Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 18:59:35 (7187)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Atburð sé ég anda mínum nær. Fyrir liðlega 10 árum eða svo voru í forustu Alþfl. menn sem kunnu skil á formlegum kröfum í stjórnmálum annars vegar og siðrænum kröfum hins vegar. Þeir menn virðast ekki lengur vera til í forustu Alþfl. Hæstv. utanrrh. fór með þuluna um fjölskipað eða ekki fjölskipað stjórnvald. Hún breytir engu í þessu máli en má ég þó minna á að hann fékk málið þegar ég skipaði tiltekinn skólastjóra á sínum tíma þó hann hafi kosið að ganga fram með þeim hætti sem menn þekkja í þessu sérstaka Hrafnsmáli af því að þessum utanrrh. þykir greinilega vænna um núv. stjórn en þá sem þá sat og það segir mikið um grundvallarpólitíska innstillingu hans.
    Staðreyndin er auðvitað sú að málið er siðlaust með öllu, hæstv. forseti. En ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann þeirrar skoðunar að það þurfi að verða til nefnd, stofnun eða hvað við eigum að kalla það sem getur tekið á öllum þáttum máls af þessu tagi, hinum lögformlega, hinum fjárhagslega og hinum siðræna þætti líka sem Alþfl. einu sinni kunni skil á fyrir rúmum 10 árum en hefur núna gleymt eins og flestum grundvallaratriðum jafnaðarstefnunnar?