Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 20:12:23 (7212)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Alveg var þetta dæmigerður Steingrímur J. Sigfússon, með allri virðingu. Nú var talað um það að þetta væri sko Alþfl., þetta væri flokksmál og síðan fór hann auðvitað í gamla hjólfarið um að reyna að gera tortryggilega ráðningu menningarfulltrúa í London o.s.frv. En það er ekki einleikið. Þeir sem flutt hafa þessa tillögu koma nú hér hver á fætur öðrum upp í ræðustól og vilja semja um tillöguna. Þeir eru tilbúnir til að draga hana til baka, breyta henni, taka upp aðra tillögu o.s.frv. Með öðrum orðum eru þeir farnir að sjá það þrátt fyrir allt að þetta er ekki alveg sjálfgefið og klárt mál.
    Flestar af þeim ásökunum sem bornar hafa verið á umræddan mann eru fjárhagslegs eðlis. Þær varða viðskiptaleg tengsl hans við sjónvarpið, við Námsgagnastofnun, við sjóðaúthlutanir og eitthvað þess

háttar. Flest af þessu er af því tagi eftir því sem ég hef heyrt af ásökunarlistanum hingað til. Um þau mál eru þeir aðilar, sem nefndir hafa verið til, Ríkisendurskoðun, fjárln. og jafnvel skoðunarmenn ríkisreiknings, fyllilega bærir að fjalla. Þeim ber meira að segja skylda til þess.
    Hvað er það svo hitt? Eru það ekki fyrst og fremst einhverjar ásakanir á hæstv. menntmrh. um að hann hafi misbeitt valdi sínu, ekki við það að setja þennan mann til eins árs, það hefur enginn sagt að það væri ólöglegt eða neitt þess háttar, heldur hvað? Heldur vegna þess að þessi einstaklingur hafi hugsanlega gert sig sekan um eitthvað og þess vegna sé maðurinn --- ja óhæfur. Hvað er þá eftir af þessari tillögu? Allir vita það að þótt hv. stjórnarandstæðingar sem hér hafa borið þessar ásakanir fram settust í nefnd, þá verður hún ekkert merkilegri fyrir það. Hún verður enginn dómstóll. Hún er ekki bær til þess að kveða upp neina slíka dóma. Hún er bara í sinni pólitík eins og hv. þm. sem sagði: Ja, hvað með menningarfulltrúann í London, en ætlast væntanlega ekki til þess að ég svari líku líkt. Ég ætla a.m.k. að hlífa honum við því, enda kemur það þessu máli ekkert við. Niðurstaðan er með öðrum orðum þessi: Flm. tillögunnar eru farnir að segja: Ja, við erum alveg tilbúnir að draga hana til baka, semja um hana eða koma með eitthvað annað. Þá það. En ég sem ekki við þá úr þessum ræðustól.