Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 18:02:19 (7179)

     Flm. (Páll Pétursson) :
    Frú forseti. Á þskj. 953 flytjum við Steingrímur J. Sigfússon, Kristín Ástgeirsdóttir, Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, svohljóðandi tillögu:
    ,,Alþingi ályktar með vísan til 39. gr. stjórnarskrárinnar að kjósa nefnd níu alþingismanna til að rannsaka aðdraganda og forsendur fyrir ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarps, m.a. með tilliti til fjárhagslegra tengsla hans við stofnunina og menntamálaráðuneytið og starfsemi á vegum þess.``
    39. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:
    ,,Alþingi getur skipað nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Alþingi getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.``
    Nokkrum sinnum á undanförnum árum hafa komið fram á Alþingi tillögur um skipan rannsóknarnefnda skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Ég nefnd sem skipuð var árið 1954 til að rannsaka okur, tillögur um fræðslustjóramálið, tillögur um Hafskipsmálið og e.t.v. fleiri.
    Ég ætla ekki að rifja upp í löngu máli aðdraganda þessa máls. Dagskrárstjóri sjónvarpsins hafði verið í leyfi um fjögurra ára skeið, hann kom aftur til starfa og fékk skömmu síðar uppsagnarbréf með vísan til ráðningarsamnings með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þessi uppsögn var næstum samhljóða uppsagnarbréfum sem nokkrir aðrir starfsmenn stofnunarinnar höfðu fengið dagana á undan þó með þeirri breytingu að viðkomandi starfsmaður var þéraður og hann var leystur frá vinnuskyldu hina tilskyldu þrjá mánuði uppsagnarfrestsins. Það voru engar ástæður tilgreindar í uppsagnarbréfinu fremur en í öðrum uppsagnarbréfum til starfsmanna enda hefði þá hugsanlega orðið torveldara fyrir starfsmanninn að fá sér nýtt starf og uppsagnarbréfið hefði getað orðið honum íþyngjandi í framtíðinni. Fjölmiðlar hafa gert því skóna að uppsögnin eigi rætur að rekja til niðrandi ummæla sem starfsmaðurinn hafði um aðra starfsmenn sjónvarpsins í sjónvarpsþætti. Þetta er alveg úr lausu lofti gripið þó að hver hafi nú étið það eftir öðrum. Þetta mál hefur ekkert með málfrelsi að gera. Starfsmenn sjónvarpsins standa alveg jafnréttir eftir sem áður þótt það hafi verið farið um þá niðrandi orðum í einum sjónvarpsþætti því þjóðin veit að þeir eru störfum sínum vaxnir. Mér finnst hins vegar alvörumál að í þættinum, þessum tilvitnaða sjónvarpsþætti sagði starfsmaðurinn frá áformum sínum um alveg gjörspillta stjórnarhætti. Hann kvaðst mundu afhenda vinum sínum verkefni sem starfsfólk sjónvarpsins hafði áður unnið að og hann kvaðst mundu semja handritin í stórum stíl sjálfur og bjóða vinum sínum að framleiða og kallaði það meira að segja útboð. Það er alveg ný skilgreining á útboðum. Útboð er í mínum skilningi það að gefa mörgum kost á að bjóða í sama verkið samkvæmt verklýsingu og taka síðan hagstæðasta tilboði, ekki það að hringja í vin sinn og bjóða honum að vinna verk fyrir ákveðna upphæð eða semja við hann um ákveðna upphæð. Síðan hafði starfsmaðurinn hótanir uppi um utanaðkomandi pólitíska íhlutun í málefni sjónvarpsins. Mér fannst að þessi þáttur afhjúpaði fyrst og fremst skuggaleg áform starfsmannsins um spillta stjórnarhætti.
    Þessum starfsmanni var sagt upp með lögmætum hætti eins og öðrum starfsmönnum sem uppsögn hafa fengið. En hin pólitíska íhlutun lét ekki á sér standa. Menntmrh. setti Pétur Guðfinnsson í orlof í eitt ár á fullum launum og undirskrifaði ráðningarbréf og gerði dagskrárstjórann sem sagt hafði verið upp störfum að framkvæmdastjóra stofnunarinnar.
    Ég dreg það ekkert í efa út af fyrir sig að menntmrh. hafði lögformlegt vald til þess að fremja þennan gerning en þrátt fyrir það var hann siðlaus. Þetta var löglegt en siðlaust. Menntmrh. lýsti því yfir í kvöldfréttum sjónvarps 3. apríl að þetta væri pólitísk ákvörðun og ég vitna beint til orða hans, með leyfi forseta: ,,Mín ákvörðun er auðvitað pólitísk. Hún er það.``
    Ráðherrann upplýsti að hann hefði gert þetta í samráði við formann Sjálfstfl. og forsrh., Davíð Oddsson, og með vitund fyrrverandi formanns Sjálfstfl., sjútvrh. Þorsteins Pálssonar. Ég fullyrði að þótt hæstv. menntmrh. hafi skrifað undir ráðningarbréfið eigin hendi þá velkist ég ekki í vafa um þátt forsrh. og formanns Sjálfstfl. í þessu máli. Svona vinnubrögð verða ekki til í kollinum á hæstv. menntmrh. Enda sagði hinn nýráðni framkvæmdastjóri sjónvarpsins í fögnuði sínum og þakklæti að Davíð væri verkstjóri ríkisstjórnarinnar og bein tilvitnun: ,,Ég held að engin ríkisstjórn gæti eignast betri verkstjóra.`` Þetta var sem sagt heimsmet.
    Ég hef haft hörð orð um þessa pólitísku íhlutun og þarf ekki að endurtaka þau hér. Ég tel það mjög alvarlegt að líða hér þvílíka stjórnarhætti og það varði þjóðina alla. Nýráðinn framkvæmdastjóri sjónvarpsins er kunnur og umsvifamikill kvikmyndagerðarmaður. Sumir halda því fram að hann sé heimsfrægur listamaður. Hann hefur staðið að framleiðslu margra kvikmynda og tekist að fjármagna þær með ýmsum hætti og ég lái ekkert listamanni þó að hann gangi djarflega fram í því að hrinda verkum sínum í framkvæmd, jafnvel þótt það kunni að kosta það að lítið fjármagn verði eftir handa öðrum listamönnum í sama geira. Framkvæmdastjórinn hefur setið í ýmsum stofnunum sem hafa haft áhrif á framvindu kvikmyndalistar og fjármögnun kvikmyndagerðar. Margvíslegar upplýsingar hafa komið opinberlega fram undanfarna

daga um starfshætti þar. Þá er þáttur menntmrn. og menntmrh. í samskiptum þeirrar stofnunar og nýráðins framkvæmdastjóra að mínum dómi alveg sérstakt íhugunarefni.
    Dagblaðið Tíminn upplýsti í fyrri viku að menntmrh. hefði með óvenjulegum og óviðurkvæmilegum hætti skipt sér af úthlutun úr Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Vitnaði Tíminn til bréfs til stjórnar sjóðsins. Menntmrh. brást hinn versti við og þrætti fyrir þessa bréfagerð og skoraði á Tímann að birta slíkt bréf ófalsað ef til væri. Þetta gerði Tíminn strax næsta dag, og þar að auki bréf Hrafns Gunnlaugssonar til menntmrh. Ólafs G. Einarssonar, stílað á hann persónulega og ritað á bréfsefni fyrirtækis Hrafns, Film. Bréfið til stjórnar sjóðsins var undirritað fyrir hönd ráðherrans ,,på ministerns vägnar`` af þáv. ráðuneytisstjóra, Knúti Hallssyni.
    Standist hin fyrsta staðhæfing hæstv. menntmrh., að hann hafi ekkert um bréfið vitað fyrr en Tíminn birti það, þá eru starfshættir í menntamálaráðuneytinu íslenska næsta furðulegir. Þá hefur ráðuneytisstjóri rifið upp persónulegt bréf Hrafns Gunnlaugssonar til menntmrh. Ólafs G. Einarssonar og svarað því fyrir hönd ráðherrans að honum forspurðum. Þetta eru næsta furðuleg vinnubrögð og þó ekki væri nema vegna fordæmisgildisins algerlega óviðundandi. Undirtylla ráðherrans rífur upp bréf til ráðherrans, greinilega stílað á hann, svarar því upp á sitt eindæmi og undirskrifar fyrir hönd ráðherrans og að sjálfsögðu á ábyrgð ráðherrans samkvæmt lögunum um ráðherraábyrgð. Síðan sendir hann bréfið til erlendrar menningarstofnunar án vitundar ráðherrans. --- ,,Yes minister.`` Ég hef nú þekkt hæstv. menntmrh. lengi og mér þykir lítið leggjast fyrir þann góða mann ef hann lætur undirtyllu sína hlunnfara sig svona. Það er eitt að láta hinn góða verkstjóra í ríkisstjórninni, svo notað sé orðalag Hrafns Gunnlaugssonar, beygja sig til að undirskrifa heimskulegan gerning og hitt er að láta undirtyllu fara svona á bak við sig.
    Þá ber einnig að bæta því við að DV upplýsti það sl. fimmtudag að sonur Knúts Hallssonar ráðuneytisstjóra hafi verið ráðinn af Hrafni Gunnlaugssyni til arðvænlegs verkefnis á vegum sjónvarpsins eftir að Knútur hafði undirskrifað fyrir hönd ráðherrans.
    Hæstv. menntmrh. upplýsti í Morgunblaðinu 17. apríl, þvert ofan í yfirlýsingu í Tímanum fáeinum dögum fyrr, að hann hefði séð bréfið eftir að það var sent. Hæstv. menntmrh. var vel viti borinn meðan hann var þingflokksformaður Sjálfstfl. og ég hafði líka reynslu af því að hann var réttorður maður, sæmilega réttorður. Ég veit hins vegar ekki hvað hann er að gera í þessu ráðuneyti sem hann hefur valist til að veita forstöðu og bera ábyrgð á. Það er að verða nokkuð óljóst fyrir mér.
    Það er rétt að geta þess að í bréfi Hrafns til hæstv. menntmrh. Ólafs G. Einarssonar sem Knútur gerði innlegg í bréf menntmrh. er farið með algerlega staðlausar fullyrðingar eins og t.d. að Hin helgu vé gætu átt styrks von af Eurimage og þar að auki er hótun um málssókn sem er alveg fáránleg. Ég get þessa hér vegna þess að það er grafalvarlegt mál ef ríkisstjórn Íslands eða einstök ráðuneyti eða ráðherrar gera sig að fíflum á erlendum vettvangi. Það skaðar álit þjóðarinnar út á við. Svo umsvifamikill og frægur kvikmyndaframleiðandi og kvikmyndagerðarmaður sem Hrafn Gunnlaugsson er þarf að sjálfsögðu að hafa mikil fjármálaleg samskipti við framkvæmdastjóra sjónvarpsins, samanber þá starfslýsingu sem Pétur Guðfinnsson samdi á sínum efsta starfsdegi hjá sjónvarpinu 2. apríl 1993 og hæstv. menntmrh. lét verða fylgiskjal með ráðningarbréfi Hrafns. Ég er hérna með ljósrit af þessu bréfi og á það er skrifað með eigin hendi ráðherrans ,,Fylgiskjal með ráðningarbréfi Hrafns Gunnlaugssonar 2/4 1993. ÓGEi.`` Þetta er örugglega með hendi hæstv. menntmrh. og þarna hefur hvorki hæstv. forsrh. né Knútur Hallsson haldið um pennann né um hönd ráðherrans.
    Í þessari verklýsingu er getið um nokkur atriði sem framkvæmdastjórinn á að sinna:
    ,,Setja upp ytri ramma dagskrár og stjórna síðan gerð mánaðarlegra draga að dagskrá sjónvarpsins. Í framhaldi af því er síðan útfærð vikulega nákvæm dagskrá fyrir eina viku í senn. Framkvæmdastjóri er því í reynd yfirdagskrárstjóri sjónvarpsins. Framkvæmdastjóri er einnig yfirmaður kynningarþjónustu og öll framsetning og áferð heildardagskrár er í hans höndum.``
    Síðan segir: ,,Eitt mikilvægasta verkefni framkvæmdastjóra er að skipta því fé sem sjónvarpið fær til ráðstöfunar á ári hverju á milli deilda sjónvarpsins. Þetta vinnur hann þegar fjárlög liggja fyrir og gerir um það tillögur sem síðan eru lagðar fram í framkvæmdastjórn og í útvarpsráði.``
    Síðan segir: ,,Framkvæmdastjóri tekur virkan þátt í samstarfi norrænna og ervópskra starfsbræðra sinna og sækir alþjóðlega fundi á því sviði.``
    Síðan segir: ,,Framkvæmdastjóri hefur nokkurt fé til dagskrárgerðar á sínum vegum. Þar er um að ræða greiðslu fyrir samstarfsverkefni, norræn, evrópsk eða önnur. Undir þetta flokkast einnig ýmsir sérstakir atburðir og óvæntar uppákomur sem ekki er svo auðvelt að sjá fyrir.``
    Og ég bið menn að taka eftir: ,,Framkvæmdastjóri staðfestir með undirskrift sinni alla meiri háttar kaupsamninga á íslenskum kvikmyndum. Hann gerir samstarfssamninga við utanaðkomandi fyrirtæki, erlend og innlend.``
    Loks vitna ég hér í enn eina glefsuna í starfslýsingunni: ,,Á vegum skrifstofu framkvæmdastjóra er vinna allra deilda sjónvarpsins og tæknideilda samhæfð, nokkurs konar framleiðslustýring og á hans vegum er því endanleg úthlutun á tíma manna og tækjum.``
    Á þessum stuttu tilvitnunum í verklýsingu framkvæmdastjóra sjónvarpsins sést að starfinu fylgja margvísleg samskipti við kvikmyndagerðarmenn og fyrirtæki þeirra. Þegar sami maðurinn er beggja megin borðsins og semur við sjálfan sig er augljós hætta á hagsmunatengslum, bæði fjárhagslegum og annars

eðlis. Þetta vekur einnig tortryggni en vonandi ástæðulausa hjá öðrum kvikmyndagerðarmönnum sem ekki fá verkefni eða viðskipti. Það er því þeim mun meiri ástæða til varfærni þar sem framkvæmdastjórinn er eða hefur verið umsvifamikill í stjórnum stofnana kvikmyndaiðnaðarins og hefur átt margvísleg viðskipti við sjónvarpið, bæði meðan hann var dagskrárstjóri og eins meðan hann var í orlofi frá því embætti. Þá á kvikmyndamaðurinn margvísleg samskipti við menntmrn. Honum hefur tekist að selja menntmrn. kvikmyndir til sýningar í grunnskólum fyrir miklu hærra verð en aðrir og það án íhlutunar Námsgagnastofnunar og jafnvel þótt þær hafi verið bannaðar börnum.
    Í framhaldi af ráðningu Hrafns Gunnlaugssonar sem framkvæmdastjóra sjónvarpsins hefur orðið mikil umræða bæði um umsvif hans og starfshætti menntmrh. og ráðuneytis hans. Hrafn segist bera hreinan skjöld og vill hreinsa mannorð sitt og ég hef fullan skilning á því sjónarmiði. Yfirleitt trúi ég nú á það góða í manninum og menn eiga ekki að þurfa að liggja undir ámæli saklausir. Og sama máli hlýtur að gegna með hæstv. menntmrh. Honum hlýtur að vera kappsmál að sýna fram á að í ráðuneyti sínu sé hvergi óhreint mjöl í pokahorninu og starfshættir séu í lagi. Þetta er ekkert einkamál hæstv. menntmrh. eða Hrafns Gunnlaugssonar. Þetta er mál stofnana þeirra og þetta er mál sem allan almenning varðar. Þess vegna er rannsóknarnefnd alþingismanna, skipuð af Alþingi samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar, réttasta leiðin til þess að allur sannleikurinn komi í ljós. Nefndin fær víðtækt umboð til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar. (Forseti hringir.) Séu starfshættir stjórnvalda siðspilltir þá kemur það í ljós í nefndarstafinu. Séu þeir í lagi og viðkomandi saklausir og ekki neitt athugavert við aðdraganda eða forsendur ráðningar framkvæmdastjórans og ekki um nein óeðlileg tengsl að ræða, þá kemur það í ljós. Og það ætti að vera Hrafni og vinum hans og vinum menntmrh. mikið gleðiefni og fagnaðar að fá sig hreinsaða með þessum hætti.