Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 15:33:54 (7176)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Í gildandi lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er ekki sérstaklega tekið fram að lögin gildi um heilbrigðis- og mengunareftirlit á varnarsvæðunum. Í framkvæmd hefur þetta eftirlit verið þannig að varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins hefur í krafti samkomulags við varnarliðið falið heilbrigðiseftirliti Suðurnesja að annast heilbrigðis- og mengunareftirlit á varnarsvæðunum. Varnarliðið greiðir heilbrigðiseftirliti Suðurnesja árlega fjárhæð vegna eftirlits með eftirlitsskyldri starfsemi á þess vegum. Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli greiðir síðan um það bil þriðjung af rekstrarhalla heilbrigðiseftirlits Suðurnesja vegna eftirlits þess á varnarsvæðum, en íbúafjöldi á varnarsvæðum er þriðjungur af íbúafjölda sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
    Íslensk fyrirtæki, sem starfa á varnarsvæðunum, bera á hinn bóginn engan kostnað vegna eftirlitsskyldrar starfsemi sinnar líkt og íslensk fyrirtæki annars staðar á landinu. Þessu vilja menn nú breyta þannig að utanríkisráðherra geti annaðhvort gert samning við viðkomandi fyrirtæki um greiðslu vegna eftirlits heilbrigðiseftirlits Suðurnesja eða sett um það sérstaka gjaldskrá. Meðal þeirra fyrirtækja, sem hér um ræðir, eru Íslenskir aðalverktakar hf. og Flugleiðir hf.
    Með frumvarpi þessu er lögfest að eftirlit samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nái einnig til varnarsvæðanna og að utanríkisráðherra, sem samkvæmt lögum nr. 105/1954 hefur lögsögu á varnarsvæðunum, skuli semja við heilbrigðiseftirlit Suðurnesja til að framkvæma það eftirlit.
    Í fylgiskjali með þessu frv. fylgir mat fjárlagaskrifstofu fjmrn. og umsögn um frv. þar sem fram

kemur m.a. eins og þegar hefur komið fram í framsöguræðu minni að megintilgangurinn með frv. er að taka af tvímæli um hvernig hátta skuli framkvæmd laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit á varnarsvæðunum. Talið er að heildartekjur af álagningu heilbrigðiseftirlitsgjaldsins á fyrirtæki geti numið 2--3 millj. kr. Þær tekjur munu koma til lækkunar á því framlagi sem Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli mundi annars verða að greiða og hreinar tekjur ríkissjóðs af starfsemi embættisins ættu að öðru jöfnu að hækka um sömu fjárhæð, segir fjárlagaskrifstofa fjmrn.
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þetta frv. en legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.