Breyting á dagskrá

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 13:47:09 (7155)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu forseti sem ákveður dagskrá og forseti ræður því hvaða mál eru tekin á dagskrá og hún auglýsir dagskrá fyrir fund, en menn verða að vera viðbúnir því að alveg þar til fundur hefst getur forseti ákveðið breytingu á dagskrá. Öll þau mál sem voru sett upphaflega á dagskrá þessa fundar eru á dagskrá og þingmenn hafa enga afsökun fyrir því að frábiðja sér það að ræða eitthvert tiltekið mál sem á dagskránni er vegna þess að þeir séu ekki undirbúnir út í það. Það er alveg út í hött. Ég kom að sjálfsögðu hingað undirbúinn til að mæla fyrir öllum þeim málum sem eru á dagskránni og varða mig og ég reikna með því að þingmenn hafi gert það sama þannig að mér er alveg sama ef forseti tekur þá ákvörðun að breyta út frá hinni auglýstu dagskrá. Það er mér alveg að meinalausu.