Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 19:54:47 (7208)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur verið mjög athyglisverð og satt að segja hefur ýmislegt komið fram í máli hæstv. utanrrh. sem bendir til þess að hann hljóti að vera tilbúinn til að beita sér fyrir því og ég spyr hæstv. utanrrh. að því: Er hann tilbúinn til að beita sér fyrir því að afgreiðslunni á tillögu hv. þm. Geirs H. Haarde verði frestað? Ég spyr að gefnu tilefni vegna orða hans í þessari umræðu þar sem hann hefur aftur og aftur látið að því liggja að aðrar leiðir kæmu til greina. En hæstv. ráðherra hefur valið ef hann styður tillögu hv. þm. Geirs H. Haarde þá hefur hann kosið hörðustu og grimmustu leiðina í raun og veru. Hvaða leiðir eiga hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihlutinn í þessu máli? Hann á auðvitað þá leið að fallast á þá tillögu sem hér er til umræðu. En hann á líka þá leið að vísa tillögunni til þingnefndar samkvæmt þingsköpum, annaðhvort til allshn. eða viðkomandi nefndar, þ.e. menntmn. En niðurstaða hæstv. utanrrh. er sú að tillagan má ekki einu sinni fara til þingnefndar. Það á að hafna því áður en þingnefnd fær að fjalla um málið.
    Í öðru lagi á hann þá leið að ákveða að málið fái meðferð --- og það er pólitísk ákvörðun --- samkvæmt 26. gr. þingskapa, þ.e. í menntmn., og að málinu verði frestað á meðan að öðru leyti. Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að fallast á það? Nei, ekki samkvæmt tillögu hv. þm. Geirs H. Haarde, ef hæstv. ráðherra styður þá tillögu sem ég trúi að hann geri.
    Hæstv. ráðherra á þann kost líka í þessu máli, ef honum er svona umhugað að lendingin verði málefnaleg, að beita sér fyrir því að það verði sett niður óháð nefnd utan þingsins en fyrir því eru fjölmörg dæmi líka. Nei, hæstv. ráðherra hefur líka hafnað því og í raun og veru ákveðið að banna Alþingi að ræða málið. Að banna Alþingi Íslendinga að ræða málið. Og hver er að fella dóm? Hver er dómstóllinn hér í dag? Það er hæstv. utanrrh. og Sjálfstfl. sem ætla að neita Alþingi um að fá að fjalla um þetta mál. Hér er um að ræða atlögu að þjóðfélagsgerðinni, atlögu að grundvelli þingræðis og lýðræðis í okkar landi vegna þess að þetta mál snertir allt sviðið.
    Auðvitað er það svo, virðulegi forseti, að það væri hægt að hugsa sér það að allar ákvarðanir á tilteknum siðlausum hlutum væru taldar löglegar. Það væri hægt að huga sér það, virðulegi forseti, t.d. að einhver einn maður hefði fengið alla dagskrárpeninga framkvæmdastjóra sjónvarpsins, 26 millj. á ári. Það væri löglegt en það væri siðlaust. Það væri hægt að hugsa sér það að einn maður fengi alla peninga Kvikmyndasjóðs á ári. Það væri löglegt en það væri siðlaust. Það væri hægt að hugsa sér það að einn maður fengi að sýna sínar myndir í sjónvarpinu en aðrir ekki. Það væri formlegur gerningur réttur. Það væri löglegt en það væri siðlaust. Og það vær hægt að hugsa sér það að sami aðilinn og hefði notið þessara fríðinda þó ekki væri nema að hálfu leyti yrði skipaður yfirmaður sömu stofnunar. Það getur verið löglegt en það er siðlaust. Og fyrir þetta kerfi gengur nú Alþfl. og formaður hans fremst í víking til að verja. Og ég spyr, virðulegi forseti: Hvar er Alþingi Íslendinga statt ef við höfum enga möguleika af neinu tagi til að ræða mál af þessum toga málefnalega og yfirvegað í rólegheitum af því að meiri hlutinn hefur gert sig að

dómstóli? Alþýðudómstóllinn í þessum sal heitir Jón Baldvin Hannibalsson samkvæmt umræðunni hér í dag, virðulegi forseti.