Vaxtamál

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 13:47:27 (7237)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna fyrirspurnar hv. 5. þm. Suðurl. hef ég í sjálfu sér ekki endanlegt svar um þetta, en ég hef mína skoðun á því. Ég hef mína skoðun á því að meginástæðan til þess að vextir í þessu útboði á þessum tiltekna degi sem hv. þm. nefndi hækkuðu lítillega, og gengu þá, eins og hv. þm. sagði réttilega, þvert á þá þróun sem hafði verið á undanförnum dögum þar á undan, hjá Seðlabanka, og reyndar bönkum, hafi verið sú að akkúrat þessa tvo, þrjá daga sem þetta útboð stóð yfir voru uppi mjög háværar kröfur um gengisfellingu í landinu af hálfu hagsmunaaðila. Ég er þeirrar skoðunar, og það er eingöngu skoðun, að sú háværa krafa um gengisfellingu, akkúrat á þeim dögum sem útboðið stóð yfir, hafi verið til þess fallin að skapa mikla óvissu, hafi því ekki verið til þess fallin að menn treystu sér til þess að kaupa víxla þrjá til sex mánuði fram í tímann með lækkun í huga. Þessi gengisfellingarkór skapaði þessa óvissu og leiddi til hærri vaxta þarna.