Breyting á dagskrá

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 13:43:35 (7152)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þessi umkvörtunaratriði hv. 10. þm. Reykv. Á laugardag lá fyrir dagskrá hér í anddyri þingsins þar sem gert var ráð fyrir því að tvö mjög veigamikil mál, almannatryggingar og félagsleg aðstoð, yrðu fyrst tekin til umræðu. Undir normal kringumstæðum hér í þinginu hefði þessi dagur a.m.k. allur farið í umræðu um þessi tvö mál. Nú er hins vegar búið að breyta dagskránni og lyfjalögin hafa verið sett fram fyrir og eins og forseti hefur tilkynnt, þá á að taka þau hér til umræðu nú.
    Staða þessara mála er þannig í nefnd þingsins að með góðu samkomulagi allra aðila hafa þessi mál þrátt fyrir að ekki sé búið að mæla fyrir þeim hér í þinginu verið tekin til umfjöllunar, menn hafa fallist á þetta. 1. umr. í nefnd þingsins um almannatryggingar og félagslega aðstoð er lokið. Sáralítil umræða á einum stuttum fundi hefur farið fram um lyfjalögin og þeirri yfirferð er ekki lokið þannig að það væri auðvitað eðlilegt undir öllum kringumstæðum að taka hér fyrst til umræðu eins og dagskráin gerði ráð fyrir í upphafi almannatryggingalögin og síðan lögin eða frv. um félagslega aðstoð og láta síðan frv. um lyfjalögin mæta afgangi í þessari umræðu. Ég segi það fyrir mig, hæstv. forseti, að ég hafði undirbúið mig þannig fyrir þessa umræðu að hér yrðu almannatryggingalögin og lögin um félagslega aðstoð til umfjöllunar en ekki lyfjalögin þannig að ég segi fyrir mig, ég er ekki tilbúinn til umræðu um frv. um lyfjalögin eins og þau liggja fyrir núna.