Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:23:50 (7198)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þetta mál er margslungið. Í því felast spurningar um fjármálalega misnotkun á valdi, vissulega, og auðvitað er það rétt að það er verkefni Ríkisendurskoðunar að skoða fjármálalega þætti. En þetta mál felur líka í sér spurninguna um misnotkun á valdi, margvíslegu valdi, bæði embættislegu valdi og pólitísku valdi og það er ekki verkefni Ríkisendurskoðunar að fjalla um það.
    Hæstv. utanrrh. reyndi í tilfinningaþrunginni vörn sinni fyrir snúningi Alþfl. í þessu máli að vísa til þess að sú tillaga, sem við höfum flutt um skipun nefndar samkvæmt ákvæðum í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, væri brot á grundvallarreglum lýðræðisríkja. Má ég minna hæstv. utanrrh. á það að í Bandaríkjunum tíðkast það nánast á hverju ári að þingnefndir fjalli um mál af þessu tagi. Má ég minna hæstv. utanrrh. á það að einhver frægasta nefnd þessarar tegundar í sögu Bandaríkjaþings á síðustu áratugum var Watergate-nefndin þar sem þingið í Bandaríkjunum taldi nauðsynlegt að rannsaka pólitískt misferli sem síðan leiddi til þess að forsetinn sagði af sér. Það er þess vegna fjöldi dæma um það í nútímalýðræðisríkjum á Vesturlöndum að þingið taki að sér verkefni af þessu tagi.

    Má ég líka minna hæstv. utanrrh. á það að hann gleymdi því í hinni sérkennilegu vörn fyrir snúningi Alþfl. í málinu að Alþingi kýs pólitíska endurskoðunarmenn ríkisreiknings. Formaður þingflokks Sjálfstfl., Geir H. Haarde, hefur gegnt því starfi. Nú gegnir einn þingmaður Sjálfstfl., Pálmi Jónsson, slíku starfi ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni. Og það var sérkennilegt, hæstv. utanrrh., að utanrrh. skyldi kjósa sjálfur, og ég bið hann að hlusta á mig, skyldi kjósa sjálfur að draga inn í þessa umræðu það mál sem hér var fyrir nokkrum árum og snerti meintar ásakanir vegna áfengiskaupa hæstv. utanrrh. Hvað gerðist því máli, hæstv. utanrrh.? Það sem gerðist var það að gögn láku út úr ríkisstofnun og framganga ýmissa manna í því máli var auðvitað með þeim hætti að embættismaður hjá þeirri stofnun sem átti í hlut var látinn víkja, hæstv. utanrrh., var látinn víkja vegna þessa máls. Og það er þess vegna fyrir okkur sem þekkjum þessa sögu, hæstv. utanrrh., napurt að það skuli einmitt vera Geir H. Haarde, þáv. endurskoðunarmaður ríkisreikninga, núv. formaður þingflokks Sjálfstfl., sem er látinn flytja þessa tillögu sem hæstv. utanrrh. ætlar greinilega að greiða atkvæði. Það er napurt, hæstv. utanrrh., fyrir okkur sem þekkjum sögu þessa gerningaveðurs sem hæstv. utanrrh. kaus að koma með hér inn í umræðuna. Það verður einhvern tíma talinn athyglisverður punktur í þeirri sögu.
    Auðvitað er það þannig að okkar tillaga fjallar ekki bara um fjármálalegt misferli, hugsanlegt. Hún fjallar fyrst og fremst um það að rannsaka aðdraganda og forsendur fyrir ráðningu framkvæmdastjóra sjónvarpsins. Hvað er búið að upplýsa síðan þessi tillaga kom fram? Það er í fyrsta lagi búið að upplýsa það að Hrafn Gunnlaugsson skrifaði menntmrh. bréf um að menntmrn. beitti sér fyrir því að þjónusta fjárhagslega hagsmuni Hrafns Gunnlaugssonar í norrænum kvikmyndasjóði. Hvað var gert vð þetta bréf? Ráðherrann fékk aldrei að sjá það. Ráðuneytisstjórinn svaraði því án þess að ráðherrann fengi að sjá það og síðan ræður Hrafn Gunnlaugsson son ráðuneytisstjórans til óljósrar dagskrárgerðar í sjónvarpinu. Kannski eru þetta tilviljanir allt saman. Kannski eru það tilviljanir. En kannski er það ábending um vefinn, vef áhrifa og valds sem er ofinn fram hjá og í kringum hæstv. menntmrh. Og auðvitað er það þannig, hæstv. menntmrh., að ráðherrann ætti auðvitað að kalla Hrafn Gunnlaugsson til sín, núv. framkvæmdastjóra sjónvarpsins, og spyrja: Vissi hann þá að ráðuneytisstjórinn hafði ekki rætt málið við ráðherrann þó að bréfið væri stílað til ráðherrans? Var Hrafn Gunnlaugsson í vitorði með Knúti Hallssyni um það að leyna hæstv. menntmrh. þessu máli?
    Málið er auðvitað allt með þeim hætti að það krefst ítarlegrar skoðunar, hæstv. ráðherra, út frá stjórnsýslunni, ekki bara hinu fjárhagslega misferli. Og ég vil nefna fleira. Er það tilviljun, hæstv. utanrrh., að eitt fyrsta verk hins nýja dagskrárstjóra, Hrafns Gunnlaugssonar þegar hann kemur aftur til starfa er að ákveða að mynd eftir Lárus Ými, sem átti að verða páskamynd sjónvarpsins, er ekki sýnd? Hún er ekki sýnd. Er það tilviljun? Er það tilviljun að þegar Hemmi Gunn er búinn að ákveða að hafa í sínum þætti viðtal við Albert Guðmundsson, þá er það fyrsta verk vinar forsrh., Hrafns Gunnlaugssonar, í hinu nýja starfi að segja: Nei, ekkert viðtal við Albert Guðmundsson? Eru þetta allt saman tilviljanir, hæstv. ráðherra? Er það virkilega þannig að allur þessi vefur, sem hefur fléttast hérna upp fyrir framan þjóðina, sé bara tilviljun? Eða er það markviss misnotkun á embættislegu valdi í þágu pólitískra hagsmuna, listrænna hagsmuna ákveðinna manna þar sem níðst er á öðrum þegar búið er að ákveða að þeirra mynd, mikilvægt verk, verði páskamynd sjónvarpsins, þá er því ýtt til hliðar. Það vita auðvitað allir hér að Lárus Ýmir er sá maður í hópi íslenskra kvikmyndagerðarmanna sem hefur haft burði til að andmæla Hrafni Gunnlaugssyni á vettvangi kvikmyndagerðarmanna á undanförnum árum og þá er það eitt fyrsta verkið að segja: Hans mynd út af dagskránni sem páskamynd. Hann er ekki hluti af því kerfi sem dagskrárstjórinn lýsti sjálfur sem ,,ég og vinir mínir``. Ég og vinir mínir. Það eru þeirra myndir sem verða sýndar. Þetta mál er þess vegna allt þannig vaxið, hæstv. ráðherrar, að Ríkisendurskoðun getur ekki lokið þessu máli.
    Ég er út af fyrir sig alveg tilbúinn til þess að ræða það ef ráðherrarnir vilja ræða málið, en þetta er ekki bara orðið neyðarmál milli ríkisstjórnarflokkanna, að sá þáttur málsins sem snertir fjármálin sé falinn Ríkisendurskoðun. En það sem snertir hugsanlega misnotkun á embættislegu valdi, bæði í menntmrn. og í sjónvarpinu til að mismuna íslenskum listamönnum, til þess að skerða jafnræði á sviði lista á Íslandi, það sé skoðað því það er alvarlegur hlutur ef hér er verið að setja upp kerfi og hefur verið í gangi sem mismunar listrænu frelsi og listrænu jafnrétti á Íslandi. Það vita auðvitað allir sem vinna að þessum verkum að það er fjöldi íslenskra kvikmyndagerðarmanna sem höfðu fengið sams konar vilyrði og Hrafn Gunnlaugsson frá hinum norræna sjóði og kannski jafnvel betra vilyrði, skýrara vilyrði. En ekki fór menntmrn. að beita sér í þágu þeirra, nei, alls ekki. Þvert á móti var því beitt bara í þágu eins manns. Og er það ekki stórkostlegt dæmi um þennan vef, þennan vef vináttu, valds og áhrifa að það kom í ljós á þessum sömu dögum og þetta mál er til umræðu að formaður stjórnar Menningarsjóðs útvarpsstöðva hafi ákveðið að fela Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að gera kvikmynd, handrit að kvikmynd. Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Nei, kæru vinir á ráðherrastólum, við skulum ekki láta svona kerfi misnotkunar sem hugsanlega kemur niður á listrænu jafnrétti í landinu þróast hér áfram. Við skulum hreinsa þetta út.