Almannatryggingar

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 14:00:22 (7160)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það sem rekur mig hér upp til andsvara við hæstv. heilbr. og trmrh. er upphaf ræðu hans áðan þar sem eina ferðina enn er ekki um annað að ræða hjá honum en ofanígjöf við okkur þingmenn. Ýmist eru mál eða málflutningur okkar á misskilningi byggt eða við erum undirbúningslaus. Ég hef aldrei kynnst nokkrum ráðherra ég vil næstum segja manni sem sýnir eins mikla lítilsvirðingu þeim sem hann á þó að starfa með sem eru t.d. nefndarmenn í heilbr.- og trn. Og ég vil benda hæstv. ráðherra á það sem hann jú veit ofurvel sjálfur, að við gerðum við hann einhvers konar ,,gentlemen's agreement`` þó maður eigi auðvitað ekki að gera það nema við gentle-menn um það að senda út til umsagnar frv. um almannatryggingar og félagslega aðstoð. Við samþykktum líka að senda út til umsagnar frv. um heilbrigðisþjónustu þó það sé ekki búið að mæla fyrir þessu og þó þetta sé ekki komið til nefndar. Við þingmenn vorum að liðka þar sérstaklega til svo fáum við ekkert nema skít og skömm frá ráðherranum. Ég verð að segja að mér finnst vanta alla tillitssemi hjá þessum ráðherra, ekki bara við sjúklingana í landinu, við höfum oft rætt það, heldur líka við þingmenn.