Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 18:51:42 (7185)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ekki var nú merkileg málsvörnin hjá hæstv. menntmrh. Enn varð honum það á í þessum örfáu orðum að fara rangt með og er þó nóg komið af því að við héldum, t.d. hvað varðar minni hæstv. ráðherra varðandi þau bréf sem berast hans ráðuneyti eða fara frá því ráðuneyti. Hæstv. ráðherra fór hér rangt með þegar hann taldi sig finna hliðstæð fordæmi frá tíð fyrri ríkisstjórnar. Það dæmi sem hann nefndi var þannig vaxið að þar var fallist á uppsögn manns sem ásamt fleiri starfsmönnum hafði sagt upp störfum. Þar var því ólíku saman að jafna. Fallist var á uppsögn manns sem þegar hafði sagt starfi sínu lausu. Um slíkt var ekki að tefla í þessu tilviki og málsatvik ósambærileg að öðru leyti. Þetta er auðvitað heldur dapurlegt og ber vitni um þennan vonda málstað sem hæstv. menntmrh. er þrúgaður af að hann skuli þurfa að grípa til ósanninda trekk í trekk og gera þar með hlut sinn sífellt verri og verri í málinu. Og ég ráðlegg hæstv. menntmrh. að vera ekki að fara fleiri slíkar ferðir hér í ræðustólinn því það að lengja þann lista ónákvæmni, ósannsögli eða þá hreinlega vanhæfni, sem hæstv. ráðherra er orðinn ber að í þessu máli, er honum sjálfum fyrir verstu.