Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:35:01 (7200)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er athyglisvert tilboð. Er hæstv. utanrrh. reiðubúinn að sameinast með okkur um að það skuli vera sú nefnd þingsins sem þetta mál heyrir undir sem framkvæmir þessa rannsókn? Ég er alveg tilbúinn að ræða það. Ég er einn af flm. þessarar tillögu og ef utanrrh. vill gera það til málamiðlunar að það verði frekar þingnefnd sem annist þetta verk, þá skal ekki standa á mér að mynda þá samstöðu. Ég er tilbúinn, hæstv. ráðherra. ( Utanrrh.: Hv. þm. þarf ekki að semja við mig um þingsköp.) Þetta er ekki spurning um þingsköp, en það var spurning: Meinar hæstv. ráðherra eitthvað með því sem hann er að segja hér? Hann virtist vera að bjóða upp á það að málið væri kannað með þessum hætti vegna þess að það var þó áfangi í umræðunni að í þessari síðustu ræðu hæstv. utanrrh. var hann farinn að viðurkenna að það væru ýmsir þættir í þessu máli sem Ríkisendurskoðun gæti ekki kannað og það er auðvitað grundvallaratriði þegar hæstv. utanrrh. er búinn að viðurkenna það að sú tillaga, sem hæstv. menntmrh. hefur gert við Ríkisendurskoðun, snýr bara að hluta málsins. Og þá verður það spurningin hvort ríkisstjórnin vill láta kanna málið allt, hreinsa það allt út eða ekki. Hreinsa m.a. það út hvort valdinu hefur verið misbeitt pólitískt í þágu annarlegra hagsmuna.
    Hæstv. ráðherra nefndi McCarthy-tímann. Það er alveg sjálfsagt að taka það hér upp. Var það McCarthy-ismi að mynd Lárusar Ýmis var sett út af páskadagskránni af Hrafni Gunnlaugssyni? Var það McCarthy-ismi að banna Hemma Gunn að tala við Albert Guðmundsson? Ég er alveg tilbúinn að láta skoða þá pólitísku hugsun sem hefur stýrt völdum þessara manna. Var það kannski ekki jákvæður McCarthy-ismi að láta vin sinn Hannes Hólmstein fá rúmar 2 millj. til að gera kvikmyndahandrit?