Félagsleg aðstoð

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 15:15:49 (7171)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Eins og hæstv. heilbr.- og trmrh. vék áðan að í umræðum um frv. til laga um almannatryggingar þá er auðvitað stærsta breytingin sem hér er á ferðinni í þessu frv. sú að þarna koma inn heimildarákvæði a.m.k. í ákveðnum tilvikum þar sem skilgreiningin var áður sú að einstaklingurinn hefði rétt til tiltekinnar þjónustu. Núna er heimilt að veita honum tiltekna þjónustu samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir. Þarna er auðvitað veruleg breyting á ferðinni vegna þess að nú er ekki lengur rétturinn skilgreindur heldur heimildin til þess að veita honum tiltekna aðstoð. Það skiptir auðvitað verulegu máli fyrir einstaklingana sem leita aðstoðar að þessi breyting er hér gerð. Ég óttast að þetta geti leitt til þess að staða þeirra versni gagnvart opinberum aðilum og gagnvart Tryggingastofnun ríkisins með þessu ákvæði.
    Ég hef ekki rekist á það í frv. að nokkur grein sé gerð fyrir því hvernig á því standi að hér sé bara um heimildarákvæði að ræða en ekki neina skyldu. Í athugasemd við lagafrv. segir að frv. geri alls staðar ráð fyrir að um heimildarákvæði sé að ræða og svo segir bara: ,,Um nánari skýringar vísast til athugasemda með frv. til laga um almannatryggingar``. Það kann að vera að það hafi farið fram hjá mér en mér finnst ekki að það hafi verið mikil útskýring á því af hverju þetta er gert með þessum hætti.
    Ég vil benda á nokkur dæmi um það hvernig þetta kemur út.
    Í 2. gr. þessa frv. segir að heimilt sé að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra. Í núgildandi lögum segir: ,,Mæðralaun skulu greidd einstæðum foreldrum sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri``. Þetta er auðvitað reginbreyting. Þetta breytir sjálfsagt engu til að byrja með í framkvæmd en þetta er auðvitað reginbreyting þegar annars vegar segir að þau skulu greidd og hins vegar að heimilt sé að greiða þessi laun.
    Í 7. gr. er sagt að heimilt sé að greiða konu, sem á lögheimili hér á landi og er orðin 50 ára við lát mannsins ekkjulífeyri til 67 ára aldurs, enda hafi hún átt hér lögheimili a.m.k. þrjú síðustu árin o.s.frv. Í núgildandi lögum segir að hver sú kona sem lögheimili á hér á landi og orðin var 50 við lát mannsins eigi rétt á eftirlífeyri. Þannig er það orðað í núgildandi lögum.
    Í 9. gr. er sagt að heimilt sé að greiða einhleypingi heimilisuppbót sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Í núgildandi lögum segir að einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar, skuli að auki greiða heimilisuppbót. Þarna er því um talsverða breytingu að ræða og að mínu viti breytir hún réttarstöðu einstaklinganna gagnvart Tryggingastofnun og þeirri kröfu sem þeir eiga á bótum. Ég óska eftir því að ráðherra geri nánar grein fyrir því hvers vegna farið var út í það að gera þetta allt að heimildarákvæðum í stað þess að haga því til eins og hingað til hefur verið.
    Sú spurning vaknar auðvitað þegar frv. er lesið sem og hitt sem hefur nú þegar verið rætt, hvernig mörkin væru fundin á milli félagslegrar aðstoðar annars vegar og tryggingabóta hins vegar eins og ég vék að hér áðan. Sú spurning vaknar auðvitað líka af hverju eitthvað sem skilgreint er sem félagsleg aðstoð og verður skilgreint þannig í íslenskum lögum ætti að heyra undir Tryggingastofnun ríkisins og heilbr.- og trmrh. Auðvitað hljómar mjög ankannalega að heilbr.- og trmrh. sé að mæla fyrir lögum um félagslega aðstoð og verði eftirleiðis að gera breytingar á lögum um félagslega aðstoð en ekki félmrh. og þetta skuli heyra undir málasvið hans. En sú skýring kom auðvitað hjá ráðherra, sem liggur kannski í augum uppi þegar maður fer að skoða þetta, að ráðuneytið hefði skoðað þessi mál og þessa skiptingu milli félagslegrar aðstoðar og tryggingabóta með tilliti til þess hvaða aðstoð sveitarfélögin veittu meðal grannþjóðanna. Það hefði verið viðmiðunin við frumvarpssmíðina. Mér finnst nú liggja nokkurn veginn í augum uppi að þetta þýði þá að reynt verði að færa þessi verkefni út til sveitarfélaganna sem hér er um að ræða.
    Ráðherra sagði líka að ef af fækkun og stækkun sveitarfélaganna yrði þá mundi fylgja aukinn verkefnatilflutningur og þar á meðal kæmi þetta hér til álita. En nú skulum við gefa okkur að fækkun og stækkun sveitarfélaganna verði ekki eins hröð og menn hafa búist við, það muni gerast hægar og þau munu ekki verða í stakk búin til þess að taka við verkefnum mjög hratt, þá vaknar upp sú spurning hvort þetta

verði áfram hjá Tryggingastofnun eða er hugsanlegt að menn reyni samt sem áður að ýta þessu út til sveitarfélaganna þó að þau séu hugsanlega vanbúin. Nú er ég ekki að segja að þau telji sig endilega vanbúin því að ég vil ítreka það enn eina ferðina hér á þingi að eitt eru sveitarfélög og annað eru einstaklingarnir sem í sveitarfélögunum búa og kann vel að vera að þó að sveitarfélögin telji sig í stakk búin til þess að taka einhver viss verkefni eða veita vissa þjónustu að þeir sem í sveitarfélögunum búa séu ekki alveg sammála því. Þess vegna vaknar hjá manni viss ótti um það að reynt verði vegna fáránleikans í því að ráðherrann sé að vasast í frumvörpum og lögum um félagslega aðstoð að ýta þessu með einhverjum hætti fyrr en ella út til sveitarfélaganna og þau verði hugsanlega vanbúin til þess að taka við málinu.
    Þetta eru þær helstu athugasemdir sem ég vil gera við þetta frv. að svo stöddu en að sjálfsögðu áskil ég mér allan rétt til þess að fara nánar ofan í málið í heilbr.- og trmn.