Félagsleg aðstoð

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 15:04:02 (7170)


     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Eins og hefur komið fram, þá er þetta fylgifrv. með því almannatryggingalagafrv. sem var til umfjöllunar fyrr á þessum degi.
    Fyrst af öllu aðeins út af orðum hæstv. heilbrrh. hér áðan í andsvari við mig og spurningu minni um það hvort til stæði að flytja jafnvel þætti þessa frv. um félagslega aðstoð yfir til sveitarfélaganna þegar það verður orðið að lögum , þá kom það fram í máli hæstv. ráðherra að það stæði ekki til gera það eins og ástatt væri nú. Ég skil það mætavel.
    Af orðum hans mátti hins vegar skilja að þetta kæmi allt saman vel til greina þegar sveitarfélögin væru orðin stærri og væru fær um að taka að sér stærri og viðameiri verkefni. Ég efast um að einhvern tíma getum við komið á því fyrirkomulagi a.m.k. í náinni framtíð að hægt sé að byggja upp það öflug sveitarfélög og jöfn að stærð og getu til þess að sinna svo viðamiklum málum eins og lagt er til í þessu frv., að okkur takist að færa slík verkefni yfir til sveitarfélaganna. Það væri gott ef slíkt væri hægt, en ég efast um að við sjáum inn í þá framtíð að það muni gerst. Hættan er sú, því miður, að með því að færa aukin verkefni í félagslegri þjónustu yfir til sveitarfélaganna skapist þær aðstæður í landinu að þjónustan verði mjög mismunandi eftir því hversu öflugt og sterkt viðkomandi sveitarfélag er, hversu heppinn þú ert að búa í sterku og öflugu sveitarfélagi eða hversu óheppinn þú ert að búa í sveitarfélagi sem er í sífelldri varnarbaráttu og hefur ekki tök til þess að setja peninga í félagslega þjónustu, hugsar miklu meira um það sem nauðsynlegt er reyndar að gera, að byggja upp atvinnulífið, og hver einasta króna sem til ráðstöfunar er í viðkomandi sveitarfélagi fari til uppbyggingar atvinnulífsins, til að tryggja atvinnu en félagslega þjónustan sitji á hakanum. Þetta er hættan og ekki síst þegar menn eru hér að flytja mjög viðkvæma og stóra málaflokka frá almannatryggingunum yfir í félagslega þjónustu sem síðan á kannski einhvern tíma í framtíðinni að fara yfir til sveitarfélagnna. En auðvitað er það mikilvægt að geta látið sveitarfélögin hafa mikilvæg og stór verkefni og færa ákvarðanatökuna sem næst fólkinu sem þar býr.
    Það er rétt sem hæstv. heilbrrh. sagði, það er búið að prenta frv. upp --- ég tók eftir því eftir að ég hafði flutt mína ræðu --- og flytja a.m.k. eitt atriði, þ.e. þetta með styrkinn til barna á aldrinum 18--20 ára vegna skólanáms, yfir í félagslegu þjónustuna. Það er sjálfsagt eftir ábendingar sem fram komu í hv. heilbr.- og trn. um að þannig mættu þeir hlutir betur fara og ég fagna því.
    Í 1. gr. frv. eru þessar bætur skilgreindar sem eiga eftir að falla undir félagslega aðstoð. Í fyrsta lagi vil ég fara örfáum orðum um mæðra- og feðralaun. Ég tel að fyrst menn eru að stíga það skref á annað borð að færa það úr almannatryggingunum og ætla að færa það yfir í félagslega þjónustu, þá væri miklu nær að taka það sem hluta af barnabótakerfinu í heild sinni og færa það yfir í skattkerfið. Ég tel því vera miklu betur fyrir komið þar heldur en fara að færa það inn í hluti um félagslega aðstoð.
    2. Umönnunarbæturnar finnst mér það vera dæmi um félagslega þjónustu og rétt að færa þær yfir.
    3. Endurhæfingarlífeyririnn. Ég kom inn á það í minni fyrri ræðu. Ég teldi eðlilegra að endurhæfingarlífeyririnn væri inni í almannatryggingunum, færi ekki yfir í félagslegu aðstoðina.
    4. Makabæturnar tel ég eðlilegt að færa líkt og umönnunarbæturnar sem í raun og veru mætti að mínu viti slá saman og ef það yrði nú kannski gert í þessari endurskoðun að setja upp nýjan bótaflokk sem væru umönnunarbætur elli- og örorkulífeyrisþega sem gætu sparað verulega fjármuni fyrir ríkið með því að greiða fyrir þessa þjónustu sem veitt yrði á heimilunum.
    5. Ekkju- og ekklabætur. Þá fyndist mér eðlilegra að líkt og með mæðra- og feðralaunin gæti það verið hluti af hinu almenna skattakerfi og ætti ekki að flokka sem félagsleg aðstoð.
    6. Sérstaka heimilisuppbótin. Það er reyndar eðlilegt að mínu viti að hafa það sem hluta af þessu frv. um félagslega aðstoð. Sama gildir um uppbætur vegna sérstakra aðstæðna. Það er hins vegar mjög yfirgripsmikill og víður málaflokkur og það er eiginlega fátt, sem ekki er hægt að flokka þar undir, enda útgjöld veruleg, skipta hundruðum millj. kr. vegna þessara heimildarbóta sem þarna er um að ræða. Eins er með bensínstyrk sem þarna er um rætt eða bætur vegna rekstur bifreiðar og síðan bifreiðakaupastyrkinn. Þetta eru allt eðlilegir hlutir innan félagslegu aðstoðarinnar.
    Mér finnst að í frv. kristallist sú grundvallarbreyting sem við höfum rætt hér fyrr í umræðunum. Breytingin kemur mjög skýrt fram, þ.e. þar sem frv. gerir ráð fyrir því að allar þessar bætur verði heimildarbætur en á mörgum stöðum í almannatryggingalögunum var um skýran bótarétt einstaklinganna að ræða þar sem fyrirmæli voru um að þessir hlutir skyldu greiddir og ég ætla örlítið að koma inn á það.
    Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því að heimilt sé að greiða hverjum þeim sem á lögheimili hér á landi og verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs bætur í sex mánuði eftir lát maka. Þetta er með öðrum orðum heimild en í 17. gr. laganna er þetta orðað svo: ,,Hver sem á lögheimili hér á landi og verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs á rétt á bótum í sex mánuði.``
    Á þessu er náttúrlega grundvallarbreyting og svona er það á ýmsum öðrum stöðum í frv. að þar sem réttur er til staðar er nú gert að heimild. Í 6. gr. varðandi ekkjulífeyrinn er hins vegar spurning að mínu viti hvort ekki sé eðlilegra að það sé hluti af almannatryggingunum eins og ég lýsti áðan sem einn hlekkur í þeirri keðju frá því að menn hætta að fá sjúkradagpeninga og slysadagpeninga yfir í biðtímann eftir endanlegu orörkumati. En í 6. gr. er gert ráð fyrir því að heimilt sé að greiða konu, sem lögheimili á hér á landi og orðin 50 ára við lát mannsins, ekkjulífeyri til 67 ára aldurs, enda hafi hún átt heimili hér a.m.k. þrjú síðustu árin. Þetta eru heimildir en í 18. gr. núgildandi laga er gert ráð fyrir því að þegar bætur niður falla skv. 17. gr., þ.e. ekkjubæturnar, þá á hver sú kona sem á lögheimili hér á landi og er orðin 50 ára við lát manns sín rétt á ekkjulífeyri til 67 ára aldurs. Þarna er um grundvallarbreytingu að ræða. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort honum finnist ekki eðlilegt að ekkjulífeyririnn sé eins og hver annar hluti af lífeyriskerfi og færist ekki yfir í þetta frv. heldur verði áfram hluti af almannatryggingalögunum. Yrði sú breyting gerð á þessum frumvörpum þá horfir málið allt öðruvísi við vegna þess að þá er þar ekki um heimildarbætur að ræða.
    Ég kom inn á 7. gr. frv. um endurhæfingarlífeyrinn áðan og ætla ekki að orðlengja frekar um það. Þar finnst mér líka orka tvímælist hvort flytja eigi yfir.
    9. gr. frv. er orðuð svo, með leyfi forseta: ,,Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar . . .  `` Þegar menn hins vegar lesa frv. um almannatryggingar, 17. gr. þess frv., er í raun og veru hvergi talað um tekjutryggingu. Þá grein þurfa menn því að skoða nákvæmlega. Þar er bara talað um uppbót á lífeyri eins og var og eins og er í almannatryggingalögunum í dag. Tekjutryggingin er bara uppbót á lífeyri en þarna er farið að tala um tekjutryggingu. Það er í fyrsta skipti, a.m.k. sem ég tók eftir því, þegar ég las frv. að talað er um tekjutrygginguna. Þetta er spurning um vinnubrögð en ekki endilega það hvaða nöfnum við köllum þetta.
    Þá gildir það sama að í núgildandi lögum er gert ráð fyrir því að heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót fylgi tekjutryggingunni og einbúi hafi rétt eða njóti hann ekki hagræðis af sambýli en eins og þetta er sett upp í frv. þá er um heimild að ræða. Í raun og veru má segja að þegar bæði frumvörpin eru skoðuð saman þá er verið að skerða rétt. Nú er ég ekki að segja það með þessu, hæstv. ráðherra, að það sé ætlun ríkisstjórnar og heilbrrn. að gera slíkt. Hins vegar þegar menn lesa umsögnina um frv. um félagslega aðstoð er gert ráð fyrir 75 millj kr. sparnaði sem að þessu liggi. Þeim sparnaði verður að mínu viti ekki náð öðruvísi en nýta eitthvað af þeim heimildum sem eru til staðar í þessu frv. um félagslegu aðstoðina og þá komum við að nákvæmlega sömu niðurstöðunni. Það er með öðrum orðum ætlunin að skerða réttindin og til þess eru menn að fá auknar heimildir til þess að spara 75 millj. kr.