Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 20:28:04 (7217)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. Þögn þeirra segir yður sannleikann. Það er sagt um framgöngu valdsmanna. Ég fór hér með lýsingu á því hver væri hlutur hæstv. forsrh. í þessu máli. Ég dró hér inn í umræðuna hvernig núverandi og fyrrverandi framkvæmdastjórar sjónvarpsins hafi ekki treyst sér til að segja sannleikann um samskipti sín við forsrh. vegna þess að þá væru þeir að afhjúpa forsrh. sem ósannindamann gagnvart þjóðinni. Hæstv. utanrrh. segir ekki orð um það í sínu andsvari. Ekki orð. Er það vegna þess að hæstv. utanrrh. veit að afskipti hæstv. forsrh. þola ekki dagsljósið í þessu máli vegna þess að þá yrði hæstv. forsrh. að víkja? Þá yrði forsrh. í siðuðu lýðræðisríki að víkja. Ef hæstv. utanrrh. vildi hafa uppi þær siðferðiskröfur sem hann hefur hér í umræðunni talað fyrir gagnvart stjórnmálamönnum, þá veit hann að ef það yrði sannað í rannsókn hlutlausra aðila að forsrh. Davíð Oddsson hefur sagt ósatt um hlut sinn í þessu máli, þá væri hann ekki deginum lengur forsrh. Það er ekkert okkar sem flytjum þessa tillögu sem segir að það sé þingnefnd samkvæmt þessari grein stjórnarskrárinnar sem sé aðalatriðið. Við höfum sagt, hæstv. utanrrh.: Það er sannleikurinn sem er aðalatriðið. ( Utanrrh.: Sannleikurinn mun gera yður frjálsa.) Hann mun gera okkur frjálsa, já, hæstv. utanrrh., og hann mun gera þjóð þína og okkur frjálsa ef þú þorir að láta hlutlausa aðila kanna hlut forsrh. í málinu. Og þess vegna er spurning mín hér: Þorir hæstv. utanrrh. að láta hlutlausa aðila kanna hlut forsrh. í málinu eður ei? Við erum tilbúnir til þess að sjálfsögðu að breyta þessari tillögu á þann veg að þjóna samstöðunni og sannleikanum. En hæstv. utanrrh. hefur hér bara talað fyrir þögninni, þögninni um ósannindi hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar í þessu máli. ( Utanrrh.: Vei yður, þér hræsnari.)