
    Í rústum fyrrverandi Júgóslavíu eiga sér nú stað atburðir sem ég hygg að muni hafa meiri áhrif á framtíð Evrópu og raunar alls heimsins en allar tilskipanir sem borist hafa og berast munu frá Brussel. Ég held að nauðsynlegt sé að útskýra þetta nánar, þetta er ekkert endilega augljóst. Þarna er að gerast dæmi eða svipmynd af því sem sagan sýnir okkur að getur gerst þá minnst er varir og næstum því hvar sem er ef viss skilyrði skapast. Ég held að ástæða sé til að gefa sérstaklega gaum að skilyrðunum vegna þess að við erum ekki laus við þessi einkenni nokkurs staðar og við erum hvergi örugg í rauninni nema við gerum okkur grein fyrir því við nákvæmlega hvaða skilyrði svona lagað getur gerst. Þetta eru ekki einu skilyrðin en þetta er samt sem áður mikilvæg vísbending. Þau skilyrði sem þarna eru fyrir hendi eru að þarna er töluvert mikið vald á fárra höndum. Það er misbeiting valds, það er mögulegt að ógnarstjórn geti ríkt, þarna er ákveðin hernaðarhyggja. Í þessu stríði höfum við því miður orðið vör við óskaplega margt af hinu neikvæða sem getur gerst, þ.e. bæði mannfyrirlitning, kvenfyrirlitning, þrælsótti, pólitískt siðleysi, hatur, misrétti, þjóðernishroki og trúarofstæki. Allt er þetta til staðar með einum eða öðrum hætti í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu, því miður. Þetta er ekki vegna þess að fólkið sem byggir Balkanskaga sé eitthvað verr af guði gert en annað fólk. Þvert á móti held ég að ótrúleg þrautseigja og langlundargeð við hörmulegar aðstæður hafi sýnt sig seinustu tvö árin. Ég bendi á það að þessi skilyrði, öll eða einhver, nærðu einnig nasisma og fasisma. Þessi skilyrði áttu sinn hlut í kúgun nýlenduveldanna á ríkjum þriðja heimsins á nýlendutímabilinu, í útrýmingu indíána í Ameríku og öllum þeim blóðuga yfirgangi sem við þekkjum úr sögu allra heimsálfa. En ef eitthvað er þá er návígið nú meira en var á nýlendutímanum til að mynda. Nú er það fjórði heimurinn, þ.e. þjóðernisminnihlutar, trúarminnihlutar og smáþjóðir sem verða fyrir barðinu á yfirgangi, ekki síður en þriðji heimurinn sem var svo þægilega fjarlægur og okkur sem byggjum hinn vestræna heim gengur enn mjög vel að aðgreina okkur frá og það er kannski einn okkar helsti vandi.
    Það eru skilyrði af þessu tagi sem hafa nært kúgun svarta meiri hlutans í Suður-Afríku, Kúrda í Tyrklandi, Írak og Íran. Rósturnar í Indlandi og grimmdarverk í Kambódíu eiga einnig rætur í atburðum og aðstæðum af þessu tagi.
    Ef grannt er skoðað er ýmislegt sameiginlegt með þeim svæðum þar sem upp spretta grimmdarleg átök og þetta er e.t.v. sú lexía sem skiptir okkur ekki síður máli ef við erum í alvöru að tala um það hver framtíðin verði í öryggis- og varnarmálum heimsins en það að hyggja að því hvaða tæki við höfum til að glíma við slíkan vanda.
    Það er vinsæl kenning og eiginlega alveg furðu lífseig að það sé fyrst og fremst í glundroða sem mestu grimmdarverkin spretta. Það er einfaldlega ekki rétt. Oft og tíðum er það einmitt þar sem stjórnvöld hafa sterka valdaaðstöðu og öflugan, hlýðinn og þýlyndan her þar sem getur skapast miðstýrt ógnarvald og þar geta grimmdarverkin einnig sprottið upp þótt með yfirbragði glundroða sé.
    Það er hættuleg tilhneiging að varpa ábyrgðinni yfir á stjórnleysi, að það hafi allt farið úr böndunum en það er mjög oft reynt. Þessi skilyrði eru fyrir hendi í Serbíu, þ.e. valdið. Í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu háttar þar raunar svo til að herinn var að stærstum hluta mannaður Serbum, allt að 80%, þótt fólksfjöldi innan fyrrverandi Júgóslavíu endurspegli alls ekki þessi hlutföll þar sem Serbar voru alls ekki 80% af íbúum fyrrverandi Júgóslavíu.
    Pólitísk stjórn hefur verið meira og minna í höndum Serba frá stofnun konungsríkis Serba og Króata í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar en það ríki fékk nafnið Júgóslavía árið 1929. Þótt Tító væri að króatísku bergi brotinn þótti löndum hans, Króötum, hann draga taum Serba á kostnað Króata og Slóvena og það á sér að hluta til sögulegar skýringar sem ég tel ekki ástæðu til að fara hér nánar út í. Það er staðreynd að Serbar höfðu tök á her og á öflugu miðstýrðu valdakerfi þegar nú fyrir stuttu sauð upp úr á Balkanskaga og afleiðingarnar eru ekki tilviljun. Af þessum sökum hefur serbneskum stjórnvöldum, ekki þjóðinni heldur stjórnvöldum, tekist að beita hernum til þeirra hroðalegu grimmdarverka sem raun ber vitni. Þarna er um skipuleg, kerfisbundin voðaverk að ræða, ekki stjórnlausan her sem enginn getur hamið. Stjórnvöld í Serbíu bera fulla pólitíska ábyrgð á því sem er að gerast. Tilgangurinn er augljós svo langt sem hann nær, þ.e. að skapa sér ótvíræða yfirburðastöðu á Balkanskaga með því að ná undir sig landi, völdum og

þarna erum við enn og aftur að sjá stórveldisdraum í reynd, Stór-Serbía er ekkert nýtt hugtak.
    Í þessu sorglega stríði hafa vissulega verið framin grimmdarverk af allra hálfu. Það má ekki gleymast. En nú orðið liggja fyrir of margar skýrslur og of skipulegar rannsóknir til þess að líta fram hjá því að skipulegust og þar með skelfilegust eru þessi grimmdarverk þar sem valdhafarnir ráða yfir öflugasta hernum þar sem Serbar flæða yfir sitt land og annarra.
    Því miður hafa fullyrðingar um skipulagt þjóðarmorð Serba á múslímum reynst réttar og skelfilegar skýrslur hafa nú borist um kerfisbundnar nauðganir á múslímakonum og enginn getur vefengt að eru í stærri stíl en nokkurn hafði órað fyrir. Sú opinbera tala sem oftast er vitnað til er að um 20.000 konur hafi orðið fyrir barðinu á þessum hroðalegu misþyrmingum en ég held að ekki nokkur maður treysti sér til þess að nefna miklu lægri tölu. Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið saman býsna greinargóða skýrslu um þessi mál og sú skýrsla er talin einna áreiðanlegust þeirra pappíra sem til eru og þar er tekið mjög sterkt til orða enda ekki að ástæðulausu. Einnig hefur Evrópuráðið safnað gögnum sem eru talin mjög áreiðanleg og allt ber að sama brunni, við erum að horfa upp á ástand sem er ekki hægt að sætta sig við, það held ég að sé alveg hægt að fullyrða fyrir hönd allra.
    Ég talaði fyrir stuttu síðan við konu sem er geðlæknir að mennt og hefur verið á ferð á þessum slóðum. Hún benti réttilega á að ef hægt væri að stoppa þetta stríð með pappírum þá væri búið að því. Skýrslunar eru til, staðreyndirnar eru til og engin furða að nú séu margir orðnir afskaplega óþolinmóðir á að sýna hug sinn og vilji helst grípa til einhverra aðgerða. Íslendingar hafa vissulega sýnt hug sinn til þessara mála.
    Í skýrslu hæstv. ráðherra kom fram greinargott yfirlit yfir ástandið á þessum slóðum en aftur á móti verð ég að segja að ég er mjög óánægð með það svar sem ég fékk nýverið frá hæstv. ráðherra varðandi flóttamenn --- ég man reyndar ekki hvort það var hæstv. utanrrh. eða forsrh. sem tók að sér að svara þeirri spurningu --- en það er staðreynd að mjög mikill flóttamannastraumur er frá ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu og nágrannaþjóðir okkar hafa tekið við þúsundum og tugþúsundum flóttamanna og þar sem mest er þá skipta flóttamennirnir hundruðum þúsunda en það er í nágrannalandinu Þýskalandi.
    Öll viljum við auðvitað að Króatar, Slóvenar, Bosníu-múslímar, Bosníu-Serbar, Bosníu-Króatar, Makedónímenn, Svartfellingar og Serbar geti átt sér friðsælt líf heima hjá sér en það er staðreynd að þessi flóttamannastraumur er núna og margir sjá ekki fram á líf í sínu eigin landi og við verðum að axla okkar eigin ábyrgð þar. Ég get gagnrýnt íslensk stjórnvöld fyrir það að ekki hefur verið hugað að því. Hins vegar hafa íslenskir þingmenn, nánast allir sem einn, mótmælt þeim grimmdarverkum sem hafa verið framin í Bosníu, þ.e. nauðgunum, og íslenskar konur tóku höndum saman með kynsystrum sínum um alla Evrópu í eftirminnilegri mótmælastund fyrir utan þetta hús á Austurvelli fyrir skömmu. Það er eðlilegt að spurt sé og sú spurning verði sífellt áleitnari: Hefur verið gripið til réttra ráðstafana til að stöðva þessa ógn? Er of seint að grípa inn í með vopnavaldi? Er það rétt sem Bosníu-múslímar segja að ef þeir hefðu auðugar olíulindir í fjallshlíðunum sínum væri stríðinu löngu lokið? Er það rétt sem Margrét Thatcher sagði í sjónvarpsviðtali nýverið, með leyfi forseta vitna ég í þýðingu af því: ,,Það er rangt að neita múslímum Bosníu um vopn til verndar sér. Ef við hefðum ekki haft flugvélar til að verja okkur með í orrustunni um Bretland hefðum við farist og einnig frelsið í Evrópu. En við börðumst og sigruðumst á einræðinu og frelsuðum heiminn undan því. Þannig er ferill Vesturlanda. Á að skilja eftir börn, konur og varnarlaust fólk, gegn morðóðum harðstjóra og Vesturlönd að hafast ekkert að? Er það stefna okkar? Þetta er ekki samboðið Evrópu og Bandaríkjunum.``
    Svo mörg voru þessi orð og það eru margir sem deila þessari heilögu reiði með Margréti Thatcher og öðrum sem hafa tjáð sig um þetta og vilja stöðva þann hrylling sem á sér stað með hvaða hætti sem er. En ég hlýt að benda á að margir, sem þekkja gleggst til þessara mála, hafa efasemdir um þær leiðir sem hún bendir á, þ.e. að ,,Vesturlandalöggan``, við þessi góðu, geti alltaf komið á friði og réttlæti alls staðar. Í fyrsta lagi er þetta náttúrlega mjög hrokakennd afstaða. Látum vera ef hún væri rétt þá væri þetta réttlætanlegt en þetta er einnig afstaða sem ekki stenst og ég held að sýni sig best að hefur ekki átt uppi á pallborðið í þeim aðgerðum sem þó hafa verið á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þær hafa verið máttminni en við hefðum viljað en þær hafa a.m.k. ekki enn að mínu mati gert illt verra og það er hægt.
    Við höfum fleiri dæmi um inngrip í alþjóðamál og ég hlýt að benda á það að Persaflóastríðið skilur eftir sig siðferðilegar spurningar sem er ekki auðvelt að svara, Falklandseyjastríðið einnig svo ég nefni eitthvað sem kemur nálægt þeirri konu sem ég vitnaði til áðan. Við megum heldur ekki gleyma því að það er mögulegt að einhverjum ríkjum fyrrverandi Sovétríkjanna fyndist nauðsynlegt að leggja Serbíu lið í nafni einhvers samslavnesks arfs a.m.k. með ófyrirsjáanlegum afleiðingum ef farið væri af stað með ,,Vesturlandalögguna`` og reynt að grípa þarna inn í með of miklu offorsi.
    Ég held að þrátt fyrir allt þá séu þau tæki sem notuð hafa verið og sú stefna sem mörkuð hefur verið fyrst og fremst að nýta Sameinuðu þjóðirnar í þeirri viðleitni til friðar sem hefur verið á Balkanskaga. Ég held að við séum þar á réttri leið. En ég er sannfærð um það að pressan verður sífellt meiri á lönd utan Balkanskaga að grípa inn í með öðrum hætti en gert hefur verið nú. Verði það gert þá er nauðsynlegt að allir þeir sem hafa einhverja rödd á alþjóðlegum vettvangi tjái sig af fullri ábyrgð í því máli og ég held að þar sé fyrst og fremst hægt að grípa til þess íslenska orðtaks ,,að rasa ekki um ráð fram``.
    Frá upphafi hafa Króatar og múslímar knúið mjög á um beina hernaðaríhlutun Vesturlanda í Bosníu og það mun verða áfram. En það er sorgleg staðreynd að ein af ástæðunum fyrir því að ástandið er eins og það er í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu er sú að löndin sem Serbar hafa herjað á hafa ekki staðið saman. Serbum hefur tekist að deila og drottna fyrst gegn Króötum en þá studdu Slóvenar og Bosníumenn Króata mjög takmarkað. Síðan í Bosníu þar sem Króatar hafa jafnvel í sumum tilvikum lagt Serbum lið gegn umbun og eigin ávinningi. Hvernig má vera að í landi, þar sem þjóðir bjuggu í tiltölulega góðri sátt og samlyndi þar sem fjölskyldubönd voru bundin þvert á trú og þjóðerni, er nú allt farið í bál og brand og hvernig er hægt að bregðast við því? Þessi spurning á ekki bara við um Júgóslavíu og þau ríki sem sprottið hafa upp úr því fyrirbæri heldur á þetta við hvar og hvenær sem slíkar aðstæður geta komið upp aftur. Ég held að það sé nauðsynlegt að þessi lærdómur sé veganesti í allri alþjóðaumræðu nú. Hvað er þá til ráða? Það er að vera stöðugt með samvinnu, þrýsting, upplýsingamiðlun og samstarf við fólk sem vill stöðva ófriðinn innan þeirra landa þar sem ófriður er.
    Viðskiptabann getur vissulega skilað árangri og ég tel að viðskiptabannið á Serbíu hafi skilað árangri en kannski ekki eins miklum og vonast hafði verið eftir. En ég hef efasemdir um árangur af því að bara sé hægt að valtra yfir á ákveðnum svæðum. Ég held að þetta sem ég er að fjalla um sanni það og sýni að við verðum að gera Sameinuðu þjóðirnar að virkara afli í friðargæslu við mismunandi aðstæður en nú er og þarna erum við hugsanlega að tala um að byggja upp aðra hefð en verið hefur. Það er einfaldlega þannig að hér og á nokkrum öðrum stöðum hefur friðargæsla Sameinuðu þjóðanna ekki skilað mjög miklum árangri en það þýðir ekki að hún hafi ekki skilað neinum árangri. Ég held einnig að það sé allt of lítið gert af því að ná óformlegu samstarfi, bæði við hjálparhreyfingar og friðarhreyfingar, innan þeirra landa sem ófriðurinn er. Það hefur því miður sýnt sig á Balkanskaga að þar hafa sérfræðingar mætt og ekki náð ýkja miklum tengslum við þá sem þar eru fyrir þrátt fyrir tvímælalaust góðan vilja.
    Ég vil minna á að það eru sjálfsagt flestir búnir að gleyma því þegar mæður serbnesku hermannanna mótmæltu linnulítið í Belgrad og heimtu að lokum syni sína úr stríðinu í Króatíu. Þetta var árangur á þeim stað og þeirri stund sem þá var þótt því miður þurfi núna meira til.
    Ég hef séð ástæðu til þess að eyða nokkrum tíma í þetta mál einfaldlega vegna þess að ég held að við munum standa frammi fyrir átökum vegna hins svokallaða fjórða heims, vegna þjóðernisminnihluta, vegna trúarbragðaminnihluta og vegna smáþjóða í framtíðinni þar sem landakortið er mjög margslungið, ekki bara í Evrópu heldur víðast hvar um heiminn. Við verðum að reyna að gera okkur grein fyrir því við hvaða aðstæður getur orðið suðuhætta þar sem þetta ástand er. Ég held að það sé einmitt þar sem mikil kúgun myndast gagnvart þessum minni hlutum. Þetta verðum við að horfast í augu við, ekki síst innan þessarar vestrænu Evrópu því að þar held ég að sé verið að loka augum fyrir ákveðnum vandamálum sem hverfa ekki.
    Það eru býsna mörg atriði sem er kannski ábyrgðarhluti að fjalla ekki um í þessari utanríkismálaumræðu en hér verður maður alltaf að velja og hafna og sem betur fer höfum við kvennalistakonur þegar í yfirgripsmikilli ræðu hv. 10. þm. Reykv. komið að allmörgum atriðum og ég hlýt að vísa til þeirrar ræðu.
    Áður en ég fer úr ræðustól vil ég nefna sérstaklega eitt annað atriði en það er hversu nauðsynlegt það er að finna þróunaraðstoð farveg sem virkar. Fyrr í vetur og raunar á undanförnum árum hef ég og fleiri kvennalistakonur bent sérstaklega á það að menn líta nú í vaxandi mæli til þeirrar þróunaraðstoðar sem fer um hendur kvenna af hreinum praktískum ástæðum af mun meiri alvöru en áður hefur verið gert. Þetta er engin tilviljun. Það hefur nefnilega komið í ljós að sú þróunaraðstoð sem fer um hendur kvenna nýtist mjög vel. Við verðum t.d. að líta á það að það eru konur, ekki karlar, sem eru kjölfestan í landbúnaði í Afríku þar sem því miður eru enn mjög víða erfiðar aðstæður. Ef þekking á að berast áfram hefur það sýnt sig að konurnar eru líklegri til að miðla þekkingunni til annarra kynslóða en karlarnir eins og staðan er núna. Það er líka staðreynd sem Alþjóðabankinn hefur meira að segja sérstaklega séð ástæðu til þess að nefna að sá peningur sem fer um hendur kvenna nýtist sérstaklega vel og ekki síst í þriðja heiminum. Þarna eru því tvö atriði sem er sérstaklega ástæða til að geta um.
    Ég tek undir með hv. 10. þm. Reykv. að vara við að við förum að taka þróunaraðstoð inn í stofnunina undir framkvæmdarvaldið þangað sem ætlunin mun vera að færa starfið sem hefur farið fram innan Þróunarsamvinnustofnunar til utanrrn. Ég tel að þetta sé öfugþróun og að þrátt fyrir falleg orð um samvinnu við frjáls félagasamtök sé verið að stíga skref frá því að geta náð þeirri bestu virkni sem hægt er í þróunaraðstoð en fara ekki í þá átt sem ég efast ekki um að stefnt er, þ.e. að þróunaraðstoð verði virkari og áhrifaríkari en fyrr hefur verið.
    Ýmsar leiðir eru til þess að miðla þróunaraðstoð til góðra verkefna og við höfum ágætis dæmi innan lands um frjáls samtök sem hafa gert mjög góða hluti í þróunaraðstoð og ég vil líka nefna að samtökin UNIFEM, sem starfa á vegum Sameinuðu þjóðanna, hafa unnið þrekvirki. Nýlega var hér á ferðinni formaður þessara samtaka, Sharon Capeling-Alkakija, og hún miðlaði upplýsingum sem ég held að hefðu verið ýmsum að gagni. Því miður virtist áhugi ráðamanna á heimsókn hennar vera sorglega lítill. En ég vona að hún verði engu að síður til þess að það verði hægt að miðla þeim boðskap sem hún hafði fram að færa.
    Sambúð norðurs og suðurs í framtíðinni mun verða mjög mikilvæg og sífellt fleiri eru farnir að gera sér grein fyrir því. Þar komum við m.a. inn á umhverfismálin en ég vil benda á það auk þess sem ég gat áðan, að einnig hefur sýnt sig að það er mjög mikilsvert í umhverfismálum að hafa konurnar í liði

með sér þegar verið er að byggja upp þróunarhjálp í löndum þriðja heimsins og það á að virkja þennan kraft sem er fyrir hendi. En umhverfismálin verða því aðeins það sem þau verða að vera í framtíðinni, að þjóðirnar í norðri séu reiðubúnar til þess að hugsa öll mál upp á nýtt, mæla hagvöxt eftir öðrum stærðum en gert hefur verið núna og þjóðirnar í suðri hafi möguleika á því að brauðfæða sig án þess að gera þá sömu reginskissu og við höfum gert víða í norðrinu, þ.e. að gereyða skógum og menga allt umhverfi okkar. Til þess er sagan að við lærum af henni, bæði nútímasagan og fyrri saga.