Félagsleg aðstoð

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 15:31:47 (7174)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Aðeins að rifja upp að við afgreiddum á síðasta þingi breytingu á lögum um almannatryggingar sem gera það akkúrat að verkum að um leið og fjármagnstekjuskattur yrði tekinn upp á Íslandi þá mundu fjármagnstekjur leiða til skerðingar á tekjutryggingu. Hins vegar fannst okkur ekki eðlilegt og Alþingi tók undir það að gera ráð fyrir að fjármagnstekjur leiddu til skerðingar á tekjutryggingu í almannatryggingakerfinu á sama tíma og fjármagnstekjur eru ekki skattlagðar hjá öðrum borgurum. Það var nú eiginlega ástæðan fyrir því að það var ekki gert. Hins vegar vita allir hv. þm. minn vilja í sambandi við skattlagningu fjármagnstekna og ég held ég þurfi engu við það að bæta.