Félagsleg aðstoð

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 15:22:58 (7172)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til þeirra hv. tveggja þingmanna, sem hér hafa tekið til máls, og skal leitast við að svara spurningum þeirra eftir bestu getu.
    Í fyrsta lagi liggur auðvitað alveg fyrir að það orkar tvímælis eins og ég var að segja hér áðan og mun alltaf orka tvímælis og verður alltaf umdeilanlegt hvernig menn skipta viðfangsefnum á milli félagslegrar aðstoðar og almannatryggingakerfis. Út af fyrir sig er þar enginn stóridómur til annar en Alþingi Íslendinga þegar Alþingi afgreiðir tillögur sem lög frá Alþingi.
    Ég sagði áðan að það væri einn af þeim þáttum, sem við hefðum litið til, hvaða aðstoð sveitarfélög í nágrannalöndunum veita fólki þegar við klufum almannatryggingalögin í frv. um almannatryggingar og frv. um félagslega aðstoð en við fórum ekki alfarið eftir því. Við höfðum það til hliðsjónar ásamt mörgum fleiri atriðum. En eins og ég segi verður alltaf umdeilanlegt um einstök atriði hvorum megin hryggjar þau eiga að liggja.
    Þá var einnig spurt sérstaklega hvaða ástæða væri til þess að taka alls staðar upp í þessu frv. heimild í sambandi við greiðslur um félagslega aðstoð í stað þess sem er í nokkrum tilvikum í gildandi lögum að þar er um skyldugreiðslu að ræða. Svarið við því er mjög einfalt. Það er ekki endilega víst eins og skyldan er framkvæmd í dag að það sé í samræmi við réttlætiskennd þeirra aðila sem um fjalla, þar á meðal hv. alþm. sem setja lögin. Dæmi eru um það vegna þess að fjármagns- og eignatekjur falla ekki undir þá teknaskilgreiningu sem valda skerðingu á tekjutryggingu og heimildaruppbótum sem þeim fylgja, að aðilar komi, sem eru ekki að fela að þeir eru með mjög miklar eignatekjur og vaxtatekjur, en krefjast á grundvelli greiðsluskylduákvæðisins í almannatryggingalögunum fullra greiðslna, ekki bara á tekjutryggingu heldur á öllum viðbótargreiðslum sem atvinnutekjulausum lífeyrisþegum eru ætlaðar. Meira að segja eru dæmi um að kröfur komi frá aðilum, sem eru með mjög háar tekjur sem eru svona saman settar, um að þeir fái greiddar úr almannatryggingum hæstu mögulegu greiðslur sem ætlaðar eru lágtekjufólki. Þetta er afleiðing af ákvæðinu um skyldugreiðslur sem er hins vegar ekki í samræmi við það sem flestir telja vera eðlilegt að aðili skuli geta fengið svo háar greiðslur úr tryggingakerfinu sem hefur mjög háar tekjur eingöngu vegna þess að ekki er um atvinnutekjur að ræða heldur eigna- og vaxtatekjur. Í 5. gr. segir að heimilt sé ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi að greiða maka elli- og örorkulífeyris makabætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri. Þetta er óbreytt í gildandi lögum en í 6. gr. frv. segir:
    ,,Heimilt er að greiða hverjum þeim, sem á lögheimili hér á landi og verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs, bætur í sex mánuði eftir lát maka, 15.448 kr. á mánuði.``
    Í gildandi lögum er um skylduákvæði að ræða. Nú er ég ekki að draga neitt úr því og tilheyrendur mega ekki misskilja orð mín þannig að ég geri mér ekki fulla grein fyrir því að það er auðvitað áfall í lífi hvers og eins að missa maka sinn, hvort sem um er að ræða innan 67 ára aldurs eða ekki. En það gæti verið, og eru sjálfsagt mörg dæmi um það, að í fjárhagslegum þrengingum, sem þessi þjóð á við að etja, teldu menn ekki eðlilegt að hátekjufólk fengi í sérstakar greiðslur upp á 15.448 kr. á mánuði úr ríkissjóði jafnvel þó svo það hefði misst maka sinn. Það eru því ýmis rök fyrir því að í staðinn fyrir að menn hafi svona ótvíræðar greiðsluskyldur á ríkinu sé þeim breytt í heimildir. Líka getur verið ástæða til þess að endurskoða greiðslur almannatryggingakerfisins til tiltekinna einstaklinga sem áttu kannski mikinn rétt og fyllsta rétt á þessum greiðslum þegar til þeirra er stofnað en aðstæður hafa hins vegar breyst mjög verulega. Eins og sjálfsagt flestallir aðrir þingmenn veit ég mörg dæmi þess að með þessu hafi fólk fengið úr almannatryggingakerfinu verulegar fjárhæðir sem það hefur ekki átt rétt á miðað við þær aðstæður sem viðkomandi aðili býr við nú um stundir þó svo að aðstæðurnar hafi verið þannig þegar til bótaréttarins var stofnað að viðkomandi hefði fyllstu þörf fyrir slíkar greiðslur.
    Margir trúðu því áður fyrr, einkum og sér í lagi þegar tryggingalöggjöfin væri sett, að þeir einir mundu leita á vit trygginganna sem hefðu raunverulega þörf fyrir aðstoð. En því miður er það oft þannig að þeir sem mest hafa eru allra manna kröfuharðastir um meira. Líka eru dæmi um slíkt í tryggingakerfinu. Þess vegna held ég að það sé rétt, virðulegi forseti, að sú breyting sé gerð sem hér er lögð til að í staðinn fyrir skylduákvæði séu heimildarákvæði um greiðslu vegna félagslegrar aðstoðar og Íslendingum er nú einu sinni þannig farið að þeir sem fá slíkar heimildir vilja gjarnan teygja sig lengra en skemmra í það að nota þær heimildir. Ég býst ekki við að mikil breyting verði þar á.

    Ég ítreka að ég þakka hv. þm. sem tekið hafa til máls um þetta frv. og vænti þess að það eigi greiða leið í gegnum hv. heilbr.- og trn.