Breyting á dagskrá

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 13:42:37 (7151)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Þegar ég kom hér út til þingfundar, þá sá ég að dagskráin sem liggur fyrir er ekki með öllu sú sama og ég skoðaði á skrifstofu minni í morgun, þ.e. hér hafa mál verið færð til og lyfjalögin eru nú 9. mál á dagskrá og komin fram fyrir almannatryggingar, félagslega aðstoð og hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit sem var ef ég man rétt á undan á dagskránni í morgun. Ég vil kvarta undan þessu vegna þess að við þingmenn höfum í ærnu að snúast og þurfum að reyna að skipuleggja tíma okkar og vinnubrögð og það segir sig eiginlega sjálft að maður hlýtur að skoða dagskrána með tilliti til þess hvaða mál maður eigi að undirbúa sig fyrir að morgni dags til umræðu seinni partinn. Ég vil koma á framfæri athugasemdum við að svona skuli staðið að málum og þetta gerir manni mjög erfitt um vik.