Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 21:02:31 (7225)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er eins og fyrri daginn, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði náttúrlega ekki neitt. Hann var ekki með neinar sakfelllingar, alls ekki. Hann benti bara á missagnir, eins og það heitir núna í þessari ræðu hv. þm. Ég þekki auðvitað ekkert einkasamtöl hæstv. forsrh. við einn né neinn. Ég þekki það ekki. En ég þekki mætavel þau tilmæli Péturs Guðfinnssonar við mig um að fá leyfi frá störfum. Því hef ég skýrt frá fyrir lifandi löngu og þau tilmæli voru endurvakin öðru hverju frá því skömmu eftir að ég kom í ráðuneytið. Það eru staðreyndir málsins þannig að það þurfti enginn að biðja Pétur Guðfinnsson um að taka sér frí frá störfum. Það þurfti ekkert annað en ákvörðun mína. (Gripið fram í.) Þannig var það. ( ÓRG: Hver borgar launin hans?) Hver borgar launin hans? Það verður samkomulag á milli ríkisútvarpsins og menntmrn. Það hef ég þegar rætt við fjármálastjóra ríkisútvarpsins og það er mál sem verður samkomulag um þannig að það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að Pétur Guðfinnsson fái ekki laun í fríinu. Það verður staðið við það. Það er til vísa sem er einhvern veginn á þessa leið:

    Viljirðu svívirða saklausan mann,
    segðu engar beinar skammir um hann,
    heldur læturðu aðeins í veðrinu vaka,
    þú vitir hann hafi unnið til saka.

( PP: Ákveðnar skammir.) ( SvG: Ráðherrann kann ekki vísuna.) ( ÓÞÞ: Hún hefur versnað mjög, vísan.)