Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:32:22 (7199)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. nefndi Watergate og setti síðan á innblásna ræðu um frelsi listamanna til þess að starfa án opinberrar íhlutunar og án mismununar. Hann hefði líka getað nefnt aðra nefnd sem var jafnvel enn þá frægari. Hún var kennd við McCarthy og var einmitt sett upp á þeim forsendum að ríkisvaldið og þingið taki sér vald til þess að segja hverjir væru rétt bornir og réttbærir til þess yfirleitt meðal bandarískra listamanna að halda mannréttindum. Það sem ég er að segja er einfaldlega þetta, virðulegi forseti: Ríkisendurskoðun dæmir ekki í siðferðilegum efnum, það er alveg rétt, mikið rétt. Hún svarar bara þessari spurningu: Er sannleiksgildi fólgið í þeim ásökunum sem bornar hafa verið fram í þessum ræðustól og fjölmiðlum um margvíslegt fjármálalegt misferli í samskiptum þessa einstaklings og ríkisstofnana? Því getur Ríkisendurskoðun svarað. Hún er bær til þess. Hún er hlutlaus dómari í því efni, ekki satt? Um það geta menn verið sammála.
    Þá kemur að hinu, hver á að dæma hinn siðferðilega þátt, um það hvort ráðherrann hafi t.d. brotið lög eða misbeitt valdi sínu? Það gerir ekki Ríkisendurskoðun. Hverjir gera það? Gera það hv. þm. Páll Pétursson, Svavar Gestsson og Ólafur Ragnar Grímsson? ( SvG: Gunnlaugur Stefánsson). Og, við skulum taka hv. þm. á orðinu, síðan ef það kæmu fulltrúar stjórnarflokkanna sem hefðu annað pólitískt mat á umræddum einstaklingi --- það var nefnilega einn hv. þm. sem sagði: Samkvæmt útvarpslögum er það svo að það er menntmrh. sem skipar framvæmdastjóra þótt útvarpsstjóri skipi aðra. Með öðrum orðum, menntmrh. er pólitískur aðili og menn koma hér síðan og segja og eins og hv. þm. Svavar Gestsson taldi upp: Þeir hafa skipað fullt af mönnum sem eru sjálfstæðismenn. Við erum á móti því.
    Ég vil ekki taka ábyrgð á öllum þeim embættaveitingum sem starfsfélagi minn í ríkisstjórn á sínum tíma, hv. þm. Svavar Gestsson, vélaði um, enda ber ég ekki ábyrgð á því. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald. En menn verða að gera greinarmun á einu. (Forseti hringir.) Ef um er að ræða fjárhagsásakanir um fjárhagslega misbeitingu, þá er það Ríkisendurskoðun. Ef menn eru að tala um misbeitingu á valdi, þá vill svo til að hér stendur í 26. gr. þingskapa:
    ,,Heimilt er nefnd að eigin frumkvæði að fjalla um önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar.`` Gjörið þið svo vel.