Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:39:26 (7202)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er dálítið fróðlegt að fylgjast með Alþfl. Fyrir þá sem eru að hlusta á þessa umræðu er rétt að segja frá því að það er einn forustumaður Alþfl. sem fyrir nokkru hvarf úr salnum. Það er formaður þingflokks Alþfl., hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hann hefur ekki verið viðstaddur þessar ræður hæstv. utanrrh. Kannski er það nú smávottur um að það sé þó til heil hugsun enn þá hjá formanni þingflokks Alþfl. að hann hefur flúið salinn undir ræðum hæstv. utanrrh. af því að formaður þingflokks Alþfl. veit að nú er samviskan orðin vond, nú er málstaðurinn orðinn veikur.
    Þegar þetta mál var fyrr rætt hér í þinginu, þá talaði hv. þm. Össur Skarphéðinsson einn fyrir Alþfl. Ræða hans fékk víðtækan hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Síðan hefur málið verið kallað inn á teppið hjá hæstv. forsrh. og Sjálfstfl. og nú mætir formaður Alþfl. með vörn sem, hæstv. ráðherra, er aumkunarverð. Hún er aumkunarverð. Ef ráðherrann er sammála okkur hinum um það að í þessu máli þurfi að skoða fleira en hin fjárhagslegu tengsl eða hina fjárhagslegu misnotkun --- og hann er búinn að segja það hér aftur og aftur að í þessu máli séu þeir þættir líka til, spurningin er um hugsanlega misbeitingu valds, spurningin um pólitísk ítök, hugsanleg spurning um siðferðilegan brest --- þá skulum við sameinast um það, hæstv. utanrrh., að finna farveg fyrir athugun á því máli.
    Ég hef ekki sóst eftir sæti í þessari nefnd þó að ráðherrann sé hvað eftir annað búinn að segja að ég eigi að vera þar. Ég er meira að segja tilbúinn til þess að Alþfl. eigi alla menn í nefndinni. Ég er tilbúinn til þess að veita þetta yfir á þingnefnd sem er undir forustu stjórnarflokkanna. Ég er tilbúinn til þess að kjósa nefnd óháðra manna utan þings. Ég er tilbúinn í allar slíkar hugmyndir. En það er bara eitt sem ég er ekki tilbúinn til, hæstv. utanrrh., það er að láta þögnina geyma þá þætti í þessu máli sem þarf einna helst að kanna.