Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 21:04:19 (7226)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef fyrst og fremst í ræðum mínum hér seinni hluta þessarar umræðu rætt um hæstv. forsrh. Hann hefur verið hér í húsinu. Hann hefur hins vegar ekki þorað að vera í þingsalnum. Hvers vegna skyldi hæstv. forsrh. Davíð Oddsson ekki þora inn í þessa umræðu? Hvernig stendur á því að hæstv. forsrh. leggur ekki í það að segja hér í ræðustólnum, ræðustóli Alþingis, það sem hann hefur sagt við þjóðina að hann hafi ekki komið nálægt þessu máli? Er kannski skýringin sú að hæstv. forsrh. veit að hann hefur sagt þjóðinni ósatt og hann leggur ekki í það að endurtaka ósannindin hér í ræðustóli á Alþingi og þess vegna er hann fjarverandi? Það hlýtur að vera einhver skýring á því hvers vegna leiðtogi ríkisstjórnarinnar, formaður Sjálfstfl., í ljósi alls þess sem sagt hefur verið í þessu máli þorir ekki að vera í þingsalnum í þessari umræðu og þorir ekki að taka til máls. Og sú þögn og sú fjarvist hrópar miklu hærra heldur en ræður hæstv. menntmrh. í þessari umræðu.