Vaxtamál

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 13:44:51 (7236)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða við hæstv. forsrh. Ég sá að hann hafði gengið hér í sal í upphafi fundar en sætið er autt.
    Hæstv. forseti. Kjarasamningar eru strand og mér sýnist að ríkisstjórninni takist ekki að skapa efnahagslegar forsendur fyrir t.d. lækkun vaxta og hægri höndin virðist ekki vita hvað sú vinstri gjörir. Fjármagnskostnaðurinn og vaxtatilboðin í fjármagnið eru ein aðalorsök vandans. Ríkisstjórnin og lífeyrissjóðirnir með aðila vinnumarkaðarins á bak við sig ráða vaxtatilboðum til sparifjáreigenda, enda er innlendur fjármagnsmarkaður að færast í skrýtið horf. Sem dæmi um það jukust innlán í bönkum og sparisjóðum úr 144 milljörðum 1970 í 170 milljarða 1992. Á sama tíma stækkuðu lífeyrissjóðirnir úr 118 milljörðum í 171 milljarð og eru orðnir stærstu sparendur í þjóðfélaginu. Hins vegar hefur ríkissjóður stækkað hlut sinn úr 52 milljörðum 1990 í 105 milljarða 1992. Þar af eru húsbréf orðin 36 milljarðar. Allur nýr sparnaður er að falla í einn farveg. Þessar tölur sýna að það eru ríkisstjórnin og lífeyrissjóðirnir sem ráða vaxtastiginu sem allt er að sliga. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvers vegna var það 24. mars þegar ríkisstjórnin ákvað að Seðlabankinn lækkaði vexti með ákveðnum aðgerðum að sama dag gerist það í útboði ríkisins að vextir á ríkisbréfum hækka úr 12,40 í 12,43%? Sama dag gerist það einnig í útboði á húsbréfum að þau eru

tekin á 7,25 sem var í næsta tilboði á undan 7,20. Ætla má að ríkisstjórnin hafi gjörþekkt áætlun Seðlabankans um vaxtalækkun, en hvers vegna veit hægri höndin ekki um þá vinstri? Sömu daga er ríkisstjórnin að hækka vexti eins og ég hér gat um. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann kann skýringu á þessari þróun.