Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:53:30 (7207)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti Ég vil benda hæstv. utanrrh. á að það eru ekki bara orð sem hafa verið gengisfelld í pólitík. Siðferðið hefur líka verið gengisfellt í pólitík, alvarlega, og það er tímabært að reyna að skrifa upp kúrsinn á siðferðinu í stjórnmálum. Ef það er svona mikill þyrnir í augum hæstv. utanrrh. að það séu þingmenn sem fara í þessa nefnd, þá segi ég eins og fleiri sem hér hafa talað: Ég er alveg tilbúin til þess að skoða það að staðið verði að því með einhverjum öðrum hætti, að það verði t.d. skipuð nefnd einhverra hlutlausra aðila sem við getum kallað svo til þess að skoða þetta mál, aðila sem væru þá tilnefndir af einhverjum stofnunum í samfélaginu og það verði þá engir pólitíkusar sem komi nálægt því eða nálægt því að tilnefna í slíka nefnd. Mér finnst það alveg til skoðunar og ég væri alveg tilbúin til þess að ræða það að breyta t.d. þessari tillögu með þeim hætti. Þetta segi ég bara fyrir mig perónulega og hef svo sem ekki haft samráð við neinn um það mál. En ef það eitt er svona mikill þyrnir í augum ráðherra að það séu þingmenn í nefndinni, þá finnst mér að það hljóti að koma til skoðunar.